Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Aldrei orðið öskrandi ástfangin

$
0
0

Tilgerðarleysi og einlægni einkennir Sigríði Thorlacius söngkonu. Síðasta ár reyndist henni þungbært en Solveig systir hennar lést í fyrra aðeins 43 ára gömul, fjórum árum eftir að Ingileif systir þeirra lést.  Sigga, eins og hún er kölluð, tók í kjölfarið ákvörðun um að lifa í núinu og planar ekki lengra en nokkra mánuði fram í tímann. Hún hefur aldrei orðið yfir sig ástfangin eða tekið ákvörðun – hvorki af né á – um að eignast barn. Sigríður Thorlacius er fædd 1982. Hún er yngst fimm systra og er dóttir Kristjáns Thorlacius og Ásdísar Kristinsdóttur kennara. Sigga hlaut frjálslegt og menningarlegt uppeldi og var ekki sett í pössun þegar farið var á fullorðinsleg leikrit.

„Þau tóku mig með á alla menningarviðburði og var það partur af mínu uppeldi. Ég er mjög þakklát fyrir það,“ segir Sigga þýðum rómi sem einkennir fas hennar. Hún er róleg, yfirveguð og skynsemin uppmáluð. Eða hvað? Laumaðist hún aldrei út um glugga sem unglingur eða var með uppsteyt?

„Ég var auðvitað enginn engill en nei, ég skreið aldrei út um glugga. Ég fékk óvenju langan taum og hafði enga þörf fyrir að brjóta neinar reglur,“ segir Sigga og viðurkennir að hún hafi verið feimin og fálát. „Veggjatítla,“ bætir hún brosandi við.

Sigga segist vera að hluta til einfari. Það sé henni jafn mikilvægt að vera reglulega ein og að umgangast fólk. Henni líður best á Kleifum, Blöndósi á ættaróðali fjölskyldunnar þar sem hún nærir einbúann reglulega og aftengist eða eyðir tíma með fjölskyldunni.

„Elsta systir mín var 21 ári eldri en ég og ég er því á vissan hátt alinn upp sem einbirni með fullt af mömmum. Foreldrar mínir eru ákaflega skipulögð og skynsöm í öllum fjármálum og slíku. Við systur fórum allar í tónlistarnám og kór. Við áttum að standa okkur vel í skóla og haga okkur vel en vorum aldrei undir mikilli pressu, þó væntingar til okkar væru skýrar.“

Tónlistargáfuna hafa þær systur ekki langt að sækja. Móðir þeirra spilar á harmonikku, píanó og gítar. „Pabbi hefur mikið dálæti á tónlist, hvort sem það er djass eða klassík. Þau eru enn mjög dugleg að koma og hlusta á mig. Mamma syngur líka rosalega fallega og væri í raun miklu betri ég en ég. Það leikur allt í höndunum á henni og hún hefði orðið góð í mínu hlutverki,“ segir söngkonan og það er ljóst að innblásturinn kemur að heiman.

Sigga söng lengi með Hamrahlíðarkórnum eins og systur hennar allar og þar kynntist hún mörgum af sínum bestu vinum og samstarfsmönnum. „Það var mikill hópandi í skólanum og kórnum. Þarna var allskonar fólk en allir með sama markmið: Að flytja eitthvað saman. Um leið var þetta góð kennsla í að vera ekki of mikill sólisti. Stór partur af minni menntaskólagöngu var að vera í þessum blessaða kór og þar kynntist ég strákunum í Hjaltalín.“

sigga_4

Var aldrei boðið í Hjaltalín

Sigríður er elst meðlimanna í Hjaltalín en Högni Egilsson, hinn söngvari bandsins, er fæddur 1985 og hinir meðlimirnir 1987. Sigríður gekk aldrei formlega til liðs við bandið heldur söng upphaflega bakraddir í krúttlegum vinskap sem í dag er ein vinsælasta hljómsveit landsins.

