Út er komin bráðskemmtileg dagbók sem hefur að geyma dagatal og 53 stutta texta, einn fyrir hverja viku, þar sem kynntir eru heimspekingar meðal kvenna í sögu og samtíð. Þetta er í annað sinn sem slík dagbók kemur út en sú fyrri, sem Sigríður Þorgeirsdóttir setti saman, var fyrir árið 2014. Að þessu sinni eru ritstjórarnir, þær Erla Karlsdóttir, Eyja Margrét Brynjarsdóttir, Nanna Hlín Halldórsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir en hönnun er í höndum þeirra Hildigunnar Gunnarsdóttur og Snæfríðar Þorsteins.
Í texta frá höfundum segir:
„Hvað er yin og yang og hvernig tengist þetta hugtakapar kvenleika og karlmennsku? Hvað er samfélagssáttmáli og hvernig má endurtúlka hann með tilliti til kyns og kynþáttar? Hvað segja nornabrennur í Evrópu okkur um samfélagsskipan við upphaf nýaldar? Eigum við að hlusta á innsæið og þær tilfinningar sem við geymum í maga okkar?
Í amstri hversdagsins er ágætt að hafa við hlið sér dagbók til að skrá þau verkefni sem við myndum annars gleyma: Að mæta á húsfund á fimmtudagskvöldi eða til læknis á þriðjudagsmorgni. Stundum þegar við setjumst niður til þess að skrá slíkt hjá okkur tekur hugurinn ósjálfrátt að flögra um, með pennanum byrjum við að teikna alls kona mynstur eða blóm, hlustum á umferðarniðinn í fjarska …eða lesum um eins og einn heimspeking!
Saga mannlegrar hugsunar birtist í öðru ljósi þegar hún er sögð út frá heimspeki kvenna. Konur hafa ævinlega stundað heimspeki þótt framlag þeirra hafi oftar en ekki legið í þagnargildi. Með því að varpa ljósi á margvíslega hugsun kvenna í gegnum söguna er vakin athygli á því að heimspekin er hvorki eingetið afkvæmi karla né bundin við hefðbundna framsetningu á sögu heimspekinnar. Enn fremur er dagbókarformið notað hér sem tilraun til þess að miðla fræðum með nýstárlegum og aðgengilegum hætti og opna heimspekilegar glufur innan um þá atburði sem við skráum hjá okkur í dagbækur.
Heimspekin hefur alltaf spannað vítt svið og við val á hugsuðum höldum við okkur ekki alltaf innan þröngra marka akademískrar heimspeki samtímans.“
Hér fáum við að skyggnast í heimspekidagbókina og lesa um heimsspekinginn Harriet Martineau. Það er Eyja M. Brynjarsdóttir sem skrifar:
43. Harriet
Harriet Martineau (1802–1876) var fræðikona sem fjallaði um ýmiss konar samfélagsmál, svo sem stjórnmál, hagfræði og siðfræði, frá heimspekilegu sjónarhorni. Hún bar málefni kvenna, þræla og fátæklinga mjög fyrir brjósti.
Martineau starfaði einnig sem blaðakona og rithöfundur. Martineau ólst upp í Norwich í Bretlandi og var sjötta í röð átta systkina. Fjölskylda hennar var ágætlega stæð og lagði mikið upp úr menntun en dæturnar fengu þó ekki að sækja háskóla heldur stunduðu nám með óformlegri hætti og þurftu að vinna mikið innan heimilisins á meðan bræður þeirra fengu að stunda nám.
Harriet átti við ýmis heilsufarsvandamál að stríða og missti heyrnina á unglingsaldri. Eftir að unnusti hennar lést ákvað hún að giftast ekki og var því einhleyp alla ævi.
Martineau gaf út fyrstu bók sína nítján ára gömul, árið 1821, en án höfundarnafns. Hún fékk titilinn Um menntun kvenna (On Female Education) og þar gagnrýnir Martineau hvernig henni var meinað að ganga menntaveginn eins og
hugur hennar hafði staðið til. Hún átti síðar eftir að sjá fyrir sér með ýmiss konar ritstörfum og gekk ritferill hennar vel. Martineau skrifaði samtals um 2000 greinar og pistla í dagblöð áður en yfir lauk. Henni var umhugað um málefni kvenna í skrifum sínum sem og málefni þræla og rýndi í stéttarhugtakið á undan þeim Marx, Engels og
Weber. Einnig fjallaði hún um ýmis önnur eldfim og erfið málefni, svo sem trúarbrögð, sjálfsvíg, þjóðareinkenni, afbrot, stöðu kvenna og tengsl milli stofnana og einstaklinga.
Eftir ferðalag til Mið-Austurlanda á miðjum aldri hafnaði Martineau kristinni trú og lýsti yfir trúleysi sínu, sem kom illa við ýmsa, jafnt innan fjölskyldu hennar sem utan.
Ein af lykiláherslum Martineau var að þegar skoða ætti samfélagið þyrfti að líta til allra hliða þess. Þannig lagði hún áherslu á hinar ýmsu stofnanir í samfélaginu, hvort sem þær væru stjórnmálalegar, trúarlegar eða félagslegar. Hún taldi að með því að skoða samfélagið með þessum hætti mætti greina orsakir misréttis, ekki síst
þess sem konur þyrftu að mæta.
Eftir tveggja ára heimsókn til Bandaríkjanna skrifaði Martineau eitt af sínum þekktustu verkum, Samfélag í Ameríku (Society in America) þar sem hún gagnrýndi hvernig orð og verk færu ekki saman hjá Bandaríkjamönnum. Til dæmis félli það illa að hugsjóninni um að allir menn hafi verið skapaðir jafnir að konur fengju ekki tækifæri til annars en að giftast og eignast börn.
Martineau skrifaði mikið um þjóðhagfræði mestallan feril sinn, en var þó atkvæðamest í baráttu sinni fyrir ýmsum réttindamálum kvenna.