Fyrir tæpum 40 árum var faðir minn eltur af lögreglubíl með vælandi sírenur rétt austan við Rauðavatn og hann sektaður fyrir glæfraakstur. Ástæða þess að hann aldrei þessu vant steig bensínið í botn og klíndi sér ítrekað fram úr á ljósgrænum Volvo var að í aftursætinu sátu tveir fúlir bræður sem sáu fram á að missa af Palla í Stundinni okkar.
Palli hét fullu nafni Páll Vilhjálmsson og var hugarfóstur Guðrúnar Helgadóttur rithöfundar og hann kom bæði fram sem persóna í bók og sem brúða í barnatímanum. Já, hann var brúða. Leikin af Ladda. (Nú kann ég að hafa kramið eitthvert miðaldra hjarta, sem enn túði því að Palli hafi verið persóna af holdi og blóði). Hann var sem sagt brúða, en óvenju vel búin sem slík. Hann var nefninlega með typpi.
Í bókinni um Palla sem kom út árið 1977 gerir einn bekkjarfélaga hans grín að honum í sturtu og spyr hina strákana hvort þeir hafi tekið eftir því hvað typpið á Palla er asnalegt. Hinir strákarnir skellihlæja en Palli fer að hágráta og flýtir sér í síðu nærbuxurnar sínar. Það kom að vísu ekki fram nein nánari lýsing á því hvað var svona asnalegt við typpið á Palla, en typpi geta verið af öllum stærðum og gerðum og breytast jafnvel eftir veðri og vindum.
Flestir drengir ganga líka í gegnum það aldursskeið að þessi dinglandi, utanáliggjandi kynfæri þeirra eru til tómra leiðinda og þau hafa stundum einstakt lag á að verða fyrir hlutum á ferð. Forhúðin á það til að festast í rennilásum buxnaklaufa, typpið getur orðið fyrir fallandi klósettsetu eða skótaui á hreyfingu, lent á stönginni á reiðhjóli, eða þá að kynfærin séu það eina sem kemur í veg fyrir að andstæðingur í fótboltaleik skori glæsilegt mark með þrumuskoti.
Það vita allir sem reynt hafa að þó það sé vissulega góð tilfinning að halda hreinu í marki eru takmörk fyrir því hversu mikinn sársauka það má kosta. Einstaka sinnum kemur sér samt vel að geta skotið undan dóti sem þarf nauðsynlega að fela – einsog haus á Legokalli eða maísbaun – og geta komið því í öruggt skjól undir forhúðinni.
Nokkrir meðfæddir gallar geta verið á þvag- og kynfærum nýfæddra drengja sem valda foreldrum áhyggjum og verða hér nefndir þeir algengustu. Fyrir kemur að annað eða bæði eistu hafa ekki gengið niður í pung við fæðingu.
Sæðisframleiðsla gengur betur í kaldara „utanáliggjandi“ umhverfi einsog því sem er til staðar í pungnum. Ef eistað gengur ekki eðlilega niður heldur festist uppi í kvið kemur það ekki bara niður á sæðisframleiðslu síðar meir, heldur eykur einnig hættu á krabbameini í eistanu. Stundum getur þetta verið tímabundið ástand þannig að eistað smokri sér niður á nokkrum mánuðum, en ef ekkert bólar á því við 4 mánaða aldur og ómskoðanir benda til þess að það sé til staðar en á röngum stað er rétt að ná í það með skurðaðgerð til að tryggja frjósemi og minnka líkur á eistnakrabbameini.
Annað vandamál, sem sést hjá u.þ.b. einum af 300 drengjum, er „hypospadias“ sem hefur verið þýtt á íslensku sem „of stutt þvagrás“. Þvagrásaropið er þá ekki staðsett fremst á typpinu heldur neðan á því og þannig sprautast þvagið út á röngum stað. Þessu fylgir yfirleitt að forhúðin er opin að neðanverðu og nær þannig ekki að hylja fremsta hlutann á typpinu. Þessu fylgir gjarnan að typpið er bogið niður á við.
Þetta vandamál er misalvarlegt þannig að ef þvagrásin opnast yst á typpinu er talað um fyrstu gráðu galla sem tiltölulega einfalt er að laga með skurðaðgerð. Ef opið er á miðju typpi er um annarrar gráðu galla en þriðju gráðu ef þvagrásin opnast um eða aftan við pung. Í þannig tilfellum getur þurft að gera fleiri en eina aðgerð til að tryggja og útlit og starfsemi þvag- og kynfæra verði sem eðlilegast.
Mikilvægt er að ganga úr skugga um að eistu séu til staðar hjá börnum með of stutta þvagrás þar sem þetta getur verið hluti af undirliggjandi litningagalla eða galla á þroskun kynkirtla. Í slíkum tilfellum getur verið vafi á raunverulegu kyni barnsins og þá þarf að gera víðtækari rannsóknir til að ákvarða kynið.
Þessar aðgerðir eru yfirleitt framkvæmdar fyrir 18 mánaða aldur, en um það leyti verða börn meðvituð um kyn sitt. Með því að gera aðgerðirnar snemma má koma í veg fyrir félagslega og andlega vanlíðan sem getur fylgt þessum líffæragöllum. Eins og fram kom hér að framan í dæminu af Palla getur fylgt því töluvert álag fyrir börn og unglinga að hafa óvenjulega útlítandi kynfæri.
