Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Einn daginn á ég eftir að hitta mömmu

$
0
0

Gabríela Mist Guðmundsdóttir skrifar.

alma rut stor

Gabríela Mist Guðmundsdóttir

Það var ekki allt eins og að það átti að vera þegar að ég kom í þennan heim árið 1995. Mamma og pabbi voru í mikilli vímuefnaneyslu og margt gekk á. Fyrstu níu mánuðina af lífi mínu bjó ég hjá foreldrum mínum en eftir það var ég tekin af þeim. Foreldrar mínir voru ekki vondir, þau voru gott fólk en þau voru veik, veik af alkóhólisma. Ég hef heyrt marga tala um að mamma hafi verið yndisleg manneskja og að hún hefði alltaf verið tilbúin að gera allt fyrir alla.

Gabríela Mist Guðmundsdóttir

Gabríela Mist Guðmundsdóttir

Það vissu margir af neyslu foreldra minna þar á meðal barnaverndarnefnd sem að lokum tók mig og færði mig á Hraunberg sem var vistheimili fyrir börn. Þar bjó ég þangað til að það var búið að finna handa mér fósturforeldra. Eldri systir mín og bróðir minn bjuggu á þessum tíma hjá ömmu og afa. Þau, systkini mín og frændfólk reyndu allt sem þau gátu til að fá mig til sín en ekkert gekk, sama hvað þau reyndu.

Gabríela Mist Guðmundsdóttir

Gabríela Mist Guðmundsdóttir

Árið 1998 eignaðist mamma síðan litlu systur mína, barnavernd greip líka inn í það en stóra systir okkar sem að var um tvítugt fékk að hafa hana hjá sér, hún hefur búið hjá henni síðan. Systir mín hefur það mjög gott og hefur alist upp á góðu heimili.

Eftir að ég hafði flutt af Hraunbergi til fósturforeldra minna fengu amma, afi og systkini mín að hitta mig einu til tvisvar á ári og hið sama átti við um mömmu og pabba. Samskiptin voru alltaf undir eftirliti starfsmanna barnaverndar sem ég tel að hafi hvorki verið gott fyrir mig né þau og get ég ekki alveg skilið hvers vegna þau voru ekki oftar, af hverju mátti það ekki þau voru jú blóð foreldrar mínir?

Ég hef líka oft hugsað með mér hvers vegna systir mín fékk að búa hjá fjölskyldu okkar en ekki ég. Hvað var svona sérstakt við mig? Af hverju fékk ég ekki að kynnast og alast upp hjá fjölskyldunni minni?

Þetta tímabil var rosalega erfitt fyrir okkur öll. Ég fann fyrir mikilli höfnun.

Árið 2000 lést mamma mín, elsku mamma mín, sem ég fékk aldrei tækifæri til að kynnast. Hún tók sitt eigið líf.

Gabríela Mist Guðmundsdóttir ásamt móður sinni Sigrúnu.

Gabríela Mist Guðmundsdóttir ásamt móður sinni Sigrúnu.

Fósturforeldrar mínir voru ósköp gott fólk ég var eina „barnið“ þeirra. Ég fékk ágætt uppeldi, byrjaði síðan í skóla en það fór fljótt að bera á vandamálum hjá mér tengdum hegðun og líðan. Ég fór á barna- og unglinga geðdeild og fékk ýmsar greiningar sem mátti rekja til þeirra erfiðu aðstæðna sem að ég bjó við þegar að ég var lítil og mögulega áfengis- og vímuefnanotkunar á meðgöngu mömmu minnar. Ég man hvað mér fannst erfitt að lifa með allar þessar raskanir.

Í skólanum leið mér illa, krakkarnir sögðu mig skrítna en ég gat ekkert að þessu gert, svona var ég bara. Þegar ég var komin í 8. bekk hrundi allt í kringum mig, ég varð allt í einu mjög þunglynd og kvíðin. Mér var alveg sama um námið, svaf mikið og vildi bara deyja. Ég held að það hafi kannski verið þarna sem að ég áttaði mig virkilega á því að ég ætti aðra mömmu sem að var dáin og að ég ætti aldrei eftir að kynnast henni.  Já og pabbi hvar var hann? Hvernig týpa var hann? Var ég lík honum? Ég hugsaði mikið um það.

Þarna var ég byrjuð að fara til móðurfjölskyldu minnar einu sinni í mánuði, ég byrjaði að hafa samband við pabba minn sem var ennþá virkur alkahólisti. En hann reyndi sitt besta til að bæta upp fyrir allt og gerir það enn í dag. Ég er búin að fyrirgefa honum og dæmdi hann ekki fyrir það að vera með þennan sjúkdóm.

Í 9. bekk var var ég komin með frjáls samskipti við móður fjölskyldu mína, ég flutti til frænku minnar í móðurætt til þess að prófa hvort að hlutirnir myndu ganga betur þar, en barnavernd hafði í samráði við mig og fósturforeldra mína ákveðið að aðskilja okkur í smá tíma okkar beggja vegna, þar sem að samskiptin voru ekki jafn góð og áður. Ég fór á slæman stað með sjálfa mig og hlutirnir gengu verr. Frænka mín var fljót að sjá að þetta væri ekki að ganga upp svona og talaði við barnavernd, að lokum ákváðu þau að best væri fyrir mig að fara í það sem að kallað er styrkt fóstur útá land.

Ég fór þangað í byrjun sumars 2012, ég man að fyrstu vikuna var ég ekki sátt, ég ætlaði ekki að vera þarna, ég ætlaði ekki að þiggja neina hjálp. Við fluttum síðan á annan stað úti á landi. Þegar lengra var liðið á tímann og skólinn byrjaður fór mér að líða aðeins betur og líf mitt varð betra. En þetta var ekki gott og engan veginn það sem ég hafði óskað mér, þarna lokaði barnavernd aftur á samskipti mín við móður fjölskyldu mína.

Í dag bý ennþá á fósturheimili sem að er ósköp eðlilegt heimili og mér líður vel þar. Ég var svo heppin að lenda hjá alveg æðislegu fólki en auðvitað er alltaf erfitt að búa á fósturheimilum.

Ég á eðlileg samskipti við móður fjölskylduna mína í dag og líka við pabba minn. Samskiptin við hina fósturforeldra mína eru góð. Ég er búin að vera lyfjalaus í 3 ár og það gengur vel. Ég reyni að líta jákvæðum augum á lífið þótt að það sé erfitt með þunglyndið og líka með kvíðann.

Ég á ennþá mína daga þar sem að mér langar bara að deyja en ég veit að það kemur ekki til greina að ég leyfi mér það. Lífið hefur upp á svo margt fallegt að bjóða og ég ætla að nýta mér það, auk þess sem að ég hef allt yndislega fólkið sem að ég þekki að lifa fyrir.

Það skipti miklu máli þegar að maður glímir við eitthvað sem er erfitt, sjúkdóma, ástvinamissi eða annað að leita strax hjálpar með því að tala við einhvern um það, fá viðtöl hjá fagaðila og vinna úr því.

Það að vera með jákvætt hugarfar er númer 1,2 og 3.  Ég lít alls ekki á mig sem fórnarlamb eins né neins, þessi lífreynsla gerir mig að þeirri manneskju sem að ég er í dag og ég er stolt af henni, ég er stolt af því að geta séð lífið þessum augum og ég veit að einn daginn á ég eftir að hitta mömmu mína.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283