Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Mannorðsmorð og meint lifrarbólgu C smit

$
0
0

Ég ætla að taka smá séns með efnið hérna, en það er mjög persónulegt og skilur mig eftir berskjaldaða. Pistillinn minn er gagnrýni á vinnubrögð fjölmiðla og lögreglu í grófu og leiðinlegu sex ára gömlu dómsmáli sem hefur verið blásið upp í fjölmiðlum ítrekað. Þar er ætíð haldið fram röngum upplýsingum – meðal annnars sagt að hinn ákærði (maðurinn minn, Eyþór) hafi gert viðurstyggilegan hlut sem hann var þó sýknaður af – að hafa smitað fórnarlamb sitt af lifrarbólgu C.

,,Við meðferð málsins hefur ákærði alfarið neitað þeim sakaratriðum í ákæru að hann hafi ógnað eða stungið brotaþola með sprautunál … Brotaþoli hefur fyrir dómi ekki getað sagt til um hver það var sem stakk hann með sprautunálinni … er að mati dómsins varhugavert að telja sannað gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi framið þau brot sem hér um ræðir. Verður hann því sýknaður af þessum sakaratriðum“ (Dómsúrskurður. Héraðsdómur Norðurlands eystra, 2011)

Ein slík frétt kom meira að segja í síðasta mánuði og hafa þessar fjölmiðlaumfjallanir valdið bæði þeim ákærðu, fórnarlambinu sjálfu og fjölskyldum þeirra erfiðleikum í samfélaginu. Til dæmis má taka fram að fljótlega eftir fyrstu fréttirnar um málið var ráðist á mig af vinum brotaþola, þrátt fyrir að mín eina sök væri að hafa ekki getað, eða jafnvel viljað, varið hann fyrir fjórum fullburða einstaklingum.

Það að þessum gömlum sárum hafi ennþá ekki verið leyft að gróa varð svo kveikjan af þessari grein.

Þessi hlið hefur ekki komið í fjölmiðlum fyrr vegna skammar og sektar hinna ákærðu sem og af virðingu við fórnarlambið. Sektin er þó í raun minni en ætla mætti af fréttaflutningi um málið, þar sem því er haldið fram að fórnarlambið sé með sjúkdóm eftir verknaðinn – sem hvorki þeir ákærðu né fórnarlambið er með, en fréttaflutningur af þessu tagi hlýtur líka að koma illa við fórnarlambið.

,,Þá segir að í apríl sama ár hafi verið tekið sýni úr brotaþola og hafi rannsókn á þeim sýnum sýnt að hann væri sýktur af lifrarbólgu C, en að PCR magn hafi mælst mjög lágt. Loks segir að í júní og júlí 2010 hafi enn verið tekin blóðsýni úr brotaþola, en þá hafi, í báðum tilvikum, rannsóknir sýnt að hann væri neikvæður fyrir lifrarbólgusmiti C.“ (Kristinn heimilislæknir. Héraðsdómur Norðurlands Eystra, 2011)

Í pistli þessum fer ég ýtarlega í dóminn sjálfan og „rannsaka“ málið upp á nýtt. Ég segi söguna eins og hún kemur fyrir í dómnum, með orðum vitnanna í málinu, en notast þó oft við gervinöfn í stað bókstafanna sem koma fyrir í dómnum til að auðvelda lesturinn. En set rétta bókstafinn eftir tilvitanir í dóminn. Í dómnum eru haldbærar upplýsingar um sekt tveggja einstaklinga, sem ekki voru ákærðir þrátt fyrir augljósa og viðurkennda aðild að málinu. Þeirra sekt er svo varpað á hinn ákærða – manninn minn.

Þetta ætla ég að gera á eins hlutlausan hátt og ég get, þrátt fyrir augljós tengsl og að ég hafi verið viðstödd að hluta. Ég vitna því mikið í dóminn sem áreiðanlega heimild sem hægt sé að lesa á netinu.

Stutt leit mín á google, skilaði a.m.k. 17 fréttaniðurstöðum á vefnum á þessum sex árum,  auk þess sem fjallað hefur verið ítrekað um málið í blöðunum og sjónvarpi. Í yfir helmingi tilvika var maðurinn minn nafngreindur. (mbl.is . 2009, 2011, 2015, Pressan.is. 2011, Visir.is. 2009, 2010, 2011, nordurlandid.is. 2009, 2011)

Þá var málið gjarnan rifjað upp og hann yfirleitt nafngreindur vegna hinna ýmsu mála tengdum samverkamönnum sínum, áfrýjun til Hæstaréttar, afbrotum, meiðyrðum og jafnvel öðru framferði þeirra á netinu. (Landpostur.is. 2011, Dv.is. 2011)

Hver rannsakaði eiginlega þetta mál?

