Fyrirtækið Anamma frá Svíþjóð býr til alls konar mat fyrir grænmetisætur. Ég hef aldrei getað borðað neitt frá þeim þar sem þau hafa ekki verið að framleiða vegan-vörur. Þangað til fyrir stuttu. Nú eru komnar vegan-vörur frá þeim í Bónus og Hagkaup. Þau eru með borgara, sænskar „kjöt“bollur og soya-bita. Vörurnar sjáið þið hér og við vonum bara að íslensku búðirnar fari að flytja inn fleira af listanum.
Ég prófaði „kjöt“bollurnar um daginn. Eldaði þær í ofni og bar fram með dýrindis sveppasósu og ofnbökuðum kartöflum. Bollurnar minntu mig svo á kjötbollurnar sem ég var vön að kaupa í Ikea. Mér fannst alveg svolítið erfitt að borða þær og lá við að ég þyrfti að skoða umbúðirnar þrisvar til að fullvissa mig um að þetta væri vegan-matur.
Ég er aðeins búin að leika mér með soya-bitana. Ég hef bæði prófað að steikja þá á pönnu og setja í vefjur ásamt baunum, grænmeti og BBQ-sósu. Það sló svo sannarlega í gegn. Einnig hef ég steikt þá og borðað með miklu grænmeti og tahini-sósu. Það var mjög fínt líka.
Í dag langaði mig í einhvern djúsí karrírétt. Ég ákvað því að tína það til sem ég átti í ísskápnum og skella í hrísgrjónapönnu.
Þá datt mér í hug að sjá hvort það væri ekki upplagt að nota bitana í réttinn og þar hafði ég sko rétt fyrir mér.
Innihald:
1 brokkólíhaus
7 sveppir
1 hvítlauksgeiri
1/4 gúrka – skorin í mjög litla bita og miðjan tekin úr
1 og 1/2 bolli hrísgrjón
Grænmetiskraftur
Lítil dós kókosmjólk
Soya-bitar frá anamma – ég notaði það sem ég átti eftir í frystinum bara.
Karrí
Turmeric
Cayenne-pipar
Salt
Ég sauð hrísgrjón í sér potti og bætti grænmetiskrafti út í vatnið.
Á meðan setti ég grænmetið á pönnu og steikti upp úr smá ólífuolíu. Eftir sirka 5 mín. bætti ég kókosmjólkinni, soya-bitunum og kryddunum út í. Eins og vanalega kryddaði ég bara eftir smekk. Þegar bæði hrísgrjónin og grænmetið varð tilbúið bætti ég grjónunum á pönnuna og smakkaði til. Ég þurfti að bæta örlitlu salti við.
Þetta var alveg þrælgott og tók mig enga stund að gera. Ég er komin með algjört hrísgrjónaæði og elska að nota þau í rétti. Ég held samt að þetta sé mjög gott með quinoa fyrir þá sem vilja það frekar en grjónin.
Helga María