Hvítt er leikhús fyrir minnstu börnin. Það er mjög vel að þessum yngsta hóp samborgara skuli sinnt; það hefur vissulega farið vaxandi – atvinnuleikhúsin bæði hafa fjölgað verkefnum ætluð þeim hóp og það er bara gott eitt um að segja þegar þeim leikhúsum fjölgar sem taka á sig þá vandasömu ábyrgð að verða fyrsta leikhúsreynsla lífsins! Það er til merkis um vandað samfélag þar sem hugsað er um þarfir yngstu samborgaranna með þeim sóma sem þeim ber.
Ef sýningin Hvítt er skoðuð í því ljósinu, er Gaflaraleikhúsið á góðri braut; hér er efnt til samstarfs við skoskan leikhóp, Catherine Wheel-leikhópinn, sem hefur að baki aragrúa sýninga fyrir börn og getið sér gott orð á undanförnum árum, ekki síst á leiklistarhátíðum. Hvítt var frumsýnt árið 2010 í Edinborg og var fyrsta sýning leikhópsins fyrir börn undir fimm ára aldri; hópurinn vann til þrennra verðlauna á Edinborgarhátíðinni það ár og fór síðan sigurför á hinar ýmsu leiklistarhátíðir og vann til ótal verðlauna.
Það er reyndar ástæða fyrir þessari velgengni. Hvítt er ákaflega vel skrifað verk, það segir látlausa sögu en leyfir henni að gerast á að minnsta kosti tveimur plönum samtímis, þannig að jafnt yngstu áhorfendurnir sem þeir eldri finna ýmislegt við hæfi til að vinna úr.
Gaflaraleikhúsið sýnir Hvítt í Hafnarborg, listamiðstöð Hafnarfjarðar, og er sýningunni haganlega fyrir komið í litlu rými sem snýr út að Strandgötunni; rétt að taka það fram fyrst ekki er sýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu sjálfu sem annars er heimavangur Gaflaraleikhússins.
Það ríkir svo mikil eftirvænting í loftinu og elskuleg stemning þegar áhorfendur af öllum stærðum og á öllum aldri eru að koma sér fyrir í litla, hvíta leikrýminu í Hafnarborginni. Þar hefur verið skapað alhvítt rými með alhvítu leiksviði með heilli alhvítri fuglahúsaborg og hvítu tjaldi, en það er skjól Bómullar og Krumpu þegar þær eru ekki að sinna vinnu sinni í þessu alhvíta landi þar sem fuglatístið fyllir himininn. Bómull og Krumpa eru tvær verur, sem búa í þessari hvítu veröld … en við skulum byrja á blábyrjuninni … afsakið, hvítbyrjuninni:
Sýningin hefst auðvitað á því að allir eru boðnir velkomnir, minnt er á að pabbar og mömmur slökkvi nú á farsímunum og, já, börnin líka, ef þau eiga farsíma; síðan er tekið fram að sýningin sé 36 mínútur og að það megi alveg fara fram og pissa meðan á henni stendur og þessi inngangskveðja öll er framkvæmd þannig að maður óskar þess að önnur leikhús taki sér það til fyrirmyndar (stundum þarf maður bara að fara fram og pissa og þá er gott að hafa fengið leyfi til þess áður). Svo hefst sýningin á því að allir áhorfendur skapa blakkát saman – blakkát er myrkrið sem er á undan sýningunni, en hér er ekki hægt að skapa algert myrkur af því allt er svo hvítt – og þá hjálpast allir með því að loka augunum og telja upp að fimm. Og þá – en ekki fyrr en þá – hefst sýningin.
Og situr þar ekki Bómull og prjónar! Fuglarnir tísta eins og áður og allt í einu galar gaukur og dýrin láta í sér heyra – það er jarmað og baulað af því það er runninn dagur og allt iðar af lífi. Hefst nú vinna Bómullar við að vekja Krumpu og aðstoða hana við morgunverkin – vökva andlitið, þvo sér og snýta og loks að bursta tennurnar. Allt með hvítu, hvítu og hvítu. Síðan tekur við sameiginleg vinna dagsins, að grípa í hvíta svuntu hvít egg sem falla af himni og þurfa alúðar við í fuglahúsunum. Hvítu eggin eru sett í hvíta eggjabikara og fá hvítar sætar prjónahúfur og loks er þeim komið fyrir í hvítu fuglahúsunum svo þau megi nú dafna og þroskast.
