Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

„Þjóðkirkjan er ekki sætasta stelpan á ballinu“

$
0
0

BÆNAKALL

Þjóðkirkjan er ekki sætasta stelpan á ballinu samkvæmt skoðanakönnun sem unnin var fyrir tilstilli Siðmenntar nú á dögunum. Enginn fannst undir 25 ára aldri sem trúir sköpunarsögu Biblíunnar. Reyndar má það teljast nokkurt afrek að finna nokkurn í aldurshópunum þar fyrir ofan í ljósi þess að þessu trúir varla nokkur prestur heldur. Án þess að fara að kafa mjög grúndígt ofan í þessa könnun leyfi ég mér að halda því fram að ef heldur sem horfir þá kemur að því að Hin lútherskevangelíska þjóðkirkja verður að viðhengi við Framsóknarflokkinn líkt og flugvallarvinir innan fárra áratuga.

Screen Shot 2016-02-03 at 09.16.36

Hvað svo sem mönnum kann að finnast um sambúð ríkis og kirkju þá er staðreyndin samt sú að tiltölulega nýlega var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla hvar kirkjan marði nauman sigur. Þannig að við sitjum uppi með hana.

Ég er sjálfur ekki í Þjóðkirkjunni, skráði mig úr henni fyrir fermingu og sá margsinnis eftir því vegna þess að þá gat ég ekki skráð mig úr henni aftur í mótmælaskyni við hin ýmsu tilefni.

Ég og allmargir aðrir eigum í eilífðar ástar/haturs-sambandi við þetta batterí. Við Íslendingar erum fæstir trúlausir, ég geri mér enga grein fyrir því hvar við myndum kvarðast á heimsvísu en flestir sem ég hef kynnst um ævina hafa óljósa, oft óskilgreinda trú á, eða kannski frekar rétt að segja tilfinningu fyrir, að eitthvað meira sé til í þessum heimi en eingöngu það sem skilningarvitin fimm eru fær um að prósessera.

Afskaplega fáa þekki ég sem lepja boðskap Biblíunnar óþynntan af stút, flestum er nokk sama hvort Jesú kallinn er upprisinn eða hvort hann hafi verið Guð með stóru Géi. En það geta flestir bekennt það undir morgun sunnudags þegar trúnóið er komið á andlegt flug að hann hafi örugglega verið fínn náungi og sagt margt sniðugt, sumt jafnvel til eftirbreytni.

Biblían er reyndar stórmerkilegt Andrésblað. Það má segja að rétt eins og „Fastir liðir eins og venjulega“ hafi hún haft gríðarleg áhrif á tungutak, hugtök og málshætti íslenskunnar eins og hún er í dag. Það eitt og sér ætti að vera mönnum næg hvatning til að lesa hana. Vissulega má finna í henni fjöldamörg gullkorn, enda væri talsvert afrek að ná að semja einhvers konar andlegt trúarrit sem er þykkra en símaskráin og rata hvergi inn á neitt sem héldi vatni. En sem námsbók í siðfræði er hún handónýt.

less-angry

Mannfjandsamlegi viðbjóðurinn sem boðið er upp á í Gamla testamentinu útilokar hana sem brúkhæfan leiðbeiningarbækling, (Sjálfur sé ég reyndar alveg kostina í því að geta notað hana til að réttlæta það að við Hafnfirðingar tækjum okkur garðbæska þræla).

Það má vera að upphaflegir skríbentar hennar hafi verið innblásnir, en það er búið að margendurskoða hana, ritskoða hana og bæta framan og aftan við einstakar bækur hennar. Þar má finna tvær mismunandi útgáfur af boðorðunum og engum kemur saman um hvað Jesú sagði á krossinum.

Sjálfum kom það mér því talsvert á óvart hvað mér þótti það leitt að sjá þessa þróun á blaði. Ástæðan er líklega sú að ég þekki töluverðan fjölda mjög góðra presta og svo er ekki langt síðan ég vann við að leggja rafmagn í kirkju hér á höfuðborgarsvæðinu og fékk þá að fylgjast með starfinu sem aldrei er auglýst í blöðum eða útvarpi. Ég sá þegar til var hlaupið og skrapaðir saman peningar úr kirkjusjóði handa fólki sem ekki átti fyrir mat, sá hvernig húsið var notað sem félagsheimili fyrir eldri borgara og sá að starfsmennirnir höfðu raunverulega löngun til að hjálpa fólki án þess að því fylgdi einhver helgislepja.

