Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Látnir fá ekki mar – óvissan um andlát Sigurðar Hólm

$
0
0

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Annþóri Kristjáni Karls­syni og Berki Birg­is­syni lauk sunnudaginn 31. janúar. Þeir eru sakaður um að hafa með alvarlegri líkamsárás valdið dauða Sigurðar Hólm Sigurðssonar, samfanga þeirra á Litla-Hrauni, í maí árið 2012. Sigurður kom í fangelsið um sólarhring fyrir andlát sitt. Í fyrstu var hann í einangrun en var síðar færður á almennan gang. Hann úrskurðaður látinn um tveimur tímum eftir komuna á ganginn. Við komu á Litla-Hraun fékk hann ekki lögbundna læknismeðferð en var ávísað lyfjum til niðurtröppunar í gegnum síma.

Málflutningur sækjanda stendur og fellur með því að sanna megi svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að dánarorsök Sigurðar séu rifur á milta og bláæð sem rekja megi til höggs frá sakborningum. Ekki er einhugur meðal dómkvaddra matsmanna á dánarorsök en við krufningu fundust tveir lítrar af blóði í kviðarholi Sigurðar. Regina Preuss, réttarmeinafræðingur sem annaðist krufninguna, telur nokkuð ljóst að Sigurði hafi blætt út. Undir það tekur Þóra Stephensen, réttarmeinafræðingur og dómkvaddur matsmaður í málinu. Yfirmatsmenn átelja hins vegar vinnubrögð Þóru og Preuss og telja alls ekki víst að dánarorsök sé jafn ljós og þær telja. Yfirmatsmenn hafa bent á að engin ytri né innri ummerki fundust á Sigurði. Vissulega séu þess dæmi að enga áverka sé að finna á ytra byrði en í tilfelli Sigurðar séu innri vefjaskemmdir ekki til staðar heldur. Við krufningu var framkvæmd „lagskipt“ skoðun á húð, húðbeði, fituvef og vöðvakerfi en engin merki sáust um blæðingar.

IMG_20160131_100044

Málflutningur saksóknara

Þrátt fyrir formgalla og erfiða sönnunarbyrði var málflutningur saksóknara nokkuð sannfærandi þótt ekki væri hann gallalaus. Hafa verður í huga að saksóknari þarf að sanna glæpinn en verjendur aðeins að sá skynsamlegum vafa. Sönnunarbyrði sóknar á því að vera umtalsvert hærri. Tveir af þremur dómurunum í málinu eru læknisfræðimenntaðir. Saksóknari virðist ítrekað rugla saman blá- og háræðum í málflutningi sínum. Það veikir hans framsögu nokkuð. Þá hefur ekki tekist að aðgreina verknaðinn milli þeirra Annþórs og Barkar. Sækjandi leggur því áherlsu á að um samverknað sé að ræða og því þurfi ekki að sýna fram á hlut hvors fyrir sig.

Umfjöllun heldur áfram hér fyrir neðan


Málflutningur saksóknara í hnotskurn:

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari og sækjandi málsins, gerði fjögur atriði að kjarna síns málflutnings:

  • Hafið sé yfir skynsamlegan vafa að Annþór og Börkur hafi beitt Sigurð ofbeldi.

Byggt á því að vitni hafi heyrt högg koma úr klefa Sigurðar sem og viðveru Annþórs og Barkar í klefa Sigurðar. Aðeins eitt vitni heyrði slíkt.

  • Sannað sé að Annþór og Börkur hafi átt sökótt við Sigurð.

Þeir hafi viljað innheimta 50 þúsund króna skuld vegna brotinnar hurðar. Við málflutning kom fram að skuldin hefði jafnvel verið 500 þúsund krónur en það byggir á veikari grunni en fyrri upphæðin. Annþór og Börkur könnuðust báðir við skuldina en sögðust hvorugur hafa ætlað honum illt vegna hennar og að Sigurður hefði sagst ætla að borga skuldina.

