Fréttatilkynning:
Fyrsta forgangsmál Pírata á þessum þingvetri var samþykkt á Alþingi í dag. OPCAT samningurinn er viðauki við Samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í OPCAT viðaukanum er kveðið á um eftirlit sjálfstæðra aðila sem falið er að heimsækja reglulega stofnanir sem vista frelsissvipta einstaklinga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að pyndingar eða önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist. Hér er því um að ræða sjálfstætt eftirlit með fangelsum og aðbúnaði fanga, geðsjúkrahúsum og öðrum stofnunum þar sem frelsissviptir einstaklingar búa tímabundið eða ótímabundið.
Í viðaukanum er kveðið á um tvíþætt eftirlit. Annars vegar eftirlit á vegum alþjóðlegrar nefndar sem heimsækir ríki sem fullgilt hafa viðaukann og hins vegar eftirlit sem komið er á fót innan hvers aðildarríkis samkvæmt fyrirmælum viðaukans.
Í þingsályktuninni sem samþykkt var í dag er ríkisstjórninni falið að fullgilda viðaukann og gera þannig Ísland skuldbundið til að koma því eftirliti á fót sem kveðið er á um í viðaukanum. Annars vegar þarf að tryggja með lögum að hin alþjóðlega undirnefnd um varnir gegn pyndingum geti sinnt því eftirliti hér á landi og njóti þeirra réttinda hér á landi sem viðaukinn kveður á um. Hins vegar þarf að ákvarða hverjum skuli falið að sinna innlenda eftirlitinu sem viðaukinn kveður á um og setja um það viðeigandi ákvæði í lög. Það er verkefnið framundan. Vinna fer nú væntanlega á fullt skrið í innanríkisráðuneytinu við ákvörðun um hver skuli stýra hinu innlenda eftirliti og hvernig því verði háttað. Píratar hafa lagt áherslu á að við ákvarðanir í þessu efni verði leitað liðsinnis hinnar alþjóðlegu OPCAT nefndar.
Píratar þakka öllum sem hafa stutt okkur í baráttu fyrir þessu máli og veitt okkur hvatningu. Hæst ber þar að nefna Afstöðu – félag fanga, Íslandsdeild Amnesty International, alla sem veittu jákvæðar og góðar umsagnir um málið, formenn og aðra nefndarmenn þeirra nefnda sem veittu málinu brautargengi hér á þingi og alþingismanna allra sem greiddu þessu góða máli atkvæði sitt.
Fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur geta kynnt sér þingmálið sjálft og greinargerðina. Fullgilding OPCAT