Englandsdrottning gengur fram á bókabíl á lóðinni hjá sér, og tekur fyrir kurteisissakir bók að láni. Áður en langt um líður er hún orðin ástríðufullur lesandi, nokkuð sem ritari hennar telur sýna vissan heldrimannahroka og veldur hirðþjónum hennar gífurlegri gremju.Þegar drottningin fer síðan að koma þegnum sínum í opna skjöldu með því að spyrja þá hvað þeir séu að lesa, tekur steininn úr og brátt gerast ófyrirsjáanleg atvik.
Enginn venjulegur lesandi er fyrsta bókin eftir Alan Bennett sem kemur út á íslensku. Þýðandi er Þórdís Bachmann.
Í Kiljunni hjá Agli Helgasyni var fjallað um bókina þann 17. febrúar og fóru þær Kolbrún Bergþórsdóttir og Sunna Dís Másdóttir lofsamlegum orðum um bókina. Það er Lára Hanna Einarsdóttir sem tók saman.
Hér er kafli úr bókinni:
Í vaktafríi bera Piers, Tristram, Giles og Elspeth, öll trúfastir þjónar drottningar, saman bækur sínar: ‘Hvað eruð þér að lesa?’ Svei mér þá, hvers konar spurning er það eiginlega? Flestir eru ekki að lesa neitt, greyin. En ef þeir segja það, fer hennar hátign að róta í veskinu, veiðir upp eintak sem hún var að enda við að lesa og gefur þeim.’
‘Sem þeir selja síðan umsvifalaust á eBay.’
‘Nema hvað? Hafið þið verið viðstödd opinbera heimsókn nýlega?’ skaut ein hirðmeyjan inn. ‘Þetta er farið að spyrjast út. Hér áður fyrr átti blessað fólkið til að koma með gamla páskalilju eða visinn vorrósavönd, sem hennar hátign lét síðan ganga til okkar fyrir aftan, en nú kemur það með bækur sem það er að lesa, eða, ímyndið ykkur bara, skrifa sjálft! Sé maður svo óheppinn að vera viðstaddur, þá liggur við að maður þurfi trillu. Ég hefði nú bara fengið mér vinnu í bókabúð, ef mig hefði langað til að dragnast um með bækur. Ég er hrædd um að hennar hátign sé farin að valda ansi miklu umstangi.’
Þótt hirðþjónarnir væru ósáttir við að þurfa að breyta út af venjunni, gerðu þeir hennar hátign það til geðs að breyta nauðugir viljugir um stefnu í ljósi dálætis drottningar. Í kynningarupphitun fóru þeir að nefna, að þótt hennar hátign gæti átt það til, rétt eins og áður fyrr, að spyrja hvort sá sem verið var að kynna væri langt að kominn og með hvaða farartæki, væri hún þessa dagana miklu líklegri til að spyrja að því hvað viðkomandi væri að lesa.
Við að heyra þetta litu flestir tómlega á þá (stöku sinnum skelfingu lostnir) en hirðþjónirnir létu sér hvergi bregða og komu með tillögur. Þótt þetta þýddi að drottningin fengi alranga hugmynd um vinsældir Andys McNab og heyrði af allt að því algildri aðdáun á Joönnu Trollope, þá kom það ekki að sök; að minnsta kosti var komist hjá vandræðagangi. Um leið og búið var að sjá fólki fyrir svörum, voru áheyrnirnar aftur komnar á rétt ról og lauk á slaginu eins og áður. Seinkanir urðu örsjaldan. Þegar einn þegnanna viðurkenndi að hann hefði dálæti á Virginiu Woolf eða Dickens, vöktu báðir höfundar fjörugar (og langar) umræður. Margur hver vonaðist eftir því að ná svipuðum samhljómi með því að segjast vera að lesa Harry Potter, en við því sagði drottningin (sem var ekkert fyrir fantasíur) ævinlega stuttaralega, ‘Já. Vér erum að bíða með hann þar til harðnar á dalnum’ og dreif sig áfram.
Þar eð sir Kevin hitti drottninguna svo að segja daglega, var hann í aðstöðu til að nöldra yfir því sem var nú nánast orðin þráhyggja, auk þess að hugsa upp aðra nálgun. ‘Ég var að velta því fyrir mér, yðar hátign, hvort við gætum ekki sett lestur yðar í farveg?’ Hér áður fyrr hefði drottningin leitt þetta orðalag hjá sér, en ein afleiðing lestursins var sú að draga úr umburðarlyndi hennar gagnvart skollaþýsku (sem hafði aldrei verið mikið).
‘Í farveg? Hvað þýðir það eiginlega?’
‘Ég er nú bara að hugsa upphátt, yðar hátign, en það væri gott að geta sent út fréttatilkynningu þar sem segði að yðar hátign væri að lesa sígild verk annarra þjóða, fyrir utan enskar bókmenntir.’
‘Hvaða sígild verk annarra þjóða höfðuð þér í huga, sir Kevin? Kama Sutra?’
Sir Kevin andvarpaði.
‘Ég er að lesa Vikram Seth eins og er. Myndi hann duga?’
Konungsritarinn hafði aldrei heyrt á hann minnst, en fannst nafnið hljóma rétt.
‘Salman Rushdie?’
‘Nei, ætli það, yðar hátign.’
‘Ég sé ekki þörfina fyrir fréttatilkynningu, ‘ sagði drottningin. ‘Hví ætti almenningur að hafa áhuga á því hvað vér lesum? Drottningin les. Hann þarf ekki að vita meira. Ég ímynda mér að viðbrögðin verði: ,,Nú, já?“
‘Lestur beinist inn á við. Þar með er maður ekki til taks. Manni liði betur,’ sagði Sir Kevin ‘ef iðjan væri ekki svona … sjálfselsk.’
‘Sjálfselsk?’
‘Ég ætti kannski að nota orðið sjálfhverf.’
‘Kannski ættuð þér það.’
Sir Kevin göslaðist áfram. ‘Segjum nú að hægt væri að virkja lestur yðar í þágu stærra málefnis – til dæmis læsis þjóðarinnar í heild, bættan lestrarstaðal unga fólksins …’
‘Maður les ánægjunnar vegna,’ sagði drottningin. ‘Það er ekki opinber skylda.’
‘Hugsanlega,’ sagði sir Kevin, ‘ætti það að vera það.’
‘Hvílík ósvífni,’ sagði hertoginn, þegar hún sagði honum þetta um kvöldið.