  • Líkur séu á að samskipti þeirra á milli innan veggja fangelsisins hafi verið fjandsamleg

Byggir á myndbandsupptöku og sálfræðimats þeirra Gísla H. Guðjónssonar, prófessors við King’s College, og Jóns Friðriks Sigurðssonar, prófessors við Háskóla Íslands. Við dóminn sagði Gísli að matið væri ekki byggt á vísindalegum vinnubrögðum eða ákveðnum kenningagrunni heldur áralangri reynslu Gísla og Jóns. David J. Cooke, prófessor í klínískri réttarsálfræði og yfirmatsmaður í málinu, hefur ítrekað tætt matið í sig og sagt það einfaldlega ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar séu til réttarsálfræði. Í fyrsta lagi séu upptökurnar sem stuðst sé við í of litlum gæðum til að hægt sé að meta svipbrigði fanga. Fræðilegar tilvísanir séu engar í niðurstöðum  þeirra og aðferðafræðin sé ótraust. Sálfræðimat þeirra geti ekki talist unnið í samræmi við vísindaleg vinnubrögð. Cooke segir að sálfræðingarnir hafi vikið frá hlutverki sínu sem sérfræðingar og fært sig yfir á svið dómara.

  • Sækjandi heldur því fram að krufning sanni að Sigurður hafi látist af völdum ofbeldis.

Þar gefur saksóknari nokkuð í enda ekki rétt að krufning sanni slíkt. „Samandregin niðurstaða er sú að ekki er um eðlilegan dauðdaga að ræða. Rifan er fyrst og fremst afleiðing bitlauss áverka á kviðarhol; hvorki stórsæjar né vefjafræðilegar niðurstöður benda til innri orska. Engu að síður leiddu hvorki krufning né frekari rannsókn í ljós afdráttarlaus merki þess að um utanaðkomandi áverka eða meiðsl af völdum byltu hafi verið að ræða.“

Saksóknari bað dóminn að skoða þessi fjögur atriði í samhengi enda gæti hvert atriði fyrir sig ekki sannað sekt.


Umfjöllun heldur áfram hér fyrir neðan

Látnir fá ekki mar

Sidsel Rogde, prófessor í réttarmeinafræði við Háskólann í Osló og yfirmatsmaður í málinu, benti réttinum á að látið fólk fengi ekki marbletti enda væri blóðflæði í gegnum háræðar nauðsynlegt til myndunar mars. Það gæti skýrt hvers vegna engin ummerki finnist á líkama Sigurðar – að hann hafi í raun látist vegna hjartastopps áður en endurlífgunartilraunir hófust. Rifan á milta og bláæð hafi orðið til vegna endurlífgunartilrauna sem stóðu yfir í langan tíma. Blóðið í kviðarholi skýrist því af endurlífgunum en sé ekki ástæða andlátsins. Í krufningu kemur fram að Sigurður hafi haft gulleita þurrkbletti á baki og lendarhryggjasúlu. Blettirnir sem þar er lýst eru stundum kallaðir líkblettir. Við aðalmeðferð kom fram að þeir væru vaxkenndir viðkomu og að þeir væru ummerki sem myndist eftir andlát. Rogde benti eins og áður segir á að Sigurður hafi getað látist vegna hjartastopps en ekki vegna rofsins á milta og bláæð. Endurlífgunartilraunir stóðu yfir í a.m.k. 45 mínútur en blæðinguna í kviðarholi töldu Rogde og Johann Berge, yfirmatsmaður, hugsanlega afleiðingu þeirra tilrauna.