„Ég fór að syngja bakraddir með þeim því þeir voru svo sætir og skemmtilegir. Mér var aldrei formlega boðið í bandið, þetta bara þróaðist úr því að ég var að syngja af og til með þeim. Þarna var ég 24 ára, feimin og alls ekki að leita eftir því að vera í frontinum í hljómsveit.“

Hlutverk ungu söng­konunnar óx með vaxandi sjálfstrausti en stökkið frá því að fylgja nótum í kór yfir í að túlka sjálf texta og lög er ansi mikið að hennar sögn. „Inntökuprófið í FÍH fannst mér hrikalega erfitt. Þegar þú syngur klassíska músík eða í kór syngur þú eftir nótum og fylgir fyrirfram ákveðnum reglum. Ég var eins og vélmenni þegar mér var sagt að sleppa nótunum og syngja bara af eigin tilfinningu. Mér leið eins og ég væri að opna mig með rennilás.“ Með aukinni sjálfsþekkingu og eigin sannfæringu fann Sigga sinn eigin stíl sem hefur gert hana að einni eftirsóttustu söngkonu Íslands.

„Ég er mjög sjálfsgagnrýnin og myndi aldrei tala við vinkonur mínar eins og ég tala við sjálfa mig en ég er að reyna að bæta mig. Ég gat ekki farið í viðtal án þess að hugsa um hvernig mætti snúa út úr þessu og hinu. Ef ég stend mig illa situr það lengi í mér.“

Högni meðsöngvari hennar í Hjaltalín lýsir hógværri vinkonu sinni vel og segir hana ekki bara vera mikinn listamann heldur einnig ómetanlegan trúnaðarvin og gagnrýnanda: „Ég er heppinn að fá að njóta gáfna og þokka hennar í mínu lífi. Rödd hennar hefur volduga sál sem grefur sig inn að beinum og smekkvísi hennar og fegurðarskyn er áttaviti fyrir ferðalanga sem bera engan farangur.“

sigga_3

Ekki best á balli

Hjaltalín hefur starfað nokkuð erlendis en Sigga segist ekki vera sjálf í persónulegri útrás.

„Mér hefur alltaf fundist það svolítið gott að eiga hálfgert hliðarsjálf í Hjaltalín. Þar erum við með okkar eigin frumsömdu músík og höfum verið að spila nokkuð erlendis en ég sjálf er sátt við að vera ekki í neinni sértakri útrás. Hjaltalín hefur alltaf haft það á stefnuskránni að vinna líka erlendis. Ég sjálf veit ekki einu sinni hvernig ég myndi fara að, bara kaupa miða aðra leið eða? Ég verð bara að viðurkenna vanmátt minn þar.“ Hún útilokar þó ekkert en segist vera sátt við stöðuna. Hjaltalín er með nýja plötu í vinnslu og sjálf hefur hún úr góðum verkefnum að velja.

Sigga hefur tekið miklu ástfóstri við gömul íslensk dægurlög en fyrsta sólóplata hennar, Á Ljúflingshól, var samansafn laga eftir Jón Múla. „Þetta er ekki endilega sú tónlist sem ég hlusta mest á en þetta liggur vel fyrir mér og mér finnst gaman að syngja á íslensku. Ég hlusta á allskonar tónlist og elska að fara í óperuna til að mynda. Heima hjá mér myndi ég kannski ekki hlusta á þungarokk og 90‘s músík. 90‘s tónlist minnir mig of mikið á hversu slæman smekk ég hafði sem barn,“ segir hún og hlær að tilhugsuninni um sjálfa sig fjórtán ára í appelsínugulri plastkápu með 2Unlimited í botni.

