Facebook fagnaði 10 ára afmælinu fyrir nokkrum dögum. Facebook hefur ekki einungis gjörbreytt því hvernig við höfum samskipti hvert við annað. Facebook hefur einnig gjörbreytt því hvernig fyrirtæki hafa samskipti við viðskiptavinina og hvernig vörur og þjónusta eru markaðsett á netinu.
Samkvæmt reglum Facebook er bannað að selja og markaðssetja vörur og þjónustu á persónulegum Facebooksíðum og mýmargir hafa upplifað að síðan þeirra hverfur eins og dögg fyrir sólu, ef um slíkt er að ræða. Facebook setti á laggirnar sérstakar síður fyrir fyrirtæki strax 2007 og frá 2008 hefur Maríanna Friðjónsdóttir verið með regluleg námskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands um það hvernig ná má árangri á Facebook með fyrirtækin stór og smá. Lesendur Kvennablaðsins eru margar hverjar í markhópi Maríönnu og við ákváðum því að forvitnast nánar um námskeiðin, sem eru framundan núna um miðjan febrúar.
Er nauðsynlegt fyrir öll fyrirtæki að vera með Facebook “like” síðu?
Nei, í sjálfu sér ekki. Hins vegar má líka spyrja hvort það sé nauðsynlegt fyrir fyrirtækið að vera með email, heimasíðu eða símanúmer. Í dag eru samskipti fyrirtækisins við viðskiptavininn allt önnur en fyrir 10 árum síðan. Það gildir bæði markaðssetningu á vöru og þjónustu og svo dagleg samskipti. Mörg stórfyrirtæki hafa t.d. sparað sér allt að 30% kostnað á þjónustuliðum með því að nýta sér Facebook í samskiptum við viðskiptavininn því viðskiptavinurinn ætlast til annars konar samskipta í dag. Það er ein leiðin og ein ástæðan, sem mætti nefna.
Það fer hins vegar eftir eðli fyrirtækisins hvaða samfélagsmiðill passar best, en ég held að flestöll fyrirtæki í dag þurfi að vera til staðar á samfélagsmiðli og ráða því hvernig og hvort rætt sé um viðkomandi. Annars er hætt við að aðrir taki stjórnina. En hvort fyrirtækið velur Facebook, Twitter, Pinterest, Youtube – einn af þessum miðlum eða fleiri í kokteil – nú eða aðra, fer algjörlega eftir því hverju fyrirtækið ætlar að koma á framfæri. Fyrirtækið velur í dag sínar eigin miðlunarleiðir, en það þarf náttúrlega að kunna á þær til að ná árangri. Annars er bæði tíma og orku eytt í ekkert.
En er nokkuð mál að koma sér upp Facebook fyrir fyrirtækið?
Í sjálfu sér er ekkert mál að búa til Facebook viðskiptasíðu, en þegar það er sagt, eru svo ótal margar stillingar og trix, sem gera síðuna að öflugu markaðstæki. Facebook síða sem er bara sett í loftið gefur eigandanum ekkert. Mörg fyrirtæki búa til síðu og það er til dæmis ekkert um fyrirtækið í “about” kaflanum. “About” kaflinn á síðunni er dæmi um virkni á Facebook síðunni sem er afskaplega notadrjúgur til að lyfta fyrirtækinu upp í leitarvélum, ef maður veit hvernig á að fara að því. Þannig fær fyrirtækið milljón dollara leitarvélabestun fyrir ekkert nema smá vinnu og útsjónarsemi. Ég kenni það að sjálfsögðu og margt fleira. Ég elska öll ókeypis trixin, sem Facebook býður uppá en vandinn er að þau liggja ekkert í augum uppi.
Verður síðan að hafa fullt af “lækum”?
Eitt af því sem markaðssetningariðnaðurinn hefur því miður notað til að plokka auðveldan pening af fyrirtækjum er hræðslan við að engum “líki” við fyrirtækið. “Læk” talan segir í sjálfu sér ekkert um það hvort fyrirtækið er að ná árangri á samfélagsmiðlinum. Facebook síða með 10 þúsund “lækum” getur verið einskis virði, á meðan síðan með þúsund “lækum” getur verið ómetanlegur fjársjóður fyrir viðkomandi fyrirtæki. Þetta snýst allt um samskipti. Facebook verðlaunar samskipti, ekki læktölur. Það eru margar leiðir til að vera í samskiptum við viðskiptavininn þannig að tíminn, sem notaður er á Facebook sé til gagns og skili sér í aukinni veltu. Ein af leiðunum hefur í mínum huga mottóið: “segja, segja – ekki – selja, selja”. Það eru til alls konar leiðir og formúlur um það hvernig fyrirtækið tjáir sig á Facebook til að ná augum og eyrum þeirra sem líkar við fyrirtækið. Aðferðafræðin liggur hins vegar ekkert endilega á lausu, en á námskeiðinu í grunnuppbyggingu á Facebook er farið í nokkra möguleika og þannig geta þátttakendur stytt sér leið.
