Í óskilgreindri framtíð, undir vökulum augum eftirlitssamfélagsins, gera rithöfundarnir og fyrrverandi hjónin Áki og Leníta allt sem þau geta til ganga hvort fram af öðru. Á meðan gengur lífið sinn vanagang, út koma bækur sem ýmist fá verðlaun eða ekki, sólin mjakar sér yfir fjöllin snemma árs og skín á Ísfirðinga, bakkelsislyktina leggur úr Gamla bakaríinu og listnemar úr borginni hreiðra um sig í yfirgefinni rækjuverksmiðju. Svo fer rafmagnið að flökta.
Heimska er skáldsaga um að sjá allt og sjást alls staðar, um óstjórnlega forvitni mannsins og þörf hans fyrir að vekja athygli, um fánýti bókmennta og lista – og mikilvægi – um líkindi mismunarins, um hégóma, ást og svik. Og síðast en ekki síst um framtíðina.
Eiríkur Örn Norðdahl hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir síðustu skáldsögu sína, Illsku. Heimska er fimmta skáldsaga hans en hann er einnig þekktur fyrir greinar sína og ljóð. Heimska hefur fengið frábærara umsagnir gagnrýnenda og hér má lesa nokkrar þeirra:
„Heimska er vel fléttuð skáldsaga, spennandi og grípandi, skrifuð á skýru og vönduðu máli og persónugalleríið er áhugavert. Líkt og Illska fjallar hún um stór málefni sem erfitt er að ná utan um, skilgreina og skilja að fullu, ræðst á samfélagsmein, bendir á breyskni mannsins og potar í auma bletti … Það má vera að Heimska sé framtíðarsaga en það liggur líka beint við að lesa hana sem samtímasögu í dystópíugervi – sögu sem blekkir um leið og hún bendir á blekkingu eftirlitsins sem sögupersónurnar jafnt sem lesendur lifa við og taka þátt í af fúsum og frjálsum vilja.“
Ásta Kristín Benediktsdóttir / Hugrás
„… mjög skemmtileg.“
Friðrika Benónýsdóttir / Kiljan
* * *
„Írónísk frásögnin nær auknum styrk þegar á líður … og þá sýnir höfundurinn vel hvers hann er megnugur í frásagnartækni og snörpum stílbrögðum, í lýsingu á nöturlegum heimi sem hefur tekið við af þeim sem við þekkjum …“
Einar Falur Ingólfsson / Morgunblaðið
„Heimska er ádeila á nútímasamfélag, hraðann og narsissismann sem einkennir það að mörgu leyti. Það sem er sérstakt viðHeimsku er að það er fjallað um þessi mál af nærgætni og án þess að samfélagið sem slíkt sé dæmt. Það skín út úr rödd sögumannsins að þessi þörf fyrir athygli sé mannleg og að mörgu leyti eðlileg og lesandanum er aldrei sagt að hann eigi að breyta háttum sínum eða hvernig hann ætti að hegða sér í staðinn. Þetta bætir mörgum lögum af túlkunarrými við textann og gerir frásögnina að flóknu samspili persóna, samfélags, sögumanns og lesenda. Heimska er vel unnin, góð og áhugaverð bók sem óhætt er að mæla með.“
Hildur Ýr Ísberg / Sirkústjaldið
Hér má lesa kaflabrot úr bókinni:
Úr 3. hluta: Óvenju ferkantað
XXXII
Forlagið reiknaði með því að Leníta gerði allt sem í hennar valdi stóð til þess að vekja á sér athygli – og Leníta vænti þess af sjálfri sér. Það þurfti að selja þessa bók, koma henni á skrið, Áki mátti ekki, hvað sem það kostaði, hafa betur. Ef Leníta hefði haft geð í sér til þess að tala við Áka án þess að láta skína í fyrirlitninguna hefði hún kannski samt reynt að semja um að þau færu – hvað sem öðru leið – ekki að blaðra um einkamál sín við fjölmiðla. En einsog á stóð var þetta bara spurning um að verða fyrri til. Ef Leníta færi fram á að fjölmiðlar kyntu undir ferli hennar með forsíðuljósmyndum og opnuviðtölum, sem var augljóst að hún þyrfti að gera, yrði ætlast til þess að hún svalaði forvitni lesenda um það sem hún taldi engum koma við nema sjálfri sér og sínum nánustu. Hún þyrfti ekki einu sinni að nefna það sjálf, það mátti treysta því að kynningarfulltrúi forlagsins læddi þessu að blaðamönnum. Aldrei að vita nema hún fáist til að tala eitthvað um skilnaðinn við Áka.