Of mikið blóð

Galli á tilgátunni um áverka vegna tilrauna til endurlífgunar er hversu mikið blóð var í kviðarholi Sigurðar. Þær Þóra og Preuss töldu báðar að afar ólíklegt væri að endurlífgunartilraunir hefðu orðið til þess að svo mikið blóð, um tveir lítrar, læki gegnum rof á milta og bláæð. Við eðlilegar aðstæður pumpar hjartað um sex lítrum á blóði á mínútu. Tilgangur endurlífgunartilrauna er að koma á blóðrás en efasemdir komu fram hjá matsmönnum að hjartahnoð eitt og sér gæti útskýrt svo mikið blóð. Þá fundust engir áverkar á lifur Sigurðar eftir hjartahnoð. Algengt er að rispur og skurðir birtist á lifur eftir endurlígfunartilraunir. Lifrin er blóðmikið líffæri og dæmi eru þess að blætt hafi nokkru magni úr lifur vegna þess skaða sem lifrin verður fyrir. Í tilfelli Sigurðar er slíku ekki að skipta. Bæði Rogde og Berge bentu á að mögulegt væri þó að svo mikið blóð hefði farið út um rifu miltans við endurlífgunartilraunir þrátt fyrir að endurlífgunarpumpun ekki fulla pumpun væri að ræða. Rogde benti á dæmi um slíkt sem hún kom þó sjálf ekki nærri. Berge hefur rannsakað 14.000 dauðsföll þar sem rof á milta kemur við sögu. Hann sagði slíkt geta hent þótt vissulega væri um mikið blóð að ræða. Í rannsókn hans kemur fram að aðeins í örfáum tilvikum er milta einn orsakavaldur andláts. Þá taldi hann afar ólíklegt að engin ummerki væri að finna á Sigurði eftir líkamsárás. Vissulega væru þess dæmi að engin ummerki sæjust á ytra byrði húðar en afar ólíklegt yrði að teljast að engar vefjaskemmdir finndust á innra byrði.

Hann taldi einnig ólíklegt að engin ummerki væru annarsstaðar á líkama Sigurðar ef um líkamsárás hefði verið að ræða. Vissulega þekkti hann dæmi þess að engin ummerki væru á húð eftir högg sem leiddi til rofs á milta en þegar um væri að ræða ofbeldi af annara hálfu væri iðulega að finna önnur ummerki um ofbeldið. Í þessu tilviki væri engin ummerki um högg eða ofbeldi. Forsenda þess að slíkt gæti gerst væri að um eitt högg hefði verið að ræða en ekki fleiri sem væri iðulega raunin. Að Sigurður hefði ekki streist á móti né reynt að verjast á nokkurn máta t.d. með því að setja hendur fyrir andlit eða búk og að hann hefði látist samstundis. Þá hefðu sakborningar sýnt af sér næga stillingu til að láta eitt högg duga.

Tímaraminn tæpur

Lykilatriði í að sanna sekt er að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að Sigurði hafi verið veittir áverkar sem drógu hann til dauða. Saksóknari þarf því að sanna að Sigurður hafi ekki látist af hjartastoppi heldur vegna rifu á milta sem leiddi til þess að honum hafi blætt út. Hjarta Sigurðar pumpaði, eins og áður segir, aldrei blóði frá því að fangar og sjúkraflutningamenn komu á staðinn. Að auki kom fram fyrir dómi að hjartastuðtækið fann aldrei nægan straum til að ráðleggja að stuð yrði gefið. Þess í stað var hjartað pumpað með handafli í um 45 mínútur. Þetta leiðir að því líkur að hann hafi í raun verið látinn áður en sjúkraflutningamenn komu. Þess skal þó getið að enginn er látinn fyrr en hann hefur verið lýstur látinn og því er hér átt við að hjartað dældi aldrei blóði af sjálfsdáðum frá því að útkallið hófst. Þetta atriði skapar óvissu um ástæðu andláts. Hins vegar eru fá dæmi þess að viðlíka magn af blóði finnist við innri blæðingu eftir hjartahnoð eitt og sér.

Annþór og Börkur fóru inn í klefa Sigurðar klukkan 18.44, í klefanum var Annþór í rúmar 12 mínútur en Börkur litlu skemur það er 11.38 mínútur. Á þeim tíma ætlar saksóknari þeim að hafa veitt honum eitt högg sem skildi ekki eftir sig ummerki á ytra byrði né vefjaskemmdir en rauf milta. Skömmu síðar eða 19.09 fór Annþór aftur í klefa Sigurðar þar sem hann lá meðvitundarlaus. Fangaverðir komu tveimur mínútum síðar eftir að hann hafði kallað á aðstoð í kallkerfi fangelsisins. Hjartastuðtæki fangelsisins fann aldrei reglulegan straum né mældi pumpu.

Hafi Annþór og Börkur veitt Sigurði það mein sem dró hann til dauða hefði honum því átt að blæða út á tæplega hálfri klukkustund. Deilt er um hvort þetta sé raunin. Preuss sagði við skýrslutöku að hún teldi annað óhugsandi en að honum hefði blætt út á þessum tímaramma. Við dóminn komu þó upp efasemdir frá öðrum matsmönnum. Slík blæðing gæti tekið frá nokkrum mínútum til nokkra klukkustunda. Endurlífgun var hætt klukkan 19.55.