,,Vitnið Kristófer Örn Sigurðsson; „skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði eftir símtal við Matta um kvöldmatarleytið farið á veitingastað í Lundarhverfi í þeim tilgangi að ræða við Eyþór“ en hann kvaðst hafa skuldað þeim síðarnefnda 5.000 krónur.“… Í samræðum sínum við þau kvaðst hann m.a. hafa hlýtt á Matta og Báru hvetja ákærða Eyþór til að fara að heimili Atla og rukka hann um þá fjármuni sem hann skuldaði.“ (Kristófer Örn Sigurðsson. Héraðsdómur Norðurlands eystra, 2011)

Fyrsta mál á dagskrá eru „vitnin“ D og E hér eftir kölluð Matti og Bára

Rammgrunsamleg voru þau, en ekki sett í gæsluvarðhald.
Rammsek voru þau, en ekki ákærð.
Viðstödd voru þau, illa haldin af lifrarbólgu C.

Virkir sprautufíklar, og klárlega viðriðin málið.

,,Vitnið Matti, fæddur 1984, var handtekinn á heimili sínu ásamt Báru þann 11. ágúst 2009. Hann var yfirheyrður sem sakborningur þann 11. og 12. ágúst. … Hann kvaðst er atvik þessi gerðust hafa skuldað Eyþór verulega fjármuni vegna eigin fíkniefnakaupa og bar fyrir lögreglu að það hefði verið um 1,2 milljónir króna.“ (D „Matti“. Héraðsdómur Norðurlands eystra, 2011)

Þessar upplýsingar voru ekki vefengdar frekar en afar fátítt er að fíkniefnaneytendur skuldi slíkar upphæðir vegna eigin neyslu, Matti skuldaði einnig talsvert meira en brotaþolinn (hér eftir kallaður Atli) og voru peningar því alls ekki aðalatriðið, þótt við þorum ekki að fullyrða um ásetning eða ástæður þeirra barsmíða og annars ofbeldis sem hann þurfti að þola frá öðrum gerendum.

En inntur eftir skýringum um athæfi sitt, hafði Matti eftirfarandi að segja:

,,Bar hann að þau Bára hefðu að einhverju leyti tekið þátt í þessu athæfi gegn brotaþola og hafði þá skýringu helsta að það hefðu verið stælar af hans hálfu.“ (D „Matti“. Héraðsdómur Norðurlands eystra, 2011)

Stjörnuvitni ákæruvaldsins, Matti, lýsti árásinni með eftirfarandi hætti.

,,Hann kvaðst og minnast þess að Eyþór hefði fyrirskipað Atla að setjast á stól, en kannaðist ekki við að hann hefði ógnað brotaþola með hnífi. Hann kvaðst hafa tekið þátt í orðræðunni um skuldamálin og þar á meðal með því að öskra að Atla. … Hann minntist þess og að Eyþór hefði skyndilega tekið fram ryksugurör og í beinu framhaldi af því séð hann berja því í andlit Atla, en samtímis sagt reiðilega að hann hefði ekki sinnt því að greiða skuld sína í marga mánuði. Hann kvaðst aðeins hafa séð Eyþór slá Atla þessu einu höggi með ryksugurörinu“  (D „Matti“. Héraðsdómur Norðurlands eystra, 2011)

Hann tók það fram að hann og unnusta sín, Bára, hefðu meðal annars sprautað sig með fíkniefnum um kvöldið, þá notað sömu sprautunálina og tíundaði hann sérstaklega fyrir dómi, ábyrgar geymsluaðferðir sínar á sprautunálum í mittistösku. Það er furðulegt að lögregla hafi ekki sýnt því minnsta áhuga á að rannsaka hvaðan sýkta sprautunálin kom.

,,Hann kvað þau hafa geymt spraututól sín í litlu veski og kannaðist ekki við að þau hefðu verið á glámbekk í íbúð Eyþórs.“ (D „Matti“. Héraðsdómur Norðurlands eystra, 2011)

Einnig staðfesti hann að hann og unnusta sín væru smituð af lifrarbólgu C og aðspurður um lifrarbólgusmitið sjálft, áréttaði hann fyrri framburð sinn að hann teldi líklegast að kærasta sín hefði átt hlut að máli og tók það svo sérstaklega fram að annaðhvort hann eða hún hafi átt nálina.

Samkvæmt rannsóknargögnum lést Bára þann sama mánuð. Af þeim sökum var ekki við framburð hennar fyrir dómi að styðjast. Vert er að taka fram að framburður hennar við rannsókn lögreglu varð til þess að henni og Matta var sleppt sama kvöld en var í engu samræmi við aðra vitnisburði í málinu, þar með talið vitnisburð unnusta hennar og fórnarlambsins.

Myndataka á vettvangi

Það voru ljósmyndir í gögnum málsins en myndirnar voru framkallaðar af myndavél sem fannst á vettvangi og vitað er að Bára tók þær. Við vorum ekki viðstödd myndatökuna. En Matti benti sjálfur á sig í bakgrunni á einni þeirra, mynd, sem sýndi nálina í eyra fórnarlambsins, skömmu eftir að henni var komið þar fyrir.

,,Og svo þegar ég vakna aftur þá eru þau hlæjandi þarna og eru með myndavél framan í mér, ég man ekki hver tók akkúrat myndina, en þarna á þessum tímapunkti var ég kominn með þessa nál í eyrað á mér.“ Ítrekað aðspurður fyrir dómi treysti hann sér ekki til að segja til um hver það hefði verið sem hefði stungið hann með sprautunálinni í eyrað.“ (A „Atli“, Héraðsdómur Norðurlands eystra, 2011)

Hvað hafði fórnalambið að segja um þetta?

Fyrstu mínúturnar fyrir dómi fóru í að útskýra að hann hafi gert lítið úr hlut Matta og Báru við rannsókn málsins. Kannski var samviskan að plaga hann, nema hann hafi loks verið að ranka við sér og átta sig á að hann var afvegaleiddur af lögreglu í skýrslutökunum. Þá varð honum nú fullljóst að lögreglu var frá fyrstu stundu skítsama um hagsmuni hans í þessu máli. Hafði notað hann sem leiksopp, þegar þessum augljósu gerendum var svo bara sleppt.

Hann kvaðst hafa vankast um stund við högg og einnig fengið áfall. Vegna þess væri það sem eftir það gerðist ekki fyllilega skýrt í huga hans, bar hann að vegna óskýrleikans og nefndra minnisglapa vildi hann draga þá frásögn sína til baka, sem hann gaf hjá lögreglu, að það hefði verið Eyþór sem hefði stungið nálinni í eyra hans.

Þá tók hann fram að hann hafi logið helling upp á Eyþór í reiði sinni og áréttaði að vegna hins þokukennda hugarástands gæti hann ekki sagt til um hver hefði tekið sprautunálina úr eyra hans.

,,Hann staðhæfði jafnframt að Matti og Bára hefðu ekki látið sitt eftir liggja og fullyrti að þau hefðu líkt og Eyþór barið hann, pínt og pyntað, enda þótt Eyþór hefði gengið lengst í því efni. Hann minntist þess sérstaklega að parið hefði ítrekað öskrað á hann og kallað hann ljótum nöfnum … Þannig hefði Eyþór klipið hann í handlegginn með flísatöng, en hann kvaðst ekki hafa fengið sýnilega áverka af þeim verknaði.“  (A „Atli“. Héraðsdómur Norðurlands eystra, 2011)

Brotaþoli mátti þola mikið frá Matta og Báru þetta kvöld og vitnaði hann til þess að þau hafi ætlað sér háar fjárhæðir fyrir að handrukka hann.

,,loks hefði ákærði öskrað að skuldin væri komin í 500.000 krónur. Til skýringar hefði það m.a. verið nefnt að Matti og Bára ættu að fá hluta af greiðslunni.“  (A „Atli“. Héraðsdómur Norðurlands eystra, 2011)

Ósamræmið í framburði brotaþola

Þar komum við að ákærða Z, sem við skulum nefna Ómar hérna, hinum aðilanum sem var dæmdur í málinu, við viljum ekki fara ýtarlega í hans hlut, en þurfum þó að taka dæmi úr framburði Atla er snýr að Ómari til að sýna fram á að hversu takmörkuðu leyti lýsingar hans á ofbeldinu eru í samræmi við lýsingar á áverkum hans.

