Í þættinum Ritstjórarnir í stjórn Sigmundar Ernis Rúnarssonar á Hringbraut mættust þeir Atli Þór Fanndal, blaðamaður hjá Kvennablaðinu, og Sigurjón M. Egilsson, stjórnandi Sprengisands, og ræddu stöðu flokkanna og núverandi pólitískt árferði.
Atli sagði meðal annars að söguleg mistök vinstri stjórnarinnar hefðu verið þau að trúa því aldrei fyllilega að hún væri við völd og því hefði allt verið keyrt áfram af offorsi og að mistök núverandi stjórnar væru aftur á móti þau –að trúa því að völd þeirra væru ekki í hættu. Hann benti líka á að þar sem almenningsumræðan væri afgreidd á ódýran máta af valdhöfum væri eðlilegt að almenningur vildi tengja framhjá fjórflokkunum og leita á ný mið.
Síðan var í þættinum líðan stjórnmálaflokkanna rædd og hver flokkur tekinn fyrir, einn af öðrum.

Sigurjón M Egilsson
Sigurjón M. Egilsson kom inn á að vandi Sjálfstæðisflokksins væri kannski að þeir kynnu ekki að fóta sig í nýjum heimi því umræða þeirra færi fram innan veggja Valhallar á meðan aðrir stjórnmálaflokkar notuðu netið og opna miðlun til að ná fram áhrifum sínum. Atli sagðist halda að vandi sjálfstæðismanna væri kannski sá að kjósendur þeirra væru í erfiðum sporum að þurfa sínkt og heilagt að svara fyrir spillingarmál efstu laga flokksins og svo væri ákall flokksins til ungs fólks misheppnað þar sem erfitt væri að sjá hvaða stefnumál flokksins væru ungu fólki í hag.
Sigurjón taldi að það gæri ekki verið að framsóknarflokknum liði vel með sitt fylgi og greinilega væri að flokkurinn væri að slíta sig frá Sjálfstæðisflokknum og merkja mætti uppgjöf hjá Sigmundi Davíð varðandi það að setja verðtrygginguna í hendur þjóðarinnar. Sigurjón taldi líka til einkennileg baráttumál forsætisráðherra og skort á því að hann veldi sér viðfangsefni sem hæfðu hans starfi og kröftum.

Atli Þór Fanndal
Atli Þór benti á að saga Framsóknarflokksins væri hreint ótrúleg saga um sjálfsbjargarviðleitni og að galdur flokksins lægi í skilningi hans á íslenskum stjórnmálum sem snúist fyrst og fremst um efnahagsmál. Að sem dæmi hefðu framsóknarmenn lagt upp með vafasama múslimaumræðu fyrir síðustu kosningar sem endaði á því að kjósendur gátu valið um mannréttindi múslima annars vegar og ódýrar íbúðir í boði Framsóknarflokksins hins vegar.
Sigurjón sagði að Samfylkingin yrði að koma sér saman um að vinna saman en ekki vinna gegn sitjandi formanni. Hans skoðun væri sú að það væru bara margir innan flokksins vondir við Árna Pál. Atli var ekki sömu skoðunar og sagði að formaður yrði að njóta stuðnings flokkssystkina sinna og að Árni Páll væri augljóslega ekki formaður þessa flokks. Atli sagði líka að það væri ekki auðvelt að sjá af hverju fólk ætti að kjósa þennan flokk, Samfylkingin væri ekki umbótaafl, það væri bara ekkert fútt í flokknum og að stjórnmálamenn Samfylkingarinnar óhreinkuðu sig aldrei fyrir það fólk sem það þó þættist vera að berjast fyrir.
Líðan Vinstri grænna var svo rædd með sitt stöðuga fylgi og óbreytta stöðu í stjórnarandstöðunni og Sigurjón tók undir það að Vinstri græn virtust nægjusöm með sitt 10,3% fylgi. Atli bætti við að þeim væri treystandi og hugmyndafræðilega væri flokkurinn sterkur þótt hann hefði þurft að glíma við erfið mál eins og Icesave og ESB.
„Stóra ráðgátan“ eins og Sigmundur kallaði Bjarta framtíð var síðan rædd og Sigurjón sagði grínagtuglega að flokkurinn minnti sig stundum á kurteisu krakkana í skóla sem sætu alltaf við kennaraborðið en hefðu ekkert verið sérlega skemmtileg svona til lengdar. Atli bætti því við að hann skildi flokkinn illa þrátt fyrir að hafa lagt sig fram um það og flokkurinn hefði greinilega misskilið stemninguna í samfélaginu því flokkurinn væri ekki að fóta sig með sín óskýru markmið og skort á stórum línum í pólitík. Atli klykkti svo út með því að segja að tilgáta Bjartrar framtíðar um að hægt sé að stunda stjórnmál á Íslandi án átaka væri bara hrein og klár vitleysa.

Píratar, Birgitta Jónsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir
Píratar og staða þeirra var að endingu rædd og Sigmundur benti á að velgengni þeirra byggðist að einhverju leyti á því að þau kæmu til dyranna eins og þau væru klædd og væru óhrædd við að afla sér þekkingar og kannast við reynsluleysi sitt. Sigurjón sagði það kost að flokksmenn leyfðu sér að vera ósammála um ýmislegt og ekki lægi fyrir doðrantur sem öllum bæri að fara eftir í einu og öllu. Enn fremur væri kostur að flokkurinn ætli að leyfa stefnumálum að þróast en væri ekki bundin föstum böndum.
Sigmundur spurði Atla hvort hann héldi að fylgi Pírata myndi halda og sagðist Atli halda að fylgið myndi eitthvað dala því það hefði sýnt sig að fólk væri íhaldssamara á kjörstað en í skoðanakönnunum en greinilegt væri að Píratar nytu trausts og almenningur hefði ekki ástæðu til að vantreysta þeim. Atli sagði enn fremur að þörf væri á að Píratar yrðu vel búnir að móta sig og með skýr svör við spurningum kjósenda áður en til kosninga kæmi.
Hér má horfa á þáttinn í heild sinni: