Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ekki gefast upp – Hættu að vera sterk

$
0
0

Þann 19. september síðastliðinn fékk ég það skelfilegasta símtal sem ég hef fengið en það var pabbi að tilkynna mér að litli bróðir minn væri látinn. Mér fannst heimurinn hrynja yfir mig og ég hnipraði mig saman í stiganum heima hjá vini mínum og grét svo mikið að ég hélt ég myndi aldrei ná andanum aftur.

Kærastinn minn kom mér einhvernveginn heim, ég er ekki viss í dag hvernig en dagarnir á eftir liðu í þoku. Þetta gat bara ekki verið rétt, það hlaut að hafa orðið ruglingur, bróðir minn gat ekki verið dáinn, hann var svo ungur.

Ég veit ekki hvernig ég hefði farið að næstu mánuði ef ég hefði ekki haft svona mikið af góðu fólki í kringum mig, ég verð þeim ævinlega þakklát. Þið vitið hver þið eruð. Takk.

Síðustu mánuði hef ég áttað mig á þeirri staðreynd að ég er ekki eins sterk og ég taldi mig vera áður. Ég gerði þó þau mistök að reyna þrátt fyrir það að vera sterk á yfirborðinu og auðvitað hefur það ekki skilað sér eins og ég vonaði.

25 janúar

Ég var viss um að ef ég myndi láta alla daga eins og ég væri sterk þá á endanum yrði ég sterk, algjörlega af sjálfsdáðum. Þegar ég fékk spurninguna um það hvernig ég hefði það þá var alltaf svarið að ég hefði það bara fínt. Ég veit ekki hvern ég var að reyna blekkja, einstaklinginn sem spurði eða mig sjálfa.

Fyrir jól stóð ég frammi fyrir því að velja á milli þess að halda geðheilsunni eða halda áfram í skólanum og ég valdi að hætta í skólanum þar sem ég mat það að með tímanum myndi ég missa töluvert meira ef ég fórnaði geðheilsunni fyrir menntun. Lengi sagði ég ekki fjölskyldunni að ég hefði hætt í skólanum þar sem ég skammaðist mín fyrir það enda átti ég að vera „Sterka Linda“. Ég er nýlega farin að ræða við fólkið í kringum mig um þá staðreynd að ég sé hætt í skólanum og hafi það kannski ekki eins fínt og ég hef reynt að sannfæra þau um.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara tala við fólk og hugsanlega reyna að leita mér einhverskonar aðstoðar er að ég vaknaði upp við þann vonda draum fyrir stuttu að „Sterka Linda“ væri sjálf við það að brotna og hefði því augljóslega ekki gert mig sterka á undraverðan hátt.

16 janúar

Ég hef alla tíð gert þau óraunhæfu kröfu á sjálfa mig að vera fullkomin þrátt fyrir að vita fullvel að enginn er það. Þessi krafa á sjálfa mig gerði það að verkum að í september þegar áfallið kom þá ákvað ég að ég yrði að vera sterk, ég væri búin að vinna svo vel í sjálfri mér að ég hlyti að geta tekist á við þetta á hörkunni. Í janúar rofaði þó aðeins til í þokunni og ég áttaði mig á því að enginn gæti unnið á sorg með þessum hætti, það væri augljóst að ég þyrfti að fara að gera eitthvað í mínum málum. Ég byrjaði á því að hafa samband við lækninn minn fyrir sunnan og bað hann um að hitta mig næst þegar ég ætti leið suður, þangað til ætla ég að reyna að vera duglegri að tala við fólkið í kringum mig í stað þess að byrgja sorgina inni þar sem hún fær að grassera og gerjast.

Ég reyni nú alla daga að finna eitthvað fallegt í lífinu, eitthvað sem ég get glaðst yfir ásamt því að vinna hægt og rólega í því að koma mér í einhverskonar rútínu aftur.

Það hjálpaði mér ótrúlega mikið að um áramótin þurftum við að flytja og duttum niður á húsnæði úti í sveit. Ég finn það strax að það verður auðveldara að koma kollinum á mér á rétta braut á ný fjarri utanaðkomandi áreitis ásamt því sem að náttúran hérna í kring hjálpar mér við að finna litlu og einföldu hlutina sem gera lífið svo fallegt. Ég komst til dæmis að því að ég hlyti að hafa fallegasta útsýnið á landinu út um baðherbergisgluggan hjá mér. Til að minna mig á það ásamt því að koma inn einhverskonar rútínu þá er ég að reyna taka mynd út um þann glugga á hverjum degi í heilt ár. Ef mér tekst það þá ætla ég að gefa mér klapp á öxlina fyrir að hafa haldið einhverri rútínu.

18. janúar

Að skrifa þessa grein er hluti af því að vinna í sjálfri mér. Að skrifa er eitthvað sem ég virkilega nýt að gera undir venjulegum kringumstæðum en síðustu mánuði hef ég ekki skrifað af neinu viti, ég hef verið að drukkna í sorg og sú orka sem ég hef átt til hefur farið í það að reyna sannfæra alla í kringum mig um að ég sé sterk og spjari mig vel. Þessi grein verður vonandi til þess að gefa sjálfri mér spark i rassinn.

Ef ekki nokkur maður hefur gagn af því að lesa þetta – þá hefur greinin engu að síður nú þegar gert gagn fyrir mig. Ég afrekaði að skrifa hana þrátt fyrir að hafa enga trú á því að ég gæti það.

Hvað sem verður þá held ég áfram því bróðir minn hefði viljað það.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283