Ómar hafði eflaust sínar ástæður fyrir athæfi sínu, en um reynslu sína af Ómari segir brotaþolinn eftirfarandi:

,,Hann kvaðst minnast þess að það fyrsta sem Ómar hefði sagt þegar hann leit til hans hefði verið eftirfarandi: ,,já þetta er gaurinn sem nauðgaði konunni minni“ … Hann kvað Ómar hafa brugðist við orðum hans með því að sparka í andlit hans hægra megin. Staðhæfði hann að eftir þetta hefði Ómar reglulega og nær alla nóttina sparkað í höfuð hans, en hann þá jafnan reynt að hlífa vinstri vanganum vegna þeirra áverka sem þar voru þar fyrir eftir fyrri barsmíðar Eyþórs … Brotaþoli bar um athæfi Ómars á þá leið að hann hefði veist að honum með fyrrnefndum barsmíðum og ítrekuðum spörkum. Staðhæfði hann að spörk Ómars hefðu verið á milli tíu og tuttugu, og hann þá stundum verið íklæddur svörtum götuskóm.“ (A „Atli“, Héraðsdómur Norðurlands eystra, 2011)

,,Vitnið Æ, læknanemi … Vitnið áréttaði að auk hinna sýnilegu áverka í andliti hefði brotaþoli verið frekar þrútinn og rauður yfir öllu andlitinu, en þó ekki verið með eiginleg áverkamerki á hægri andlitshelmingi. …Vitnið bar að helstu sýnilegu áverkar brotaþola hefðu verið mikil bólga á hægri ganglim, stórt og mikið glóðarauga og áðurnefndar ákomur á hálsi og eyra … Vitnið staðhæfði að við komu á slysadeildina hefði brotaþoli verið mjög miður sín og ætlaði að í raun hefði helsti áverki hans verið af andlegum toga.“ (Vitni Æ læknanemi. Héraðsdómur Norðurlands eystra, 2011)

,,Þeir lögreglumenn sem unnu að rannsókn málsins, þeir V, R, Þ og S staðfestu verk sín og efni framlagðra rannsóknargagna.  Sá síðast nefndi skýrði m.a. frá því að Bára hefði við yfirheyrslur lögreglu skýrt sjálfstætt frá atvikum máls.  Var það mat vitnisins að hún hefði verið skýr í allri hugsun enda þótt hún hefði verið drafandi vegna töku róandi lyfja skömmu fyrir yfirheyrslurnar.“ Vitnið E, „Bára“. Héraðsdómur Norðurlands eystra, 2011

Í ljósi þess að hún gisti í fangaklefa til að sofa úr sér samkvæmt gögnum málsinns, hvar fékk hún nægt róandi til að vera drafandi í yfirheyrslunni? Og þótti þessum lögreglumanni framburðurinn skýr þrátt fyrir að hann ætti sér ekki stoð í gögnum málsinns? Einnig finnst mér sérstakt að lögreglumennirnir séu merktir inn sem bókstafir, þar sem þeir ættu að bera ábyrgð á rannsókninni í heild líkt og höfundar ritgerða.

Það eitt að Matti og Bára hlutu ekki ákæru í málinu og réttarstaða þeirra breyttist úr sakborningum í vitni, degi eftir handtöku þeirra, eftir síðustu skýrslu sem Bára gaf í málinu, í bullandi fráhvörfum, drafandi af neyslu róandi lyfja, gerir öllum fullljóst að lögreglu var frá fyrstu stundu skítsama um hagsmuni brotaþola í þessu annars leiðinlega máli.

Úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir orð sprautufíkils

Lögregla hafði þó ekki lokið fáránlegri meðferð sinni á okkur og því miður áttum við enn eftir að eiga samskipti við Matta. Á gamlársdag 2010 hafi hann samband við okkur, í fyrstu með facebook skilaboðum, m.a. þess efnis að hann hygðist ,,koma Eyþóri inn heillengi“ (sjá myndir) og ljótum kommentum undir myndir af okkur. Um kvöldið hringir Eyþór í hann vegna eins slíks, sem hafði ekkert upp á sig, en í því símtali var engu hótað eða yfirhöfuð minnst á dómsmálið yfirvofandi.