sigga_6

„Ég á margar uppáhalds söngkonur. Ég held mikið upp á Maríu Callas og Billie Holiday og mér hefur verið líkt við Ellý Vilhjálms. Mér finnst hún æðisleg en sé sjálf ekki þessa líkingu. Beth Gibbons, söngkonan í Portishead, syngur af mikilli tilfinningu og berskjaldar sig. Ég er meira „svag“ fyrir því en tæknibombum. Það tengist kannski þessu textablæti mínu. Að finna fyrir tilfinningunni. Þetta er ekki úthugsað en ég er hrifin af trega í músík. Það gefur manni færi á að túlka meira, sem er partur af því að syngja. Ég gríp eitthvað frá sjálfri mér í túlkun og ég set mig í spor þess sem talar í laglínu. Auðvitað hef ég ekki horft á eftir manninum mínum í sjóinn en ég get aðeins reynt að túlka eftir minni bestu getu. Þar af leiðandi er ég ekki best á balli.

Ég gæti aldrei sagt: „Eru ekki allir í stuði?“ Það fer mér ekki.“

Vandræðalegt tilboð

Sigríður skrifaði grein í Morgunblaðið í tengslum við 100 ára kosningaafmæli kvenna. Þar fjallaði hún um kynjakvóta og hvernig hún hefði fengið starfstilboð sökum þess að hún væri kona, eða eins og viðmælandi orðaði það:

„Þeir voru í smá bobba og vantaði svo konu.“ Sigga upplifði samtalið sem hið vandræðalegasta enda hafi starfstilboðið ekki komið til vegna hennar persónu eða hæfileika heldur þeirrar staðreyndar að hún væri ung kona sem uppfyllti kvótann. „Ég er ekki á móti kynjakvóta. Fyrst þegar sú umræða átti sér stað hefði ég örugglega verið mótfallin honum en í grunninn held ég að þetta sé langhlaup og kynjakvótinn hjálpar okkur að komast á betri stað. Mér leiðist samt hvernig þetta er borið upp. Af því að þú ert undir ákveðnum hatti þá hentar þú í starfið eða stöðuna. Þetta eru röng skilaboð til kvenna.“

„Af hverju erum við ekki beðnar bara að vera með á okkar eigin forsendum? Tilboðið á að snúast um að konur séu mikilvægar persónu sinnar vegna. Það þarf blöndun alls staðar. Það væri gaman ef það væri sjálfsagt og augljóst og að konur þættu mikilvægar alls staðar.“

Aðspurð hvort hún hafi liðið fyrir það að vera ung kona í tónlistarbransanum segir hún það eflaust vera en hún hafi einnig grætt á því. „Það er kannski öðruvísi með hljóðfæraleikara en ég hef ekki lent í því beint sjálf sem söngkona. Ég veit svo sem ekki hvort ég er að fá minna borgað oft á tíðum af því að ég er kona. Ég sem bara fyrir mig en kannski er eitthvert kven-óöryggi þarna sem setur ekki endilega verðmiða á svo hæfi verkefninu. Ég veit það ekki en við eigum að bera okkur saman við bæði kynin þegar við setjum verðmiða á vinnu okkar. En ef ég er ekki að fá nægilega vel borgað er ekki við annan en sjálfa mig að sakast.“

Hjaltalín er með umboðsmann en Sigga semur sjálf fyrir sín verkefni þess utan. „Í Hjaltalín erum við mörg og með misjöfn verkefni. Þar er þörf fyrir framkvæmdastjóra. Ég hef verið með einhvern sem vinnur fyrir mig í vissum verkefnum en ég er bara í símaskránni og með dagbókina fyrir framan mig. Það er því eðlilegast að ég svari. Sumir eiga erfitt með að tala um peninga sjálfir. Ég átti erfitt með þetta fyrst en ég get ekki verið að lufsast eitthvað með þetta. Ég verð að hafa þetta á hreinu en að verðmerkja sjálfa sig er fín lína. Að bera virðingu fyrir sjálfri sér og vita hvers virði þú ert án þess að þú virkir montin og rugluð.“

