Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ég hélt ég væri að kaupa ost …

$
0
0

Ahhhh… í glampandi sól á föstudegi skundaði ég í gegnum matvöruverslun á mettíma. Við fjölskyldan vorum á leið í sumarhús og ég ætlaði að slá í gegn með mexíkóskum réttum á heimsmælikvarða. Ég var að flýta mér og greip því rifinn ost sem ég hef ekki keypt áður en venjulega les ég utan á allt sem ég kaupi. Það er að segja ef ég þekki ekki vöruna.

Ég hef lært það í gegnum tíðina að allskonar misgott hráefni er falið í fögrum umbúðum. Það er í raun mjög skrítið að ég hafi ekki lesið utan á þennan tiltekna ost þar sem ég hafði átt samtal við góða konu fyrr um daginn um mat. Eða matvöru og iðnaðarvöru eins og hún kallaði það.

Matvaran er oft á tíðum orðin svo mikið unnin að það er nánast ekkert eftir í henni sem við myndum flokka sem matvæli.

Efnahvörf og breytur og dulinn viðbjóður hafa fyrir löngu gerilsneytt alla næringu og gleði úr vörunum. Við vorum sammála um þetta. Jájá og já. Og út rauk ég að drífa fjölskylduna upp í sveit í mexíkóskt yfirlæti í snjóbyl.

Kalli á hækjum og ég að keyra. Ég er góður bílstjóri. Mjög vön að keyra úti á landi. Festi mig. En gat losað. Brjáluð hálka og keyrt á 40 yfir heiðina. Festi mig aftur. Fór út að kíkja á aðstæður. Bleikar pollabuxur fuku út. Náði þeim. Ennþá föst. Íslenska hetjan kom í lopapeysu á traktor og losaði okkur og allt mexíkóska góssið og loks komst fjölskyldan alla leið. Ísköld en hress.

Ég hamingjusöm fyrir áfallið í eldhúsinu

Ég hamingjusöm fyrir áfallið í eldhúsinu

Ég fékk kitl í magann við tilhugsunina um heita pottinn, ískaldan Corona, mexíkóveisluna og jólabækurnar sem ég hef lítið sem ekkert komist áfram með. Bara lesið titil og höfund.

Ég hef sagt ykkur að ég er matsár. Mjög matsár. Vondur matur er ekki valmöguleiki í mínu lífi. Ég hafði verslað inn beint frá bónda fínerí, lífrænt krydd og allskonar dásamlegheit. Eftir tveggja tíma tilþrif í eldhúsinu var allt tilbúið. Ilmurinn og útlitið upp á tíu. Samt sem áður bragðaðist maturinn eins og plöstuð kæfa. Fjölskyldumeðlimir brosti meðvirkir og sögðu matinn vera hinn besta. Það var lygi en ég kunni ekki við að saka þau um siðferðislega misbresti. Ég reyndi að halda geðvonskunni í skefjum og braut heilann yfir uppvaskinu um hvað hefði eiginlega farið úrskeiðis.

Ég opnaði ruslatunnuna til að skafa af einum disknum. Þar blasti við mér helvítis svikarinn. Þessi ostur sem ég keypti var ekkert ostur. Á pakkningunni stóð: Pizza toppur. Framleiðandinn var í stórum stöfum: OSTAHÚSIÐ.

Þessi platostur bragðaðist eins og plastfita enda var ekki einu sinni mjólk í honum en hefðbundinn ostur er unninn úr mjólk og ostahleypi. Þessi gaur var unninn úr mjólkurpróteini, jurtafitu, mjólkurfitu, salti og sítrónusýru.
Sökudólgurinn var fundinn.

Það var ég sjálf að hafa treyst pakkningum sem litu út eins og ostur. Þetta er einmitt heila málið.

Það þarf að lesa utan á allt! Alltaf! Sykur hefur til dæmis tugi gælunafna og er gjarnan talað um „raw cane juice“ og þá oft í miklum mæli í heilsuvörum. Ég leitast við að borða sem „hreinasta“ afurð, það er að segja ekki mikið unnar vörur til að enda ekki með iðnaðarvöru eins og þetta ostaskríp í kroppnum mínum.

En hvernig veit ég hvort það er mikið eða lítið af ógeði í matnum mínum? Það er oft og tíðum erfitt og framleiðendur eyða margir hverjir miklum tíma og peningum í að dulbúa viðbjóðinn.

Mér hefur gefist vel að skoða röðina á innihaldslýsingunni. Reglan er að það sem er talið upp fyrst er það innihaldsefni sem mest er af og þannig koll af kolli. Mörgum bregður oft við að sjá að í t.d. bláberjajógúrti gæti sykur verið í sæti númer tvö og bláber í næstsíðasta sæti. Það er að segja sykur er það innihaldsefni sem næstmesta magn er af en næstminnsta magnið er af bláberjum. Réttnefni væri því sykurjógúrt en ekki bláberjajógúrt.

Ég mun lesa mér betur til næst. Ég neita að borða iðnaðarvörur í eigin eldhúsi þar sem ég á að hafa allar forsendur til að velja rétt. Og þið hjá Ostahúsinu mættuð alveg merkja ostinn JURTAost stærri stöfum. Eða bara hætta að framleiða þetta rusl.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283