Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ef ekkert þolir snertingu, í hvað á maður þá að halda sér?

$
0
0

Eiríkur Guðmundsson skrifar:

Til að skrifa um framtíðina þarf maður að vera spámaður. Sá sem heldur því fram að framtíðin sé björt hefur ekkert fyrir sér. Og sá sem heldur því fram að framtíðin sé svört hefur heldur ekkert fyrir sér. Þó er líklegra að sá síðarnefndari hafi réttar fyrir sér, og meira til sína máls, þótt um það megi heldur ekkert fullyrða.

Framtíðin. Ég sit og hugsa um framtíðina. Það eru nokkrir dagar eftir af árinu og ég hugsa um framtíðina. Og á þessum tímapunkti, hugsandi um aukna birtu daganna sem framundan eru, hneigist ég til að halda því fram að framtíðin sé björt. Að minnsta kosti sú framtíð sem lýtur að vaxandi birtu, og jafnvel yl, nýrri veröld þar sem svart myrkur víkur fyrir tæru ljósi. Heimurinn heldur áfram að vera fagur ef við viljum að hann haldi áfram að vera fagur, en því miður vilja það ekki allir. Og margir í þeim hópi ráða býsna miklu um þessar mundir.

Ég er ekki spámaður. Ég er ekki neitt. Ég sé ekki fram í tímann, veit varla hvað klukkan er. Ég hef ekki alltaf kjark til að hugsa um morgundaginn. Ég veit hvað næstu mánuðir heita, þeir eru á dagatalinu, allt skrifað með svörtu letri, en ég veit ekki mikið meir. Kannski ekki neitt. Maður hugsar um framtíðina og hún minnir á glott milli svefns og vöku. Framtíðin hefur okkur að háði og spotti. Hún stendur í dyragættinni, hefur kveikt sér í sígarettu, arfaslök, hún veit af okkur, kvíða okkar, og angist, og hún glottir, það er vegna þess að hún veit sem er að við vitum ekkert um hana. Hún þolir enga snertingu. Ég veit að sólin er farin að hækka á lofti, en ég veit ekki mikið meir. Fortíðin er mér líka hulin ráðgáta.

Ég er Íslendingur, Íslendingur, það er annað orð yfir það að vera fljótur að gleyma. En ég veit að hér í okkar litla heimi, heimi landsins okkar, sem við elskum eins og væmið en nokkuð gott dægurlag, er svo margt sem má betur fara. Þannig hefur það verið lengi, og fátt sem bendir til þess að það muni breytast á næsta ári. Margt bendir raunar til þess að það sé öðru nær. Misskiptingin er ömurleg, forgangsröðunin víða forkastanleg, jarðvegurinn fyrir lýðskrum og fordóma frjórri nú en í langan tíma, þetta eru mannanna verk, þau má í raun og veru svo auðveldlega laga, en við gerum það ekki. Hvers vegna gerum við það ekki? Hvað stoppar okkur af?

Maðurinn er lasburða dýr segir í portúgölsku ljóði. Þegar maðurinn sér sjálfan sig, deyr hann, það er ekki portúgölsk setning heldur sænsk, en hún er jafn sönn og sú portúgalska. Framtíðin er ósnertanleg en við verðum að hugsa um hana. Annars dettum við. Það eru nokkrir dagar eftir af árinu, jólaserían í glugganum er blá, hún kallast á við myrkrið, og ég sit hér, veiti lífinu viðtöku, og spyr eins og barn, hvers vegna breytum við ekki?

Þessar staðreyndir, sem  ég hef nefnt samviskusamlega eins og í grunnskólaritgerð, koma í veg fyrir að ég treysti mér til að skrifa um framtíðina eins og einn fjörugur bjartsýnisafglapi á borð við þann sem Sigfús Daðason fordæmdi í ljóði fyrir löngu og það var gott ljóð. Sigfús orti í sama ljóði um kjarkinn og morgundaginn. Hann hrósaði þeim sem hafa ekki ævinlega kjark til að hugsa um morgundaginn. Hjartað segir, framtíðin er björt, heilinn er ekki á sama máli, hann segir, framtíðin er svört. Hjartað, það slær, stundum heitt, stundum kalt, það er barn á nýjum strigaskóm sem hlakkar til þess að fylgjast með sólinni hækka á lofti, hlakkar til vors og sumars, hlakkar til lífsins, hlakkar til heimsins, heilinn er fauskur með há kollvik sem fylgist svo vel með heimsfréttunum að hann gengur einn góðan veðurdag af göflunum og verður um síðir svo lífsþreyttur að hann hefur ekki einu sinni þrek til að finna inniskóna sína. En hann veit af biturri reynslu, sá gamli skarfur, sem er jafngamall siðmenningunni, að við verðum að vera við öllu búin í lífinu. Svo geta menn rifist um það, hvor er betri spámaður, heilinn eða hjartað. Í raun og veru skiptir það engu máli hvort ég er bjartsýnn eða svartsýnn.

Byrjum á okkur sjálfum, heimurinn er á heljarþröm, náttúran í voða, misskiptingin hrópandi, það er vegna þess að við hugsum eins og við hugsum, erum gegnsýrð af hugmyndum sem einhverjir aðrir fengu fyrir löngu, við fylgjum þeim enn, nánast í blindni. Afnemum misskiptingu, berjumst gegn lýðskrumi og fordómum, og áttum okkur ekki síðar en nú á því að það er dýrt að vera smáþjóð sem heldur uppi eigin menningu, tungumáli, menntastofnunum, að ég tali nú ekki um heilu heilbrigðiskerfi.

Það er dýrt að trúa á drauminn, það er dýrt að hugsa með hjartanu. En ég trúi því að það borgi sig þegar upp er staðið, að hugsa með hjartanu. Ef við gerum það ekki, breytist ekki neitt. Það endar bara með því að við finnum ekki inniskóna okkar, hvað þá annað, kollvikin bara hækka, svo erum við dauð. Þegar maðurinn sér sjálfan sig, deyr hann.

Framtíðin björt eða svört?
Talk to the hand.
Ef ekkert þolir snertingu, í hvað á þá að halda sér? Strindberg spurði fyrir mörgum árum, en við höfum enn ekki fundið svarið.
Ég hef ekki ævinlega kjark til að hugsa um morgundaginn.
Það er dýrt að elta drauma en það tekur því varla að lifa ef maður gerir það ekki
Þola draumar snertingu, og ef ekki, í hvað á maður þá að halda sér?
Öll erum við ofin úr mörgum draumum, afneitum engum þeirra.

Ég er ekki spámáður, aðeins lasburða dýr, strik með kennitölu, svartsýnn bjartsýnisaflapi sem fálmar eitthvað vopnaður blárri jólaseríu út í desembermyrkrið, en ég vona það besta, og vonin lætur ekki að sér hæða.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283