Við vitum svo ekki fyrr en lögregla handtekur Eyþór, þá nakinn á heimili okkar, með látum, hann er síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald á nýársdag, (ath; kalla þurfti út héraðsdómara úr fríi) á þeim forsendum að hann hafi verið að hóta meginvitni í málinu, til að fá Matta til að breyta framburði sínum. En einnig reyna þeir að styrkja grundvöll fyrir gæsluvarðhaldsbeiðni sinni með veikum yfirlýsingum sauðdrukkinnar manneskju m.a. þess efnis að Eyþór hafi kýlt sig og „fleira fólk“ á heimili okkar (ótengt þessu máli). Engar ákærur hlutust af þessu fimbulfambi, en Eyþór fékk að dúsa 25 daga í kjölfarið.

Þetta gæsluvarðhald gekk í gegn fyrir lygar sprautufíkils, þrátt fyrir sönnunargögn sem ég afhenti lögfræðingi okkar á nýársdag og reynt var að koma til lögreglu, þar á meðal myndir af hótunum stjörnuvitnisins á facebook.

Á annari þeirra segist „hrædda vitnið“ vera brosandi út að eyrum og hlakka til að sjá hann og er þá að öllum líkindum að vísa til yfirvofandi fyrirtöku á dómi, en á hinni þá má sjá að hann ásakar Eyþór um manndómsskort og ýjar að því að hann þori ekki að kljást við sig.

Fjölmiðlar birtu að sjálfsögðu fréttatilkynningar lögreglu beint af kúnni og birtust ógeðslegar fréttir í hinum ýmsu fjölmiðlum vegna málsins, upprifjun á brotaferli og að sjálfsögðu staðhæfðu flestir þeirra að Eyþór hefði smitað mann af lifrarbólgu C o.fl.

Lokaorð

Rangur fréttaflutningur og umtal um þetta mál hefur litað líf okkar mikið á þessum sex árum og við höfum þurft að útskýra málið fyrir okkar nánustu.

Ég veit í raun ekki hvað er verst – að fólk haldi að maðurinn minn hafi smitað mann af lifrarbólgu eða að margir haldi að synir mínir hafi fæðst með lifrarbólgu C, en ég hef án gríns verið spurð að því, en hversu margir spyrja ekki, og hugsa bara sitt?

Hvorki ég né maðurinn minn erum með lifrarbólgu C. Það getur verið erfitt eftir öll þessi ár að halda höfði hátt þegar við göngum um heimabæ okkar, Akureyri, bara af því lögregla og fjölmiðlar unnu ekki vinnuna sína.

Nú erum við enn og aftur flutt heim til Akureyrar og höfum þegar verið boðin „velkomin“ af barnaverndarnefnd, þar sem þeir taka fram að

,,Eyþór eigi langa sögu um fíkniefnavanda og afbrotasögu og að árið 2011 hafi hann verið dæmdur m.a. fyrir stórfellda líkamsárás og frelsisviptingu“ (Greinargerð. Barnaverndarnefnd. 2015)

En þar er ýjað að því að um fleiri dóma sé að ræða það árið, en hann hafði ekki brotið af sér frá því 2009 þó dómurinn hafi komið 2011, þá erum við að tala um 7 ár hérna.

Hversu lengi þarf síbrotamaður að vera óvirkur til þess að hann teljist ekki síbrotamaður lengur? Á það virkilega að skipta máli í barnaverndarmáli hvað gerst hefur löngu áður en barnið kom undir?

Skiljanlega veldur það mikilli félagsfælni sem við erum að reyna að yfirstíga og ég vona því að sem flestir lesi þessa grein svo við getum loks klárað að afplána dóm samfélagsins eða í það minnsta fengið reynslulausn.

Heimildaskrá:

Dv.is. (2011). Létu fórnarlambið sleikja klósett. Sótt 1. nóvember 2015 af: http://www.dv.is/frettir/2011/12/20/smitudu-fornarlambid-af-lifrarbolgu-c/

Héraðsdómur Norðurlands eystra. (2011). Mál nr. S-201/2010. Sótt 1. nóvember .2015 af: http://domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=S201000201&Domur=6&type=1&Serial=1&Words=.

Landpostur.is. (2011). DÆMT Í FRELSISSVIPTINGARMÁLI – SAKBORNINGUR SENDIR DÓMURUM OG LÖGFRÆÐINGI KVEÐJU Á FACEBOOK. Sótt 1. nóvember 2015 af: http://www.landpostur.is/is/frettir/daemt_i_frelsissviptingarmali___sakborningur_sendir

 

 

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283