sigga_2

Vildi að sér væri skítsama

Brjóstabyltingin fór hátt á haustmánuðum þar sem konur fögnuðu fjölbreytileikanum og kvenlíkamanum. Sigga var djúpt snortin yfir hugrekkinu sem gekk yfir landið. „Mér finnst þetta ótrúlegt. Að ungar stelpur og strákar standi fyrir einhverju svona. Mér hefði aldrei dottið þetta í hug. Maður var svo óöruggur og viðkvæmur og alltaf að spegla sig í öðrum. Ég fæ tár í augun yfir þessu. Þetta er virðingarvert og málefni sem má gjarnan impra á. Sitt sýnist hverjum um framkvæmdina eða afleiðingarnar en ég vil horfa á þetta sem eitthvað ótrúlegt framtak og fallega byltingu sem leiðir af sér frelsisumræðu og kvenréttindi. Það er alltaf einhver sem gengur of langt eða hefur slæma sögu að segja. Sjálf var ég var svo mikil mús í menntaskóla að ég hefði ekki séð mig í þessum sporum.“

Sigga er alin upp af jafnaðarmönnum og er jafnrétti henni hugleikið. „Það felst svo margt í jöfnuði. Hvort sem það er á milli kvenna og karla eða samfélagshópa. Að þeir ríku verði ekki bara ríkari er mikilvægt. Þótt hér hafi orðið margumrætt hrun er ekki eins og allt hafi hrokkið í réttan gír. Fólk hefur ekki sömu tækifæri. Og hvernig samfélagi viljum við búa í, eins og Halldóra Geirharðs sagði svo réttilega í ræðu sinni á Eddunni í ár. Að veita börnum jöfn tækifæri þarf ekki að kosta samfélagið svo mikið.“

Sigga kemur fram oft í viku og er komin langa leið frá feimnu menntaskólastelpunni. Hún hefur afslappaðan klassískan fatastíl og ber með sér æðruleysi gagnvart hinum íslenska æðibunugangi og útlitsdýrkun.

„Ég væri rosalega til í að geta sagt að mér sé skítsama og að ég fari út á inniskónum en ég geri það ekki. Mér er ekki sama hvernig ég lít út og ég vil vera tilhöfð. Ég segist gera þetta fyrir sjálfa mig en veit að mér er ekki sama hvað fólki finnst um mig. Ég reyni að vera sjálfri mér samkvæm og vera ekki óörugg með mig þó ég tikki ekki í öll box. Þessar kröfur eru þarna og eru undirliggjandi þung alda, alveg eins þó við reynum að láta okkur vera sama. Karlar fá meira breik. Þeir þurfa að vera snyrtilegir og vel greiddir en við þurfum að vera óaðfinnanlegar.“

Sigga bendir á mikilvægi þess að virða smekk og skoðanir annarra enda séu útlit og klæðaburður tjáningarform. „Þegar þú ferð að hafa vit fyrir þér ferðu hálft í hvoru að tjá þig með útliti og hárgreiðslu og slíku. Ég hef bara aldrei haft áhuga á því að fara í magabol. Það er ekki minn stíll. Ég vildi aldrei láta neitt á mér bera þó ég hafi átt fáránleg fatatímabil. Ég er óvart komin með einhvern stíl þar sem mér líður vel og ég hef aldrei á ævinni verið í óþægilegum fötum. Sem unglingur fór ég alveg í appelsínugula kápu sem ég keypti mér fyrir fermingarpeningana og notaði semelíusteina óspart í andlitið. Þetta var líklegast tilraun til að sýna einhvern karakter sem þó var búinn til.“

 

Það rifnaði allt upp aftur

Sem áður segir er Sigga yngst fimm systra í mjög samheldinni fjölskyldu. Síðustu fjögur ár hafa reynt mikið á fjölskylduna en tvær af systrunum létust úr samskonar heilaæxli sem þó er ekki arfgengt. Tilviljun, segja fræðin. Það er án efa ólýsanleg angist sem tekur sér bólfestu í hjartanu við það að kveðja systur sínar langt um aldur fram. Systurnar bjuggu allar heima á einhverjum tímapunkti þegar Sigga var lítil en Solveig sem lést í fyrra var næst henni í aldri, 11 árum eldri, og því ólust þær upp saman.

