Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Morfís og hið eilífa þrætuepli – Hin hliðin

$
0
0

Ég keppti í Morfís fyrir hönd Fjölbrautaskólans í Garðabæ árin 2006-2010. Þetta voru mjög lærdómsrík ár og í dag myndi ég segja að ég hafi lært mun meira sem nýtist mér í lífi og starfi þar en nokkurn tímann af þeim kennslustundum sem ég sótti við skólann. Reynsla mín var þó oft ekki ósvipuð reynslu þeirra kvenna sem undanfarið hafa komið fram og sagt sögur sínar af Morfís.

Ég var ítrekað niðurlægð í þeim aðstæðum sem keppnin bauð upp á. Ég fann oft fyrir kvenfyrirlitningu og var lítillækkuð á marga vegu. Ég var sökuð um að hafa átt vingott við dómara oftar en einu sinni í kjölfar sigurs míns liðs á öðrum liðum. Keppendur í einum skóla, sem tapaði eitt sinn fyrir liði mínu, sömdu í tilefni þess níðsöng um mig og aðra liðsmenn sem var svo dreift um internetið og gerðu síðar, að mér skilst, stólpagrín að mér og frammistöðu minni í árshátíðarmyndbandi skólans. Aðstoðarþjálfari reyndi einu sinni að fá mig til að vera með kynferðislegar aðdróttanir í ræðu minni vegna þess að karlkyns dómararnir myndu hafa svo gaman af því og þegar ég sagðist frekar vilja vera málefnaleg kallaði hann mig leiðinlega tepru. Ég var kölluð feit af andstæðingi uppi á sviði fyrir framan 300 manns. Ég las mörg hundruð viðurstyggileg ummæli um mig og ræðuflutningshæfileika mína á netinu. Ég upplifði stundum að mitt framlag væri ekki jafn mikils virði og karlkyns liðsfélaga minna og fékk ósjaldan að finna fyrir því að ég var auðveldasta skotmarkið í liði mínu vegna kyns míns. Á þessum stundum leið mér vægast sagt ömurlega og íhugaði margoft að draga mig alfarið út úr þessu batteríi. Já, þetta var oft mjög glatað. En að því sögðu langar mig aðeins að rifja upp góðu stundirnar ef ég má.

Ég hugsa oft með mikilli gleði til þeirra stunda sem dómur var kveðinn upp í keppnum og hann var mér og liði mínu í hag. Ég endurspila fagnaðarlætin og gleðina iðulega í hausnum á mér þegar ég hugsa til menntaskólaáranna. Ég eignaðist ógrynni af dásamlega skemmtilegum og bráðgáfuðum vinum sem margir hverjir eru ennþá góðir vinir mínír í dag. Ég fékk að vinna undir handleiðslu margra frábærra þjálfara og bý enn þá að öllu því sem ég lærði af þeim, liðsfélögum mínum og andstæðingum.

Ég lærði gagnrýna hugsun, muninn á réttu og röngu og að láta mér annt um alls kyns málstaði, sem allt stuðlaði að því að gera mig að betri og greindari einstaklingi. Ég lærði að vinna í hóp, að virða skoðanir annarra þó ég væri ósammála þeim og að kynna mér allar hliðar málsins áður en ég myndaði mér skoðun, sem gerði mig að betri félagsveru. Ég lærði að skrifa góða texta á fallegri íslensku og hef getað unnið sem blaðamaður, textahöfundur og prófarkalesari í kjölfar þess. Ég lærði að standa uppi á sviði og koma fram, sem er mér ómetanlegt í námi mínu í sviðslistum, sem og alls staðar annars staðar. Ég lærði æðruleysi gagnvart því sem ég get ekki breytt -og að tapa með sæmd. Þess að auki get ég alltaf hugsað hlýlega til yngri útgáfunnar af sjálfri mér sem neitaði að láta gera sig að fórnarlambi, stóð með sjálfri sér þegar ungur karlmaður reyndi að stjórna því hvað hún segði í ræðunni sinni og svaraði drengnum sem kallaði hana feita fullum hálsi, svo vel að áhorfendur í báðum liðum stóðu upp og klöppuðu.

Mig langaði að segja frá reynslu minni vegna þess að nú, eins og svo oft áður þegar Morfísviðureignir hafa farið miður af hinum ýmsu ástæðum, koma upp háværar raddir sem vilja meina að keppnin sé í eðli sínu neikvæð, stuðli að leiðinlegri umræðuhefð og hafi aðeins slæm áhrif á þá sem að henni koma; það ætti hreinlega að leggja hana niður. En það er að mörgu leyti vegna þess að góðu sögurnar og reynslurnar rata sjaldnast í fjölmiðla.

Af þeim mörg hundruð Morfísviðureignum sem hafa farið fram hafa nokkrar þeirra leitt af sér skandala þar sem illa hefur verið komið fram við fólk, eins og gerist stundum þegar ómótaðir einstaklingar fá að koma upp í ræðupúlt og tala frammi fyrir stórum hópi fólks. Ég er ekki að segja að það sé í lagi, en það eru heldur engin rök fyrir því að eyða Morfís út af kortinu. Ekki frekar en það eru rök fyrir því að leggja niður menntaskóla, að nemendur þar skuli stundum koma illa fram hver við annan. Með sömu rökum gætum við líka lagt niður Alþingi með det samme.

Morfís hefur sínar góðu og slæmu hliðar eins og lífið sjálft en þegar ég horfi yfir þennan farna veg eru það góðu hlutirnir sem standa upp úr, það sem ég lærði af keppninni og vinirnir sem ég eignaðist. Það sem einhver sautján ára óharðnaður einstaklingur sagði við mig í hita leiksins þegar hann var rökþrota og undir gífurlegri pressu er ekki eitthvað sem situr í mér eða það sem ég tók með mér út í lífið frá þeirri keppni. Þrátt fyrir þessi atvik fór meirihluti keppnanna sem ég keppti vel fram og flestir andstæðingar sýndu mér ekkert annað en vinsemd og virðingu.

Svo má ekki gleyma því að Morfís, að undanskildu hinu ömurlega atviki sem átti sér stað í kringum viðureign Menntaskólans á Ísafirði og Menntaskólans á Akureyri, er búið að vera á mjög góðri leið undanfarin ár. Þátttaka kvenna hefur aukist til muna, svona atvikum hefur fækkað og rökræðan fer batnandi. Ætli það sé ekki vegna þess að samfélagið hefur að þessu leytinu til farið mikið batnandi, þó ekki sé allt vatn runnið til sjávar enn.

Ég harma það svo sannarlega að ég og margar kynsystra minna höfum þurft að líða fyrir kyn okkar í Morfís en það er ekki keppnin sem er rót vandans. Fífl í menntaskóla eru ekki fífl vegna Morfís og stjórnmálamenn sem haga sér og rökræða eins og fífl eru svo sannarlega ekki fífl vegna Morfís. Fífl eru fífl – en þau geta lært helling af því að taka þátt í Morfís, verða jafnvel aðeins minni fífl fyrir vikið. Morfís er á endanum lítil keppni fyrir lítið fólk sem hefur alist upp í litlu samfélagi með mörg vandamál og eitt af þessum vandamálum er kvenfyrirlitning og kynbundið ofbeldi. Morfís endurspeglar oft á tíðum þetta litla samfélag og það sem er að því. Er þá spegillinn vandamálið? Eða eigum við kannski frekar að horfa á vandamálið sem hann sýnir okkur?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283