Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Opna ferlið

$
0
0

Pírataspjallið á fésbók er áhugaverður vettvangur. Nýlega var bakgrunnsmynd spjallsins uppfærð og því lýst sem „þjóðarsálinni“ þar sem vel er útskýrt hvernig skoðanir einstaklinga á því svæði endurspegla ekki endilega viðhorf Pírata. Það gefur auga leið að það eru ekki endilega allir Píratar á þessu spjallsvæði enda meðlimir Pírataspjallsins rúmlega 5.500 manns en skráðir meðlimir í Pírata eru 2.345 (þegar þetta er skrifað). Auðvitað eru ekki allir sem telja sig vera Pírata skráðir í stjórnmálaflokkinn og það getur vel verið að ýmsir sem eru skráðir í flokkinn séu ekki Píratar. Ég til dæmis er skráður í alla stjórnmálaflokka sem eiga sæti á alþingi í dag. Það þýðir ekki að ég sé framsóknar-, samfylkingar- eða vinstri-grænn – þó á einhverjum tímapunkti ég hafi greitt þessum flokkum atkvæði í fyrri kosningum.

Spjallið er áhugaverður vettvangur, eins og Jónas Kristjánsson lýsir

Spjall pírata er opið og kjörið fyrir áróður. Þar er raunar eina pólitíska umræðan í fésbók. Önnur pólitík á fésbók er prívat eða í lokuðum hópum sértrúaðra

Já, spjallið er ekki án sinna galla. Smári McCarthy fer vel yfir umræðu undanfarinna daga

Stofnendur Pírata lögðu upp með einfalt markmið: að breyta stjórnmálamenningu á Íslandi á varanlegan hátt með því að gefa almenningi rödd í ákvarðanatökuferlinu. Við gengum út frá þeirri hugmynd að fólk sem hefði greiðan aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og hefði rödd í samfélaginu myndi taka skynsamar ákvarðanir fyrir sig sjálft og samfélagið allt.

Þessi hugmynd hefur alls ekki verið afsönnuð, en það hefur reynt svolítið á hana að undanförnu.

Óformlegi spjallvettvangur Pírata, Pírataspjallið, hefur verið undirlagt af beinlínis fávitalegum umræðum, lélegu gríni, rætnum persónuárásum og níði. Þegar reynt hefur verið að benda á hverslags niðurrifsafl þetta er ganga menn fram með ásökunum um ritskoðunartilburði

Þannig virkar opin umræða, allir og amma þeirra geta lagt orð í belg. Sama hvernig lyktin er af því lofti sem bætist við í belginn. Þetta finnst Pírötum mjög mikilvægur eiginleiki sem ber að halda til streitu. Hins vegar þá virðast sumir telja að allt eigi þá að vera opið, alltaf, fyrir öllum. Það er algjör misskilningur á því hvernig tjáningafrelsið virkar. Ef þú og vinir þínir viljið spjalla um daginn og veginn heima hjá þér, þá þýðir það ekki að það sé opið hús þar sem hver sem er getur komið og frussað sínum skoðunum yfir ykkur. Það gætu vel verið fínar skoðanir sem færa ykkur innsýn í nýjan heim en réttur ykkar til þess að hafa útidyrahurðina lokaða og læsta er mikilvægari. Sama á samt meira að segja við á kaffihúsum eða veitingastöðum. Ef þú ert að spjalla yfir góðum mat við vini eða vandamenn á góðum veitingastað, þá væri það pínulítið dónalegt af mér að bæta við stól og blanda mér í umræðurnar.

Allt í lagi. Pírataspjallið er ekki þannig. Þó það þurfi að biðja um aðgang þá fá allir aðgang. Öllum er einmitt boðið að koma með eigin stól og skoðanir að því borði sem spjallið er. Það er eiginleiki þess vettvangs. Það er líka eiginleiki allra formlegra funda sem Píratar halda, öllum er boðið svo lengi sem það sé ekki verið að ræða mál sem varða friðhelgi einstaklinga.

Það eru hins vegar ýmsir aðrir hópar á fésbók sem heita „Píratar: eitthvað …“. Þeir eru ekki endilega opnir. Það var bara einhver sem bjó þá til og þeir virka bara eins og vinaspjallið heima hjá þér eða á veitingastaðnum. Að hluti nafnsins sé „píratar“ þýðir ekki að stjórnmálasamtökin Píratar hafi eitthvað með þann hóp að gera.

Umgjörðin að „opna ferlinu“. Ég nefni, eins og vísir vitnar í, að

engar reglur gildi um meðferð tillögu áður en hún er lögð fram. Það er ekki fyrr en eftir að hún sé formlega lögð fram að reglurnar gildi

Einmitt vegna þess að áður en tillaga er formlega lögð fram þá er hún bara kaffihúsaspjall eða hugarórar einhvers einstaklings. Opna ferlið er hins vegar algerlega nauðsynlegur hluti af stefnumyndun Pírata. Það þýðir samt ekki að kaffihúsaspjallið verði líka að vera opið. Hvernig virkar það þá?