Allt gerist þetta í varfærnu og rólegu tempói svo enginn missi af neinu. Hér er ekki farið fram með óþarfa æsing og hávaða, heldur nostrað við hverja hreyfingu, hvert andartak og þess gætt að hvert smáatriði fái að njóta sín og öðlast sína merkingu sem hluti af heildinni. Gunnar Helgason leikstjóri hefur sannarlega haldið vel utan um heildina og nýtt hvert tækifæri sem býðst til að vinna með leikmyndina og búningana, sem hannað er af skoskum höfundum sýningarinnar. En hér ber líka að geta þess sem mestu skiptir, að leikur þeirra Virginiu Gillard í hlutverki Bómullar og Maríu Pálsdóttur í hlutverki Krumps var með þvílíkum eindæmum fallegur að hann hefði heillað áhorfendur upp úr skónum ef þeir hefðu ekki þegar verið komnir úr þeim (allir beðnir um að fara úr skónum við innganginn svo ekki væri neitt óhreint borið inn í hinn hvíta heim!) Samhæfðar hreyfingar og samhæfð meðferð orða og þagna og augngotur þeirra í millum var svo smekklega og nettlega útfært að það fangaði athygli jafnt yngri sem eldri. Hvert smáatriði varð spennandi, af því það var svo vel tekið utan um það og það fékk að lifa og njóta sín. Þær Virginia og María eru svo ósvikið glaðar og ekta í leik sínum að það smitar hamingju langt út fyrir sviðsbrún og við fundum öll til gleði og hamingju þegar þær hlúðu að eggjunum, pússuðu í kringum þau, settu á þær húfur … Það var auðfundið að jafnt hinir ungu sem eldri áhorfendur kunnu vel að meta. Athyglin í hámarki, einbeitingin eins og best varð á kosið, svo þegar allt í einu örlaði á einum litaflekk, einum bletti í hinni hvítu veröld var svo sannarlega eftir því tekið!
Litur! Græn fjöður! Í hinni hvítu, fallegu, fullkomnu veröld! Hjálpi mér allir heilagir!
Til allrar hamingju sá Krumpa þennan litaflekk og saman sáu hún og Bómull til þess að hreinsa hina fögru, hvítu veröld, fjarlægja litaflekkinn og hann hlaut á endanum makleg málagjöld fyrir truflunina og var hent í ruslið með viðeigandi ritúali.
En svo gerðist það óhjákvæmilega – litir fóru að þrengja sér inn í hina hvítu veröld og skapa alls konar blæbrigði. Fjölbreytileika. Fegurð. Litir út um allt! Hjálp!
Og hér er kannski best að segja ekki of mikið um framhaldið, því þrátt fyrir allt verður einhver spenningur að vera eftir. Hvernig fer? Hvernig taka þær Bómull og Krumpa á málunum?
Hér skal aðeins hnykkt á með því að segja að Hvítt er töfrum gætt leikhús, við sjáum og finnum fyrir unaðslegum leikhúsgaldrinum eins og hann gerist bestur, hann er tæknilega óaðfinnanlegur (reynið sjálf að spá í hvernig allt breytist, segi ég nú bara!) og öll sagan er borin fram af svo mikilli virðingu við áhorfendur og einlægri ást á leikhúslistinni að því verður vart með orðum lýst. Gaflaraleikhúsið hafi þökk fyrir og nú er bara óskandi að áhorfendur – ungir sem aldnir – rati í Hafnarfjörðinn og Hafnarborgina.
Gaflaraleikhúsið: Hvítt
Höfundar: Andy Manley og Ian Cameron
Þýðing: Gunnar Helgason
Leikstjóri: Gunnar Helgason
Leikmynd, búningar og hljóð: Catherine Wheels-leikhópurinn
Leikarar: María Pálsdóttir, Virginia Gillard