Nú er hægt að smella á einn hnapp til að auglýsa á Facebook. Af hverju þarf maður að fara á námskeið til að læra það?
Já, Facebook þarf að fjármagna sig og hefur búið til afskaplega einfalda og gefandi leið fyrir Facebook sjálfa til að ná sér í fljótlegan aur. Það er “boost” hnappurinn – og reyndar fleiri aðgerðir, sem Facebook býður síðueigendum uppá með mikilli ánægju. Það eru bæði kostir og gallar í því að þiggja nákvæmlega þessa hjálpsemi Facebook til að losna við auglýsingakrónurnar sínar. En ef maður veit í hverju mismunurinn er fólginn, þá er peningunum allavega ekki kastað óvitandi á glæ. En ef ekki – tja! Það eru til dæmis ekki allir sem vita að ef “boost” hnappurinn á uppfærslur er notaður, þá er maður að borga fyrir að birta uppfærsluna oftar hjá einungis þeim sem líkar við síðuna. Það getur verið að ætlunin hafi verið að ná í stærri markhóp með uppfærslunni – það er leið til þess að sjálfsögðu, bara ekki að nota “boost” hnappinn óhugsað.
Er nauðsynlegt að auglýsa á Facebook?
Uppsetning og rekstur Facebook viðskiptasíðu (læk-síðu) er ókeypis á Facebook og fullt af leiðum til að ná ókeypis til þeirra sem líkar við síðuna og við vini þeirra. En til að ná hámarksárangri verður nauðsynlegra og nauðsynlegra að kunna á auglýsingakerfið. Facebook er þannig skrúfað saman að uppfærslur frá síðum fá færri og færri sýningar, að hluta til að sjálfsögðu til að hvetja til viðskipta. Facebook er hins vegar í dag einhver öflugasti og ódýrasti auglýsingamiðill sem völ er á – á tímum þar sem t.d. sjónvarpsauglýsingar eru að tapa hlutverkinu sem öflugasti auglýsingamiðill heims – og færri og færri sjá dagblaðaauglýsingar. Kosturinn við að nýta Facebook til auglýsinga er meðal annars sá að hægt er að ná í mjög sértæka markhópa hverju sinni og þannig nýta krónurnar sem best. Fyrirtæki, sem eru með góða póstlista, t.d. fréttabréf, geta nýtt sér kerfið til að ná næstum “maður á mann” áhrifum. Auglýsing á Facebook er ekki bara auglýsing á Facebook – það eru margar leiðir. Auglýsingarnar í hægri hlið sjást t.d. ekki í smartsímum – ekki allir sem vita það – og ríflega 50% af þeim, sem fara á Facebook daglega, logga inn á símanum. Og þá eru góð ráð dýr, ef maður veit ekki hvernig hægt er að ná í það fólk með auglýsingum á Facebook. Við förum í gegnum m.a. þetta á námskeiðinu um Facebook auglýsingar í Endurmenntun núna í miðjum febrúar.
Fyrir hverja eru námskeiðin?
Ég hef eitt stórt undirliggjandi markmið með því sem ég geri – það er að koma konum á netið. Facebook er sérstaklega heppilegt markaðssetningartæki fyrir minni fyrirtæki, sem ekki eru að drukkna í markaðssetningarpeningum. Mörg slíkra fyrirtækja eru rekin af konum og/eða í eigu kvenna. Ég vil gjarna sjá þær á námskeiðinu. En á námskeiðið koma einnig einyrkjar sem reka fyrirtæki í öllum geirum – það koma starfsmenn frá markaðsdeildum stórfyrirtækja, starfsfólk opinberra fyrirtækja og félagasamtaka. Bæði grunnnámskeiðið og auglýsinganámskeiðið er fyrir alla, sem vilja skilja hvernig Facebook vinnur fyrir fyrirtækið. Ég reyni yfirleitt að gera sem flesta sjálfbjarga. Við leggjum grunninn á námskeiðunum og síðan byggir fólk sjálft ofaná.
Ég býð öllum þeim sem koma á námskeiðin núna í febrúar, ókeypis Facebook tjekk, þar sem ég skoða viðkomandi síðu, bendi á leiðir til úrbóta og hvernig tengsl við t.d. heimasíðu fyrirtækisins geta orðið öflugri. Þannig getur námskeiðið borgað sig að fullu frá fyrsta degi.
Námskeiðin í Endurmenntun Háskóla Íslands er að finna hér: