Þórunn Ólafsdóttir skrifaði á Facebook og við deilum hér með leyfi höfundar:
„Jújú, þetta er fínt hjá þeim. Hið besta mál. En ég er bara kominn með nóg af svona. Ég vona að þetta stríð fari að taka enda og við getum farið aftur heim og lifað í friði. Ekki síst í friði fyrir því að þurfa endalaust að öðlast virðingu þeirra sem miskunna sig yfir okkur.“
Þetta hafði sýrlenskur flóttamaður um heimildamynd um komu flóttafólks til landsins að segja. Hann hafði ekkert út á myndina eða móttökurnar að setja – þvert á móti. En ég hef fullan skilning á því sem býr að baki þessum orðum og mig langar að deila með ykkur nokkrum vangaveltum þeim tengdum.
Hafið þið einhvern tíma velt því fyrir ykkur hvernig það er að þurfa sífellt að réttlæta mennsku sína til þess eins að eiga tilverurétt? Að þurfa að bera allt sitt á torg og vera hundeltur á erfiðustu stundum lífs síns, af fólki með sjónvarpsupptökuvélar, myndavélar og míkrófóna – til þess eins að hinir í heiminum sannfærist um að þú eigir í alvörunni skilið að lifa af? Að þurfa sífellt að þakka fyrir og sýna fram á að það hafi verið réttlætanlegt að bjarga einmitt þér?
Auðvitað er megnið af þessum áhuga tilkominn af nágungakærleik og hreinni gæsku. Lönguninni til að umvefja fólk hlýju og öryggi og reyna að skilja aðstæður þeirra.
Áhugi á að kynnast fólki sem við heyrum um daglega og höfum mörg hver lagt ýmislegt á okkur til að hjálpa er eðlilegur og fallegur. Hann endurspeglar líka þá staðreynd að þau eru tenging okkar við aðstæður sem eru svo óraunverulegar, að erfitt er að trúa að fólk sem býr í nágrenninu hafi í alvörunni upplifað þær. Sé til frásagnar.
En sýnum aðgát og nærgætni. Höfum það hugfast að þau skulda okkur ekki neitt. Við eigum ekki heimtingu á að hnýsast inn í einkalíf þeirra því örlög þeirra urðu að leita skjóls í hjá okkur.
Það er eflaust auðvelt að upplifa sig annars flokks og einskis virði ef heil þjóð hefur leyfi til að gægjast inn í einkalíf þitt hvar og hvenær sem er. Ekki vegna þess að þú valdir að feta braut sem leiddi þig í sviðsljósið – heldur vegna þess að þú áttir ekki annarra kosta völ.
Ég vona bara að okkur beri gæfa til að vera þolinmóð og skilningsrík. Að við setjum okkar eigin þörf fyrir frekari upplýsingar svolítið til hliðar og gefum fólki andrými. Við megum að sjálfsögðu vona að það sé vilji þeirra að kynnast okkur betur, því ég veit fyrir víst að mörg ef ekki flest okkar vilja kynnast þeim. En munum bara alltaf að í þessum aðstæðum erum við erum í valdastöðu.