Ferlið er í rauninni tvöfalt. Annars vegar er það flokksferlið og hins vegar opinbera ferlið. Flokksferlið er þannig að hver sem er getur stofnað málefnahóp. Sá hópur má vera kaffihúsaspjallhópur þar sem það er engin nauðsyn að bjóða gestum og gangandi að taka þátt. Það er auðvitað mælt með því en það þarf ekkert að vera „formlegt“ við málefnahóp. Formlegheitin fara í gang þegar boðaður er félagsfundur þar sem á að leggja fram tillögu. Hvaða félagi sem er getur boðað félagsfund. Á félagsfundinum er svo hægt að leggja tillögu til fundargesta sem ræða tillöguna og greiða síðan atkvæði um hvort tillagan skuli sett í umræðu og kosningu í kosningakerfi Pírata. Það er mjög auðvelt, þarf ekki nema samþykki 5% fundargesta (að lágmarki 3) til þess að tillaga komist í kosningakerfið.

Í kosningakerfinu er tillagan svo rædd í um viku og svo hefst kosning sem stendur í aðra viku. Að henni lokinni er stefnan annað hvort samþykkt stefna Pírata (50%+) eða felld. Allir sem vilja taka þátt í umræðum og kosningum þurfa bara að skrá sig í Pírata og í kosningakerfið (það er nóg að skrá sig í kosningakerfið, þeir sem skrá sig þar eru sjálfkrafa skráði í Pírata um leið).

Þetta er opna flokksferlið. Hver sem er getur skráð sig í flokkinn, boðað félagsfund, lagt inn tillögu, rætt tillöguna í kosningakerfinu og að lokum kosið. Við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því að það er hægt að níðast á þessu kerfi. Það er alveg „hægt“ að gera svokallaðar „hallarbyltingar“ sem voru algengar í íslenskum stjórnmálum í fyrri tíð. Varnaglinn þar er grunnstefnan (sem er auðvitað hægt að breyta líka) og úrskurðarnefnd (sem er ekki fullkomin). Úrskurðarnefnd getur kveðið svo um að samþykkt stefna gangi gegn grunnstefnunni eða fyrri samþykktum Pírata. Það yrði þá að breyta grunnstefnunni eða fyrri samþykktum áður en öðru yrði breytt eða bætt við. Já, þetta er ákveðin áhætta sem aðrir flokkar hafa hannað sig frá. Aðrir stjórnmálaflokkar eru ósveigjanleg miðstjórnarbatterý sem þola betur mögulegar hallarbyltingar. Það er skiljanlegt, reynslunnar vegna. En afleiðingin er núverandi ástand flokksræðisins. Þess vegna er svo mikilvægt að opna opinbera ferlið. Svo lengi sem opinbera ferlið er orðið opið þá skiptir í raun engu máli hversu opið eða lokað flokkskerfið er, en það þarf að sýna í verki. Þar eru Píratar eini flokkurinn sem hefur tekið það skref, og heppnast að einhverju marki, svo ég viti til.

Svo er það opna opinbera ferlið. Það er svipað en á öðrum vettvangi. Það er opna stjórnsýslukerfið. Það snýst um sömu aðferðafræði en hver sem er getur tekið þátt í því án þess að vera skráður í stjórnmálasamtök. Núverandi ferli er tvöfalt og er einhvern vegin svona:
(1) Mál kemur fyrir alþingi og er rætt í fyrstu umræðu. Formáli þess er í raun bara kaffihúsaspjall en ef sá sem leggur fram málið gerir það vel þá hefur viðkomandi unnið góða greinargerð í samvinnu við ýmsa aðila. Því næst er beðið um umsagnir hagsmunaaðila og einnig opið boð um að hver sem er getur gefið umsögn. Það ferli er mjög ósýnilegt, umsagnir eru ræddar inn í lokaðri nefnd sem er skipt eftir flokkspólitískum línum. Því næst fer málið í aðra og þriðju umræðu og svo kosningu. Ýmislegt getur gerst þarna á milli en almennt séð er ekki leitað sérstaklega mikið eftir umsögnum – nema ákveðinna samtaka.

(2) Mál kemur upp í ráðuneyti. Sérfræðingar og álitahópar finna einhverja lausn (í lokuðu ferli) sem er síðan kynnt og sett í framkvæmd.

Lykilorðið í hvoru ferlinu fyrir sig (alþingi og ráðuneyti) er að það eru formlegir en lokaðir fundir. Fólki er auðvitað frjálst að spjalla saman eða upphugsa einhverjar lausnir í eigin kolli, en ef formleg framsetning og umfjöllun er í lokuðu umhverfi þá býður það upp á galla sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir ef notendur, almenningur, hefði fengið að koma að málinu. Notendur eru einmitt kjarni málsins. Ef þeir eru ekki hafði með í ráðum þá verður hvaða kerfi sem er búið til fyrir þá líklega gagnslaust. Lausnir verða að vera fyrir fólk, númer eitt. Allt annað er ekki eins mikilvægt. Til þess að það sé hægt að finna lausnir sem virka fyrir fólk þá þarf að tala við það. Það er ekki nóg að setja bara umsagnarbeiðni á einhverja vefsíðu. Það verður að hitta fólk, sjá hvernig það vinnur. Ekki kynna því bara lausnir hægri og vinstri sem „ættu að virka“ samkvæmt einhverri hugmyndafræði.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283