Fimm konur frá fimm þjóðlöndum. Systur okkar og nýir Íslendingar.
Renuka Chaeyre Perera
Eigandi veitingahúss

Renuka Chaeyre er frá Sri Lanka og hefur búið á Íslandi í tæp 20 ár.
„Ég fékk upphaflega vinnu hér sem au pair og svo vildi konan ekkert meira með mig hafa og henti mér út.
Einstaka sinnum finn ég fyrir smá fordómum. Af því að ég er brún og einu sinni elti mig maður sem sagði við mig: Farðu frá Íslandi.”„Ég er í hlaupahóp og þar er maður sem segir alltaf við mig að ég sé ekki Íslendingur, ég sé útlendingur. Ég held að honum líði ekki vel sjálfum. Ég svara honum alltaf: Nei það er ekki satt, ég er búin að læra íslensku og nú er ég Íslendingur!“
Adriana Maria da Silva Pacheco
mastersnemi og þjónn

Adriana Maria er fædd í Portúgal og flutti til Íslands fyrir þremur árum.
„Þegar ég var barn horfði ég alltaf á heimildaþætti um eldfjöll og norðurljós og ég laðaðist að fjölbreytileika náttúrunnar og leyndardómum Íslands.“
„Íslendingar eru viðkunnanlegir á yfirborðslegan hátt. það er erfitt að mynda náin tengsl“
„Íslendingar virðast vera hrifnir af því sem er auðvelt og því sem er beint fyrir framan þá. Þeir ráða til dæmis alltaf þann sem þeir þekkja og gjarnan vini sína til vinnu. Þegar ég hef verið í atvinnuleit er ég alltaf skilin eftir, ég er aldrei fyrsta val, jafnvel þó svo að oftast sé ég með meiri menntun en sá sem fyrir valinu verður. Aldrei er hugsað um að kanna nýjar leiðir til að leita uppi nýtt fólk og ferskar hugmyndir og það skortir þá hugsun að það sé skynsamlegast að velja þann besta. Nei, alltaf er leitað innan sama sjóndeildarhrings, meðal þessara 5 til 6 sem viðkomandi þekkir.”
Olga Eremina
snyrtifræðingur

Olga er rússnesk og kom til Íslands árið 2004.
„Það vantar fleira fólk hingað frá öðrum löndum. Þá blandast þjóðin meira og fólk með allt aðra menningu kemur hingað og það kemur með nýja strauma sem er gott.“
„Sonur minn er núna í Háskóla Íslands. Skólakerfið reyndist honum vel og kennararnir voru opnir og vingjarnlegir við hann.“
„Ég er hrifin af Pútín og þeim áætlunum sem hann hefur fyrir Rússland. Ég fylgist vel með pólitíkinni heima. Flestir mótmælendur eru ekki sammála mér en núna hefur staðan breyst, sérstaklega vegna stríðsins í Sýrlandi og Pútín hefur held ég vaxið í hugum Íslendinga.”
Nurashima Abdul Rashid
leikskólakennari

Nurashima er frá Singapúr og flutti til Íslands árið 1996.
„Ég varð vör við það þegar ég kom fyrst til landsins að fólk leit undan ef ég brosti til þess. Þá fattaði ég… Úps… þetta er ekki gert hér.“
„Við þurfum að kynna okkur menningu þeirra flóttamanna sem hingað koma. Ég er múslimi en ég kem frá Asíu og það er munur á múslimum þar og í Arabalöndunum. Við þurfum að stíga það skref að vera fús til að kynna okkur menningu þeirra og virða þeirra uppruna. Konur sem vilja ganga með höfðuðklúta eiga að fá að gera það óáreittar. Ísland er jafnréttisland.“
Oksana Zagorodnjaja
starfar á skrifstofu

Oksana er frá Eistlandi og flutti til Íslands um aldamótin.
„Íslenskar konur eru frjálsari með skoðanir sínar, tjáningu og klæðaburð en ég á að venjast frá Eistlandi. Ég get ekki bara sagt eða gert einhverja hluti – því þannig var ég alin upp. Íslenskar konur geta bara gert þetta allt. Íslenskar konur eru ekki hræddar við það hvað fólk hugsar. En ég veit ekki … mér finnst stundum vanta svolítið meiri aga í íslenskar konur.“
„Það eru ákveðnir fordómar inni í íslensku samfélagi en ég hef ekki fundið svo mikið fyrir því í minn garð nema þegar ég var að vinna á Hrafnistu. Þar var þetta svolítið mikið vandamál. Gamla fólkið var bara yndislegt við okkur, það var samstarfsfólkið sem var leiðinlegt.”
Ljósmyndari: Eddi Jóns
Förðun: Natalie Hamzehpour og Anna Margrét
Ítarlegri viðtöl við konurnar fimm munu birtast á vefnum okkar kvennabladid.is innan tíðar.