Kannski langaði hana líka til að bera sig svolítið. Sýna hold, sýna hjarta, sýna að hún væri manneskja í sárum. Og kannski langaði hana að ræða ritstuldinn. Hún hafði ekki haft orð á þessu við forlagið og sennilega hafði Áki ekki gert það heldur. Það kæmi í ljós þegar upplýsingarnar yrðu sendar inn í Bókatíðindi eða dagblöðin færu að skrifa yfirlitsgreinar um hvers mætti vænta af flóðinu. Hún hafði ekki hugmynd um hvernig brugðist yrði við – fyrir utan fyrirsjáanlegar umvöndunarræður – en vonaði að það kæmi ekki upp fyrren of seint yrði að gera miklar breytingar. Hún átti ekki að þurfa að laga bókina sína að því sem Áki hafði skrifað – það var ekki hennar að breyta neinu. Akmeð var hennar saga. Hún hafði búið hana til. Alveg fokkins sjálf.
XXXIII
Þær mæltu sér mót á hótelherbergi Lenítu í Reykjavík. Auðvitað hefði Leníta helst viljað taka á móti henni á Ísafirði en það var bara svo miklu lengra frá Reykjavík og vestur, en að vestan suður, þangað kæmust engir blaðamenn nema himinn og jörð kræfust, og þótt Lenítu þætti hún gjarna eiga mikið undir sér voru takmörk fyrir því hvers hún gæti krafist. Þegar viðtalið færi á netið liti líka út einsog það væri tekið heima hjá henni – blaðið hafði fengið ljósmyndara úr Hnífsdal til að taka myndirnar. Í sjálfu sér var henni ljúft að komast frá Ísafirði í nokkra daga. Hún hafði skilið eftir ljósin kveikt og Spotify í gangi í eldhúsinu en Áki þurfti ekki nema að líta á eftirlit til að sjá að hún var ekki heima – og fyndi hana þá fljótt í Reykjavík ef hann vildi. Til öryggis hafði Leníta sett vekjara á útidyrnar svo hún fengi tilkynningu í símann ef þær opnuðust. Hún myndi ekki hika við að hringja í lögregluna.
Við þurfum fyrst aðeins að fá bakgrunn, sagði stelpan – sem hét Raísa – og kveikti á diktafónappinu.
Leníta lagaði kjólinn sinn, kinkaði kolli og settist niður.
Geturðu sagt mér aðeins frá bókunum þínum? Hvað hefurðu skrifað sem ég myndi þekkja?
Leníta kunni strax illa við hana. Er þetta ekki eitthvað sem þú getur flett upp, elskan mín? Hún heyrði bergmálið af eldri konu í orðum sínum – einhverri kjaftforari og áræðnari við ókunnuga. Hún var þreytt á þessu, einsog konur höfðu þreyst um alla eilífð á því að þykja ekki mikilvægar þegar á reyndi.
Stelpan brosti. Það er kannski meira gaman að heyra þig lýsa því, hélt hún áfram. Persónulegra.
Leníta brosti til baka. Þú gúglar þessu bara. Spurðu mig um nýju bókina.
Ég hef því miður ekki náð að lesa hana, sagði stelpan.
Hún er ekki komin út, greip Leníta fram í. Það hefur enginn lesið hana.
Stelpan brosti.
Akmeð er óður til sjálfsmyndarinnar, sagði Leníta. Hún fjallar um merkingu þess að vera Íslendingur; um það hvernig maður sér aðra, hvernig þeir sjá mann, hvernig maður sér aðra sjá mann og þannig hring eftir hring. Í aðra röndina söguleg skáldsaga – byggð á nákvæmri heimildavinnu – en í hina eins konar fornleifagröftur í sál þjóðarinnar, jafnvel álfunnar allrar.
Raísa brosti. Einmitt. Segðu mér meira.
XXXIV
Fyrsta skot: Rithöfundurinn Leníta Talbot skolar kaffibolla í vaskinum og virðist annars hugar. Af hreyfingum hennar að dæma er hún að hlusta á tónlist – það er eilítil en óljós dillandi í skrefunum, blik í augunum og höfuðið dúar í takt við umhverfið einsog flotholt í flæðarmálinu.
Annað skot: Leníta Talbot situr í eldhúsinu og starir áköf á tölvuskjáinn á meðan kaffið í bollanum kólnar. Kannski er hún að fara yfir lokapróförk nýju skáldsögunnar – Akmeð er væntanleg frá Tindri með haustinu. Bráðum verða hugsanir hennar – margra ára vinna – meitlaðar í stein, óhagganlegar staðreyndir, og ekkert við því að gera hafi eitthvað farið úrskeiðis. Útgefendur hafa fyrir satt að það fyrsta sem maður sjái þegar nýprentuð bók er opnuð sé innsláttarvilla.
Þriðja skot: Í svefnherberginu er hálfur fataskápurinn tómur, einsog önnur hver skúffa. Það sefur enginn vinstra megin í tvíbreiðu kingsize rúminu og það hvíla engar bækur á náttborðinu þeim megin. Hægra megin eru nokkrar nýlegar ljóðabækur og skáldsagan Orlando eftir Virginiu Woolf, saga af ungum manni sem er í senn ung kona, tvíeinn og eilíf(ur) – eftir konu sem gerði það að ævistarfi sínu að vera sjálfri sér næg, verða sjálfbær manneskja.
Það eru ekki liðnar margar vikur frá því Áki og Leníta Talbot tóku ákvörðun um að slíta hjónabandinu – blekið er enn blautt á pappírunum. En veruleikinn bíður ekki eftir því að við áttum okkur á honum. Fréttablaðið sótti Lenítu heim á dögunum og ræddi við hana um framtíðina, um brotna sjálfsmynd þjóðar og álfu, og skilnaðinn við Áka, sem Leníta segir sárasta ferli lífs síns til þessa, en jafnframt það mikilvægasta.
XXXV
Áka fannst hann koma út úr viðtalinu einsog slefandi fábjáni sem hefði eitt sinn notið þeirrar óskiljanlegu lukku að vera giftur þokkafullri og djúpviturri konu með meiri skilning á hinstu rökum tilverunnar en búast mátti við af nokkurri lifandi veru. Það versta var að geta ekki bent á neitt eitt – engin ein ummæli sem væru augljóslega yfir strikið, sem væru atlaga að persónu hans. En svívirðingin var undirliggjandi allan tímann, líkt og það mætti ganga út frá því að um hann væri ýmislegt vafasamt segjandi sem Leníta léti aldrei eftir sér að segja við blaðamann, enda væri hún yfir það hafin. Og það var skelfilegra en nokkuð sem hún hefði getað sagt í raun og veru. „Áki er náttúrulega einsog hann er – dásamlegur maður – en allir þurfa að stríða við sitt.“ Hvað átti þetta til dæmis að þýða? Og svo sneri hún sér beint að því að ræða hversu erfitt það væri fyrir konur að eldast, hvernig líkaminn og fegurðin brygðist þeim frekar en karlmönnum – sem mátti líklega skilja þannig að hann hefði farið frá henni vegna þess að hún væri svo helvíti ljót? Það væri ekki auðvelt fyrir „fullorðna konu“ (hún var 37 ára) að fara „aftur út á kjötmarkaðinn“ – flestir gæfulegu karlmennirnir annaðhvort fráteknir eða of ungir til að hafa áhuga á „eldri konu“ – en hann, Áki, gæti auðveldlega náð sér í „einhverja sæta háskólastúdínu“ ef hann vildi, vegna þess að hann væri karlmaður – „lengra höfum við nú ekki náð sem samfélag“ – myndarlegur, hæfileikaríkur og byggi auk þess að því að vera í svo góðu formi. „Konum þykir það ekkert minna kynþokkafullt en körlum“ bætti hún við, einsog lesandanum ætti að skiljast að í raun væri hún enn blinduð af ást á honum og tryði því að hann væri heiðarlegur, fallegur og góður þrátt fyrir að hann væri augljóslega tilgerðarlegur og grunnhygginn fáviti, það blasti hreinlega við öllum nema allra heimskustu lesendum Fréttablaðsins. Henni mætti fyrirgefa að elska hann vegna þess að hún væri svo passjóneruð eldsál. Áka langaði að hlaupa á veggi og brjóta hluti, en lét sér duga að skella aftur lokinu á fartölvunni, gnísta tönnum og kreppa hnefana svo fast að kjúkurnar hvítnuðu. Í bili.