Í krufningu segir: „Ekki er hægt að tímasetja nákvæmlega hvenær meiðslin urðu vegna þess að hraði blóðmissis ræðst mjög af einstaklingsbundnum þáttum. Sennilega er um um það bil 1 – 2 klukkustundir að ræða. Á því tímabili kemur hvaða tími sem er til álita.“

IMG_20160131_100039

Ótrúlegar brotalamir við rannsókn

Við málsmerðina kom endurtekið fram gagnrýni á rannsókn lögreglu. Verjendur sögðu allt í rannsókninni hafa beinst að því að sanna glæp á skjólstæðinga sína í stað þess að leita hins sanna. Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs, gagnrýndi Þóru harkalega fyrir þátt sinn í rannsókn lögreglu. Hólmgeir sagði Þóru hafa farið út fyrir hlutverk sitt sem hlutlauss matsmanns með því að starfa náið með lögreglu við rannsókn málsins. Það sé ekki hlutverk matsmanns. Hólmgeir vitnaði þar til þess að Þóra aðstoðaði lögreglu við högggreiningu og var það gert án vitundar og vitneskju verjenda. Þá kom fram fyrir dómnum að ósamræmi er milli þyngdar tilraunagínu sem notuð var við högggreiningu lögreglu og þyngdar Sigurðar. Við tilraunina léku einnig tveir lögreglumenn fall en hvorugur þeirra var af sömu hæð eða þyngd og Sigurður.

Umfjöllun heldur áfram neðar á síðunni


 

Sjá einnig: 


Umfjöllun heldur áfram neðar á síðunni

Ekki spurt um högg af mannavöldum

Magnús Þór Jónsson, prófessor við verkfræðideild HÍ og höfundur greiningar á höggálagi sem orsakar rof á æð og milta, mætti fyrir dóminn og skýrði aðferðafræði við gerð skýrslunnar. Samkvæmt líkindareikningum höggreiningarinnar telur lögreglan að mannslíkaminn geti ekki lent á neinum hlut við frjálst fall í fangaklefanum sem orsakað getur rifið milta og rof á æðar við milta án þess að valda mari eða áverkum við eða á rifbeinum. „Samkvæmt líkanaútreikningum getur fall á klósettsetu, borð, rúm eða stól ekki valdið þeim áverkum sem komu fram við krufningu á Sigurði.“ Þetta virðist lögregla túlka sem svo að ekki komi annað til greina en að Annþór og Börkur hafi barið Sigurð. Að eitt útiloki annað. Skömmu síðar eru Annþór og Börkur ákærðir. Magnúsi var ætlað að svara þremur spurningum er varða andlát Sigurðar: Hver er mesti höggkraftur sem maður getur orðið fyrir ef hann dettur á borð, stól, gólf eða klósett fangaklefans, Getur höggkrafturinn orsakað rof á bláæð og rifið milta? Hverjar eru líkur á að höggkraftur vegna falls hafi valdið dauða Sigurðar Hólms Sigurðssonar? Magnúsi var því ekki ætlað að reikna út líkurnar á að högg af mannavöldum hefði rofið milta Sigurðar. Á þeim tíma sem hann var kvaddur til var það þó helsta tilgáta lögreglu. Við skýrslutöku staðfesti Magnús að hann hefði ekki verið beðinn um skoða hverskonar högg þyrfti af mannavöldum til að rjúfa milta. Verjendur töldu að hér væri um að ræða enn eitt merki þess að ætlunin hafi alltaf verið að sanna morð á skjólstæðinga sína en ekki að komast að hinu sanna. Þá kom fram að lögreglumenn sem tóku þátt í greiningunni og léku fall voru líkamlega ekki sambærilegir við stærð og þyngd Sigurðar. Brúða sem notuð var til að mæla högg var um leið þyngri en Sigurður sem var 72 kíló en brúðan 80. Greiningin leiddi meðal annars í ljós að hann hefði ekki getað fallið á stól sem var í fangaklefanum hans enda hefði stólinn bognað við fall frá brúðu. Þeirri sömu og var þyngri en hann.

