Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ég upplifi sektarkennd yfir eigin lánsemi í lífinu

$
0
0

Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir skrifar frá Nígeríu þar sem hún kennir leiklist. Hún bloggar og skrif hennar má finna hér.

Ég ætlaði að skrifa mjög flotta færslu um Nollywood-kvikmyndaævintýrið mitt síðastliðinn föstudaginn og monta mig af því hvað var gaman. Byrjaði á færslunni í gær en var svo of þreytt til að klára að skrifa.

Málið er að ég fæ mig ekki til að skrifa færsluna núna því ég get ekki hætt að hugsa um litlu stúlkuna í næstnæsta húsi. Hún heitir Sandy.

Sandy er 10 ára. Þegar Sandy var átta ára var komið með hana á vegum umboðsskrifstofu sem sér um þjónustufólk. Ég er að reyna að finna betri leið til að útskýra þetta en get það ekki. Hún var einfaldlega færð viðkomandi fólki sem vissi ekki fyrirfram að um væri að ræða svo unga stúlku. Fólkið ákvað að taka hana að sér. Ef það hefði ekki verið gert hefði hún farið á flakk og enginn vitað hvar hún hefði endað.

Sandy er ekki frá Nígeríu. Hún er frá öðru V-Afríkulandi, viðkomandi sem ég talaði við vissi ekki alveg hvaðan. Ég geri ráð fyrir að hún komi úr erfiðum aðstæðum og sárafátækir foreldrarnir hafi hreinlega selt hana. Síðustu tvö árin hefur hún verið húshjálp. Hún er lítil og brosmild, falleg stúlka. Ég get ekki ímyndað mér hvernig henni líður, að vera ekki með fjölskyldunni sinni. Það er ekkert endilega víst að Sandy muni nokkurn tíma sjá fólkið sitt aftur. Kannski kemst hún einhvern tíma aftur heim, þegar hún er orðin fullorðin, ef hún vill og hefur tök á því.

Þessar aðstæður eru svo gjörsamlega ofar mínum skilningi að ég hreinlega bugast við að hugsa um þær. Í fyrsta skipti síðan ég kom hingað þarf ég að gráta. Ég sé Sandy fyrir mér skottast með hitt og þetta fram og til baka, í snyrtilegum en fábreyttum, ljósbláum sumarkjól. Í vinnunni. Svo ber ég hana saman við börnin sem ég kenni, við börn sem ég þekki, sjálfa mig á hennar aldri og ég bugast. Það er ekkert sanngjarnt við lífið hennar Sandyar. Ekki neitt.

Hérlendis gengur fólk kaupum og sölum, að mörgu leyti. Í Norður-Nígeríu er mikið um að stúlkur séu seldar barnungar í hjónaband. Húshjálp er talin sjálfsögð hjá þeim sem efnaðri eru. Á mínu heimili er húshjálp. Fleiri en ein. Önnur þeirra kann hvorki að skrifa né lesa. Hún gekk ekki í skóla en launin sem hún þénar fara í að styðja yngri bróður til náms. Mér fallast hreinlega hendur við að hugsa um þetta. Það er ekkert sem ég get gert í þessu. Ekkert nema að vera almennileg við húshjálpina. Þessar stúlkur teljast heppnar að vera með þessa vinnu og það er ekki komið illa fram við þær hér á heimilinu.

Um daginn var mikil háreysti fyrir utan húsalengjuna snemma morguns. Ég var í svefnrofunum og missti hálfpartinn af látunum en frétti svo að þarna hefði verið á ferðinni húshjálp og nágrannakona, vinnuveitandinn, í hávaðarifrildi. Húshjálpin sagðist vilja hætta og vildi fá launin sín. Nágrannakonan (ég þekki hana ekki) hrópaði á húshjálpina, lamdi hana og sló með priki og sagðist skyldu rífa hana úr fötunum svo hún stæði nakin eftir. Það er víst töluvert algengt hér, að henda fólki nöktu út og beita það ofbeldi. Á endanum hvarf húshjálpin frá, lamin og launalaus en fékk að halda fötunum.

Fólk sem starfar sem heimilishjálp, karlar og konur, getur ekkert leitað og kvartað yfir misrétti sem það er beitt. Hér er ekkert sem heitir stéttarfélag, lögreglan myndi hlæja og snúa sér undan og umboðsskrifstofan sem kom á samstarfinu tekur ekki á neinum vandamálum. Þiggur bara þóknun frá vinnuveitanda og rær á ný mið með nýjar manneskjur í farteskinu. Hjúin þurfa að ákveða hvort þau geti látið þær aðstæður sem þau eru í yfir sig ganga eða farið úr þeim upp á von eða óvon. Oftast lætur fólkið sig hafa illa meðferð enda í engin betri hús að venda. Sumir eru heppnir og eru á heimili eins og ég bý á, aðrir ekki.

Myndin sem fylgir með er ekki af  Sandy. Þetta er lítil manneskja á svipuðum aldri sem stóð og betlaði við fjölfarna umferðargötu.

Ég upplifi sektarkennd yfir eigin lánsemi í lífinu.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283