XXXVI
Áki reyndi að rétta sinn hlut með því að skrifa grein í TMM. Nú er svo komið að engum sem fylgist með íslenskum bókmenntum getur dulist að á ýmsu gekk í hjónabandi okkar Lenítu Talbot – líkt og gengur á ýmsu í öllum hjónaböndum – og ljóst að sú lína sem eitt sinn markaði skilin á milli einkalífs okkar og opinbers líf – að ekki sé minnst á línuna sem markar og markaði skilin milli hennar einkalífs og míns – er máð og óljós.
Nú stend ég sem maður frammi fyrir óvenjulegum vanda. Sá sem ekki ber hönd fyrir höfuð sér þegar að honum er sótt hefur glatað hluta mennsku sinnar; og sá sem ekki getur lifað án þess að bera sig heiminum er þræll breyskleika annarra. Þverstæðan sem nú krefst úrlausnar minnar er hvernig ég geti brugðist við því sem má með réttu kalla svívirðingar – þótt þær hafi verið kurteislega orðaðar, af stillingu og uppgerðaraðgát í minn garð; og birtust í Fréttablaðinu nýverið, hafðar eftir eiginkonu minni fyrrverandi af blaðakonunni Raísu Maríudóttur Briem – án þess að afhjúpa sjálfan mig meira en ég hef þegar verið blottaður af öðrum. Án þess, svo að segja, að koma nakinn fram. Því hafi Leníta mín sýnt ykkur á mér annað eistað er ég víst litlu klæddari við að sýna ykkur hitt. Norman Mailer sagði fyrir margt löngu að rithöfundur gæti án alls verið nema leifanna af hreðjum sínum; mínar legg ég á borðið, allt sem ég á, allt sem ég get gefið, sál mína, sársauka, gleðina og ógleðina. Ég bið ykkur að virða það við mig, því vel er það meint. Hjá nekt minni verður ekki komist héðan af, enda sannleikurinn sá að ég er með tvö eistu, ekki eitt.
Áki rakti svo atburði vorsins á tæpum 25 tímaritssíðum og gerði sitt besta til að láta líta út sem Leníta hefði hvorki ráðið við tilvist sína síðustu árin né ritstörfin sem hefðu reynst henni ofvaxin, og hún hefði því smám saman tekið að ræna orðum Áka, hugsunum hans, hugmyndum og jafnvel upplifunum – og rauf hún þannig þann trúnaðarmúr sem eðlilegur er milli alls fólks, hreint og klárt lífsnauðsynlegur fólki í okkar stétt, enda má skilja rof hans sem árás á sjálft lifibrauðið, afbrot sem ekki er óskylt því sem hún fremur nú í viðtali við Fréttablaðið, þar sem hún delerar frjálslega um mínar innstu þrár og langanir og bætir gráu ofan á svart með því að gera því skóna að það geri hún af umhyggju fyrir líðan minni. Viðtalið má fyrirgefa. En atlaga Lenítu Talbot að sjálfri undirstöðu lífs míns og því mikilvægasta sem ég hef sett á pappír frá því ég hóf að gefa út bækur fyrir 16 árum síðan verður aldrei – segi ég og skrifa, aldrei – fyrirgefin. Akmeð Lenítu Talbot er stríðsyfirlýsing og henni verður ekki mætt með þögninni á meðan ég enn dreg andann.
Daginn eftir að TMM fór á netið var fyrirsögnin á forsíðu Fréttablaðsins bara eitt orð með 60 punkta feitleitri: RITSTULDUR? Og undirfyrirsögnin: Skrifuðu þau sömu bókina? Skáldsögurnar Akmeð og Akmeð væntanlegar í bókabúðir í október.