Hljóðgreining á forsendum lögreglu

Í skýrslutöku sem fór fram 3. júlí 2012 sagði vitni að gefnu loforði um vitnaleynd að hann hefði heyrt „orgin og vælin“ í Sigurði úr sínum klefa. Vitnið er eitt um að hafa heyrt barsmíðar. „… Í kjölfarið heyrði ég læti inni á gangi og heyrði mann öskra og áttaði mig fljótt á því að þettta var Siggi og þessi læti stóðu yfir í nokkrar mínútur“ sagði vitnið. „…Ég vissi nákvæmlega hvað var í gangi, það er verið að berja úr honum líftóruna.“ Lögregla lét í kjölfarið gera hljóðgreiningarskýrslu til að greina hvort mögulegt væri að fanginn hefði heyrt barsmíðar úr klefa Sigurðar inn í sinn klefa. Við skýrslutöku sagði Steindór Guðmundsson, hljóðverkfræðingur og höfundur matsins, að lögregla hefði ákveðið forsendur hljóðmælingarinnar. „Það flækir málið að í eldhúsinu er talið að sjónvarp hafi verið í gangi, lágt stillt, þar sem enginn var að horfa á það, og auk þess voru bakgrunnshljóð vegna umgangs nokkurra manna í eldhúsinu á meðan umræddur atburður er talinn hafa átt sér stað,“ segir í hljóðgreiningunni. Í hljóðmatinu kemur fram að „þrjú stig eru í umræddu uppgjöri“ enda sé fyrst talað í hálfum hljóðum, síðan hækki menn róminn og loks sé talað hátt auk stuna og högghljóða. Í efsta stigi uppgjörs er hljóðstyrkur í 80 db. Í niðurstöðukafla skýrslunnar má sjá að „ líklegt [sé] að háværasti hluti uppgjörsins hafi heyrst í eldhúsinu, bæði hvað var um að vera og sennilega orðaskil að verulegu leyti.“ Þetta er í andstöðu við kafla þrjú í skýrslunni þar sem segir: „Eins og sjá má á mynd 3c er hávært uppgjör í klefa allsstaðar lægra en bakgrunnshljóðið. Bakgrunnshljóðið er ekki stöðugt, og ekki heldur hljóðið úr klefanum, svo eitthvað gæti samt heyrst, en ólíklegt er að orðaskil heyrist.“ Við skýrslutöku kom fram að lögregla hefði sjálf ákveðið hvað teldist tal í lágum róm, hærri rómur og hátt tal. Lögreglumenn sáu um að leika slík hljóð án nákvæmra fyrirmæla frá skýrsluhöfundi.

Langt og flókið mál

Annþór og Börkur hafa haft stöðu grunaðra í að verða fjögur ár. Sigurður lést 17 mái 2012. Ákæra var gefin út á hendur Annþóri og Berki í lok maí árið 2013. Sigurður var undir miklum áhrifum vímuefna við komuna á Litla-Hraun og var því ákveðið að hafa hann undir eftirliti fangavarða í einangrun Hann var ekki skoðaður af lækni við komuna í fangelsið líkt og lög um fullnustu refsinga gera ráð fyrir. Þess í stað var hringt í lækni sem ávísaði svokölluðum R-skammti í gegnum síma.

R-skammtur er það sem fangaverðir kalla rónalyf. Formlega er enginn staðlaður lyfjaskammtur er til með þessu heiti. Við aðalmálsmeðferð kom þó fram að á Litla Hrauni er slíkur skammtur til og staðlaður. Læknisfræðileg rök fyrir því virðast af afar skornum skammtil Þess má geta að forstjóri Fangelsismálastofnunar nefndi R-skammtinn rónalyf á opnum fundi um fangelsismál 22. apríl síðastliðinn, þetta virðist því vera slangur innan stofnunarinnar. Læknar sem Kvennablaðið hefur rætt við hafa allir lýst andúð á hugtakinu og ekki hefur tekist að fá skýringu á því hvers vegna slíkur skammtur var gefinn í gegnum síma eða hvað fellst í slíkum skammti. Í vitnaskýrslu fangavarðar komu fram upplýsingar um hvað skammturinn felur í sér.

Niðurstöðu dómstólsins er að vænta innan fárra vika.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283