„Við urðum mjög miklar vinkonur þegar ég komst til vits og ára. Hinar systur mínar eiga allar börn. Ingileif átti eina dóttur þegar hún lést en Áslaug og Sigrún eiga báðar fjögur börn. Við Solla vorum mikið saman og okkar stundatafla lá vel saman. Við vorum miklar vinkonur en líka ólíkar. Hún var miklu meiri félagsvera, ég er lokaðri.“

Það var mikið áfall þegar Ingileif systir þeirra lést eftir löng veikindi. Þegar Solla greindist með samskonar æxli í ársbyrjun segist Sigga hafa brotnað niður. „Það flögrar einhver hugmynd innra með mér um að þetta sé of fáránlegt. Að þetta geti varla verið tilviljun.

Ingileif var búin að vera veik miklu lengur. Í fleiri fleiri ár. Við vorum ekki endilega meðvituð allan tímann um að þetta væri heilaæxli en Solla greindist og svo leið ekki nema ár þar til að hún lést. Þegar Solla er orðin veik er þetta á margan hátt eins og þegar Ingileif var orðin mest veik. Í Sollu tilfelli var þetta mun snarpara. Við vissum kannski að einhverju leyti hvað við vorum að fara út í og gátum kannski staðið okkur betur. Ég fékk mesta sjokkið þegar við fengum greininguna um að hún væri með þetta heilaæxli. Það voru bara þrjú ár síðan Inga dó. Ég hugsaði bara: „Nei við getum þetta ekki aftur.“ Þá fórum við til baka í erfiðasta tímann með Ingu og hugsuðum: „Hvernig endar þetta?“ Þetta eina orð, heilaæxli, fór með mig á sama stað í tilvistinni. Það rifnaði allt upp aftur.“

sigga_5

Sigga viðurkennir að það hafi hvarflað að sér að hún væri næst. „Ég hugsaði alveg „hvað með mig?“ en fóksuinn var ekkert þar. Ég bægði því bara frá mér og ég held ég geti talað fyrir okkur allar að þessi hugsun kemur upp af og til. Ég var búin að vera með skrítinn hausverk um daginn og þá kemur einhver stingur í magann. Almennt er þetta spurningin: „Viltu vita?“ Hvað gerir það fyrir þig að vita ef ekkert bendir til þess að eitthvað sé að? Maður getur alið á kvíða og sjúkdómahræðslu en maður reynir að festast ekki í því. Ég er ekki lífhræddari núna en áður. Jafnvel minna. Ég plana bara styttra og geri meira.“

Sigga segist hafa tekist á við sorgina með því að byrja mjög fljótt að syngja og umgangast þannig fólk. Fjölskyldan hafi staðið þétt saman og öll verið mjög meðvituð um að hlúa hvert að öðru. „Sorgin læðist að manni við ólíklegustu tilvik. Söknuðurinn er eitt en þetta er í raun og veru miklu meiri sorg og depurð yfir þeirra örlögum. Ég hugsa mikið um þær og vil mikið tala um þær og segja sögur. Annars verður þetta vandræðalegt og fólk vill ekki ræða þetta. En með því að tala um þær verður þetta þolanlegra og þær eru á einhvern hátt alltaf með mér.“

Keramik og kærastar

Listin hefur verið töluvert ríkjandi í systrahóp Siggu og má þar finna allt frá málurum til vöruhönnuða – og allar geta þær sungið. Sigga skráði sig nýverið á keramiknámskeið í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Byrjunarörðugleikarnir eru þónokkrir en hún gefst ekki upp þó það sé erfitt að vera fullorðin á byrjunarreit.