Okkur þykir vænt um það hve fallega talað er yfir ömmum okkar þegar við fylgjum þeim síðasta spölinn, við viljum sjá brúðir þessa lands ganga kirkjugólfið og við viljum veifa afkvæmum okkar, eins og ljónshvolpinum í Disney-myndinni, fyrir framan fulla kirkju af vinum og ættingjum við skírn. Ekkert af þessu er nauðsynlegt en við gerum þetta samt, langflest.

Sem betur fer erum við ekki kaþólsk. Ef kaþólska kirkjan væri skip, hefði hún misst haffærniskírteinið vegna hönnunargalla. Það gengur ekki upp að banna mönnum að stunda kynlíf, það brestur eitthvað. Það er eins og að banna þeim að anda. Og dæmin eru sorgleg og dæmin eru mörg og þau verða því miður fleiri.

Vandamálið er að ég held forystan. Núverandi biskup sýnist mér reyndar hafa orð lögregluforingjans í Löggulíf að leiðarljósi í flestum sínum embættisgjörðum þ.e.: „Sá sem gerir ekki neitt, hann gerir engar vitleysur“, það þurfti að gramsa í internetinu til að finna glappaskot og á endanum fannst eitthvert tuldur um að forsetinn ætti að vera í Þjóðkirkjunni. Í samanburði við forvera sína telst þetta nokkuð vel sloppið.

oli skula

Karls verður alltaf minnst fyrir að hafa tekið málstað Ólafs og neitað að trúa því að Ólafur hafi nauðgað dóttur sinni, þótt hún stæði fyrir framan Karl og segði honum það. Honum til varnar þá öfundar hann enginn af því að fá þessar fréttir af vini sínum, en því miður þá er það jú svo að maður þekkir engan alveg fyrr en maður hefur unnið með honum, búið með honum og drukkið með honum brennivín.

Í stað þess að vera leiðandi á sviði innlendra mannréttindamála, þá þurfti að toga úrbætur á stöðu samkynhneigðra út úr Karli með töngum. Þeir sem til hans þekkja eru á einu máli um að Karl sé góður kall, en ég leyfi mér að segja að hann hafi líklega ekki verið nógu góður biskup. Sjálfum fannst mér flottast þegar hann lýsti því yfir að jólasveinarnir væru ekki til. Ég hefði reyndar verið til í að vera fluga á vegg hjá PR-fulltrúanum sem hann bar þessa snilld ekki undir. Þar sem ég er að reyna að vanda mál mitt og blóta minna ætla ég ekki að ræða Ólaf frekar.

Þetta meikar engan sens. Kirkjan getur ekki ætlast til að við trúum á veraldlega stofnun í blindni eins og sé hún Guð. Þetta þarf að meika einhvern sens einhvers staðar.

Við höfum nefnilega samanburðinn við söfnuð sem virkar bara mjög vel. Á hverju ári kemur saman til hátíðarhalda stór hópur í Neskaupstað. Karldýr þessa söfnuðar eru lifandi eftirmyndir smiðssonarins frá Nazaret hvað hár og skegg varðar. Þarna koma þeir saman, drekka soldið messuvín og flykkjast upp að altarinu til að hlýða á prestana flytja nýja og gamla sálma í bland.

Aðeins er eitt boðorð „Ekki vera fáviti“. Þetta boðorð er margtuggið ofan í söfnuðinn sem júbblar af gleði og enn sem komið er hefur öllum tekist að fara eftir þessu, alltént meðan hátíð er í bæ.

Okkur vantar einfaldlega betri biskup. Einhvern sem er til í að taka slaginn við forneskjulega svartstakkana. Einhvern sem tekur orðið „Samviskufrelsi“, drekkir því í næsta skírnarfonti og heygir í óvígðri mold. Einhvern sem horfir fram á við, ólíkt saltstöplunum sem nú eru forsvarsmenn helginnar. Einhvern sem kærir ekki Spaugstofuna til lögreglunnar.

Okkur vantar Hildi Eir Bolladóttur.

Getur ekki einhver fiffað það sem fiffa þarf svo hægt sé að kjósa hana biskup samhliða forsetakosningunum í sumar?

Ást og friður … Tommi


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283