XXXVII
Tara sagðist líta á grein Áka í TMM – sem var auk þess í eigu annars forlags – sem hreina og klára fyrirsát og velti því upp hvort samstarf þeirra, sem hafði staðið í tæp tíu ár, væri kannski á enda komið. Útgáfustjórinn hringdi ábúðarfullur og kvartaði undan kostnaði við yfirlestur lögfræðinga, sem þyrfti þess utan að gerast í samstarfi við lögfræðinga Tindurs, sem gáfu út Akmeð Lenítu. Mér er hreint ekkert gefið um að eiga meiri samskipti við Dagfinn á Tindri en ég þarf, satt best að segja. Þeir höfðu verið í rekstri saman fyrir mörgum árum, sem endaði illa. Svo andvarpaði hann. Áki – þú hefðir mátt búa okkur eitthvað undir þetta. Jólabókaflóðið er rétt að byrja. Ég veit ekki hvað ég hef efni á að eyða mikilli orku í þetta. Hér eru fleiri höfundar, aðrar bækur sem þarf að sinna.
Sá eini sem virtist ekki alveg í mínus yfir ástandinu var kynningarfulltrúinn. Hann lagði þó áherslu á að það væri ekki endilega samasemmerki á milli þess að vera umdeildur eða umtalaður, og þess að selja bækur eða ná til lesenda. En við getum vonandi snúið þessu okkur í hag. Það eiga allir eftir að vilja tala við þig og þú verður bara að standa þig í viðtölunum. En gættu þín að ræða bókina, ekki Lenítu – nýttu þér áhugann og athyglina til að ræða innihald verksins, sýn þína á bókmenntirnar. Það er það sem selur.
Leníta ákvað að draga sig í hlé. Hún leigði út húsið í Aðalstrætinu til túrista svo Áki tæki það ekki yfir og fór sjálf til Tenerife til að draga andann og lesa bækur. Hún svaraði ekki tölvupóstum, leyfði símanum og tölvunni að hringja út, slökkti á Facebook og Instagram, sat á ströndinni dag eftir dag, drakk jarðarberja-daquiri og reykti Virginia Slims, raðaði í sig öllu sem algóritminn í Kindlinum mælti með, át ferska ávexti og steiktan kjúkling til skiptis, blikkaði eftirlitsmyndavélar viss um að Áki – og kannski einhverjir fleiri; starfsfólkið á forlaginu, einhverjir blaðamenn, hugsanlega forvitnir lesendur – fylgdust með sér. Að öðru leyti lét hún ekki á sér kræla nema rétt svo einu sinni að hún pókaði Áka, svo það færi ekki framhjá honum að hún væri að ríða barþjóninum á hótelinu.
Um miðjan september birtist stutt frétt þess efnis að Tindur gæfi út Akmeð Lenítu þann 13. október en HB Forlag gæfi út Akmeð Áka tæpri viku fyrr, þann 7. október – daginn sem Leníta átti bókað flug heim. Í fréttinni kom einnig fram að HB Forlag og Tindur hefðu skrifað undir samkomulag um að efna ekki til neinna málsókna vegna bókanna, enda hefðu lögfræðingar „farið yfir öll smáatriðin og ekki séð ástæðu til að tala um ritstuld, frá sjónarhóli laganna“ þótt eitt og annað væri að sönnu líkt með bókunum, ekki síst titlarnir. Loks fylgdu kápumyndir beggja bókanna.
Kápa Lenítu var eldrauð með samlitum upphleyptum hálfmána og titli í hástöfum – hún hafði ekki séð hana sjálf fyrren nú. Líklega lá hún óopnuð í innboxinu. La-la, hugsaði hún. Leníta hafði séð það verra og séð það skárra. Það var reddingarbragur á þessu.
Á kápu Áka var ljósmynd af ungum brúneygum manni klæddum dökkri íslenskri lopapeysu. Lenítu var þvert um geð að viðurkenna fyrir sjálfri sér að hún væri flottari – þótt það væri líka eitthvað óþægilega poppað við hana, með dálítilli illkvittni mætti líkja henni við betur stílíseraða útgáfu af ódýrum sjoppuróman. En hún gengi betur í bolinn. Vekti meiri athygli í bókabúðum. Og hún var einfaldlega fallegri. Eitt-núll fyrir Áka. En leiknum var ekki lokið.
Erik Brunulf á heiðurinn af ljósmynd af Eiríki.