„Mér finnst alveg erfitt að vera byrjandi. Ég er vön því að starfa við það sem ég þekki mjög vel. En hver veit, kannski held ég áfram á þessari braut. Sigrún systir er líffræðingur að mennt en skráði sig í LHÍ fyrir nokkrum árum og útskrifaðist í fyrra sem vöruhönnuður. Systur mínar hafa því sýnt mér að það er ýmislegt hægt og þær sýndu mér líka að það er vel hægt að lifa af listsköpun sinni.“ Framtíðin er áfram rædd með tilheyrandi samfélagslegum kröfum. Hvað með menn og börn?

„Ég hef aldrei tekið ákvörðun af eða á um að eignast barn. Ég hef alveg hugsað um það hvort ég yrði góð móðir. Það hefur ekki komið til og ég er ekki með einhverja tifandi klukku á öxlinni. Það er vissulega pressa og þetta er stærsta boxið að tikka í. Annars ertu einhvern veginn ekki alveg heil. Það breytist margt við að eignast barn og þú færð margt annað í staðinn hlýtur að vera, en ég er ekkert að velta mér upp úr þessu. Mamma mín var 43 þegar hún átti mig svo ég er talandi dæmi um að börn geta vel komið síðar.“

Ástin er ekki minni klisja. Samfélagið vill sjá okkur í pörum eins og flest annað í lífinu. Sokkapör, hnífapör og kærustupör.

„Ég hef aldrei verið öskrandi ástfangin. Kannski er ég svona brjálæðislega raunsæ. Nei, samt ekki,“ segir hún og brosir einlægt, líklega þreytt á þessari spurningu. „Eftir því sem maður er lengur einn með sjálfum sér og býr sér til sitt umhverfi eftir eigin þörfum, þeim mun meira þarf til þess að maður sé til í að breyta því og tæma hillur. Þú býrð þér til einhvern vana og ert minna og minna tilbúin að brjóta rútínuna. Sem er samt fáránlegt. Þú verður frekari á nærumhverfi þitt og að stjórna því.“ Sigga kinkar þó kolli þegar hún er spurð hvort það geti verið að hún sé kannski ekki að gefa mikið færi á sér.

„Ég er kannski full kurteis og formleg á köflum en tel mig vera með gott insæi og treysti því. Það hefur svikið mig en ég er nokkuð fljót að éta hattinn minn og vera ósammála sjálfri mér. Ég breyti í spaða og biðst fyrirgefningar án þess að hika ef ég hef ekki rétt fyrir mér.“

Er eitthvað í spilunum að breyta í spaða eða söðla um? „Eftir að Ingileif dó fannst mér að ég hefði svo stuttan tíma og yrði að gera allt sem ég vildi en svo tók við tímabil þar sem ég vildi passa vel upp á mig. Ég er ekki eins hrædd við dauðann og þessir erfiðleikar hafa breytt sýn minni á lífið og ég veit betur hvað skiptir mig máli. Ég er ekki að velta fyrir mér hvar ég verð eftir tíu ár og veit að þetta getur orðið allt öðruvísi. Ég skipulegg ekki meira en nokkra mánuði fram í tímann. Ég kaupi ekki flugmiða eftir tólf mánuði. Þetta er mikið frelsi og ég gef mér líka tækifæri til að hætta við og fara að gera eitthvað annað.

Ég gæti til dæmis alveg hugsað mér að búa úti á landi eða opna blómabúð,“ segir Sigríður Thorlacius og útilokar ekki að breyta í spaða, keramík eða landsbyggðina.

 

Ljósmyndir: Íris Ann
Hár: Ágústa Hreinsdóttir
Förðun: Fríða María

Forsíðuviðtal afmælisrits Kvennablaðsins í nóvember 2016

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283