Í nýútkominni skáldævisögu, Útlaganum, lýsir Jón Gnarr t.d. í ítarlegu máli hvernig bogið typpið olli honum hugarangri á unglingsárum. Hann var hræddur við þetta og skammaðist sín og hafði áhyggjur af því hvort hann myndi geta haft samfarir. Jón hefur líkast til haft bandvefs- eða örmyndun einhvers staðar á typpinu sem hefur gert það að verkum að það beygðist í þá átt; upp, niður eða til hliðar.
Stundum getur typpið litið alveg eðlilega út þar til eigandanum rís hold. Þannig þarf þessi skafanki ekki að koma í ljós fyrr en um kynþroska aldur þegar slíkt verður algengara. Ef typpið beygist það mikið að óvíst er hvort það er brúklegt til samfara er hægt að gera á því aðgerð – líkast til sú sama og Jón gekk í gegnum og lýsir í bók sinni. Hins vegar tel ég að þar kunni að gæta ákveðinnar ónákvæmni.
Jón heldur því nefnilega fram að það hafi verið skorið undan honum. Allavega segir skurðlæknirinn að hann hafi skorið af honum typpið og saumað það svo aftur á. Kannski var skurðlæknirinn bara að reyna að vera fyndinn fyrir framan nunnurnar á Landakoti. Það er ljóst af lýsingunum að dæma að öll spítalavistin var ömurleg lífsreynsla fyrir 16 ára pilt og ekki ólíklegt að hann hafi upplifað að það hafi verið skorið undan honum.
En þess gerist nú ekki þörf og ég held ég geti fullyrt að ekki hafi verið skorið undan Jóni Gnarr. Beygð typpi eru yfirleitt löguð með aðgerð sem gengur ýmist út á að skera burt örvefinn sem veldur skekkjunni, eða stytta typpið hinum megin og rétta það þannig af.
Að lokum skal minnst aðeins á forhúðina sem heilu trúarhópunum og þjóðríkjunum virðist vera svo mikið í nöp við að það gefst varla tími til að þurrka nýfæddum drengjum á bak við eyrun áður en mættur er gamall karl með sax til að sníða hana af.
Hvernig gat guð klúðrað sköpun mannsins svona rosalega að það fyrsta sem hann vill að sé gert við nýfædda blásaklausa drengi er að sníða af þeim þennan húðsepa? Sem hann sjálfur skaffaði þeim! Skapaði hann annars ekki manninn í „sinni mynd“?
Gera má ráð fyrir að 98% íslenskra drengja hafi fengið að halda sinni forhúð. Ef foreldrar eru hins vegar staðráðnir í að láta umskera syni sína er skömminni skárra að það sé gert af barnaskurðlækni sem kann til verka heldur en uppi á eldhúsborði hjá næsta rabbía. Forhúðin á litlum drengjum er nánast alltaf svo þröng að ekki er hægt að draga hana upp og er fólki eindregið ráðið frá því að reyna slíkt. Það getur nefnilega endað með að hún dregst upp fyrir kónginn en kemst ekki niður aftur. Þannig ástand veldur þrota og sársauka og getur jafnvel valdið skertu blóðflæði út í typpið.
Einstaka sinnum getur forhúðin samt verið svo þröng að það hefur áhrif á þvaglát. Þetta getur lýst sér með því að forhúðin bólgnar út einsog blaðra þegar drengurinn pissar. Í slíkum tilfellum þarf að opna forhúðina til að létta á frárennsli þvagsins. Svo getur forhúðin sýkst, sem vissulega er óalgengara í umskornum drengjum.
Þetta hefur t.d. verið notað sem rök fyrir því að umskera Bandaríkjamenn, því það sé svo miklu praktískara að vera umskorinn ef maður ætli t.d. í stríð. Það sér það svo auðvitað hver sem vill að það er langtum þægilegra að láta sprengja sig í loft upp með ósýkta forhúð en sýkta.
Og svo er það þetta með þrif á forhúðinni. Á barnsaldri er ágætt að muna að „less is more“. „Betra er heima setið en af stað farið“. „Aðgát skal höfði í nærveru…“ forhúðar o.s.frv.
Ég hitti eitt sinn móður sem kom með átta ára son sinn á ameríska bráðamóttöku. Hún var langt komin með jólahreingerninguna undan forhúð sonar síns. Hann sat á stofunni með krosslagða fætur og þjáningarsvip eins langt frá móður sinni og mögulegt var. Það sem fór svo í taugarnar á mömmunni, að nálgaðist þráhyggju, var hvít skán sem myndast af húðfrumum og húðfitu undir forhúðinni og kallast „smegma“.
Líkast til eykur þetta eitthvað hættu á sýkingum, en þó er ástæðulaust að reyna að þvinga upp forhúðina á ungum drengjum einungis í því augnamiði að hreinsa þetta burt.
Þegar mamman hafði lokið að lýsa fyrir mér aðförunum, sýna mér rauða og þrútna forhúðina á syni sínum og segja frá burstanum sem hún notaði til að skrúbba hann var ég líka sestur með krosslagða fætur og þjáningarsvip á andlitinu.