Til mæðra
• Hafðu sjálf fyrir börnunum þínum.
• Sá sem er milli móðurinnar og barnsins er eins og milliliðurinn í viðskiptalífinu; Hann hefir minnst af fyrirhöfninni, en mest af hagsmununum.
• Láttu börnin finna að þér þyki vænt um þau. Sýndu það ekki síður í verki en í orði.
• Ávinn þér trúnað þeirra. Ef þú gjörir það ekki, munu aðrir gjöra það þegar þau eldast.
• Þegar synir þínir eldast, áttu að velja þeirra félaga; annars fá þeir sér þá sjálfir.
• Lofaðu börnunum þínum að hafa hátt endrum og sinnum. Ánægja þeirra er eins mikils virði og taugar þínar.
• Virtu leyndarmál þeirra, þótt léttvæg séu.
• Ef þú stríðir þeim, trúa þau þér fyrir engu. En þolinmæðin vinnur allt.
• Leyf þeim að hafa sjálfstæðar skoðanir þegar þau eldast. Gjör þau sjálfstæð að öllu leyti, en ekki að eftirhermum annarra.
• Gleym ekki að andlegir hæfileikar eru lítilsvirði ef heilbrigðina vantar.
• Leitastu við að gjöra þau ánægð, frjálslynd og glaðvær. Það styrkir sál og líkama.
• Mundu eftir því, að þú berð að miklu leyti ábyrgð á tilhneigingum barna þinna. Umber því með þolinmæði bresti og veikleika þeirra.
• Vertu vongóð í tali við börn þín, þegar þú talar um lífið og framtíðina. Þú hefir ekki leyfi til að gjöra þau kjarklaus, þó þú hafir þurft að líða margt sjálf.
• Leitaðu eftir hvaða nám þeim er mest að skapi. Það er betra en að eyða tíma, peningum og fyrirhöfn til þess sem þau hafa hvorki vilja né hæfileika til.
• Mundu jafnan að þó þú sérrt móðir allra barna þinna, þá hafa þau hvort fyrir sig sérstakar lyndiseinkunnir og hæfileika og galla. Reyndu því að fara með þau eins og ólík blóm, en mældu þau ekki öll með sömu stikunni.
• Innrættu þeim snemma að allar gjörðir manna hafa afleiðingar og að enginn getur komist hjá þeim þótt hann iðrist sárt eftir verkinu.
• Þegar dætur þínar vaxa upp, átt þú að venja þær við heimilisverk og kenna þeim matreiðslu. Þær munu seinna þakka þér fyrir það.
• Reyndu að taka þátt í hugmyndalífi dætra þinna, þótt þér þyki það hlægilegt; með því styrkir þú áhrif þín yfir þeim, og þær munu síður leita til annarra.
• Ef þér er mögulegt að gefa þér tíma til að leika við þau, átt þú að venja þau við að hafa þig með sér í skemmtunum sínum. Þegar þau seinna verða sjálf foreldrar, mun minningin um sjálfsafneitun þína koma þeim til að vera eins við sín börn. Njóttu gleðinnar með þeim þeirra vegna. Sorgirnar og áhyggjurnar koma nógu snemma.
• Neitir þú þeim um eitthvað, þá áttu að halda fast við það. Tak ekki bann þitt aftur, nema þú hafir fyllstu ástæðu til þess.
• Hugsaðu um að það sem eru smámunir fyrir þig, er mikilvægt fyrir þau.
• Vertu áreiðanleg við þau í smáu sem stóru, og þá munu börn þín jafnan heiðra minningu þína.
• Getir þú ekki útskýrt eitthvað, sem þau spyrja um, eða viljir það ekki, þá áttu að neita að segja þeim það.
• Þú mátt aldrei segja þeim ósatt.
• Hafir þú misst barn, þá áttu að minnast þess, að þú getur ekkert gjört fyrir það, en allt fyrir þau sem lifa. Því áttu að yfirbuga harminn fyrir sakir barna þinna sem lifa.
Þessi vísdómsorð birtust fyrst í Kvennablaði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur 3. árgangi, 1897 í 6. tölublaði. Ljósmynd af málverki eftir Mary Cassat fylgir grein.