“Fyrirtækjasamsteypur fremja iðulega glæpi sem allt venjulegt fólk yrði fangelsað fyrir. Glæpir stórfyrirtækja eyðileggja umhverfið, fjármálakerfið og þjóðfélagið – en komast upp með að greiða aðeins sektir fyrir. Þær sektir hafa lítil sem engin áhrif á stöðu fyrirtækjanna þar sem gjarnan er gert ráð fyrir slíkum skaða í fjárhagsáætlunum hvort sem er. Þetta er bara sá kostnaður sem fylgir því að reka stórgróðafyrirtæki.“
Textinn hér að ofan, lauslega þýddur, er kynning á verkefninu og bókinni CAPTURED sem ritstýrt er af þeim Jeff Greenspan og og Andrew Tider.
Fólk í fangelsum teiknar fólkið sem ætti að vera þar
Bókin CAPTURED varpar ljósi á þá glæpi sem er stundaðir undir merkjum viðskipta. Bókina prýða myndir af forstjórum fyrirtækja settar fram í ímynduðum heimi – Hvað ef þetta fólk væri raunverulega gert persónulega ábyrgt fyrir gerðum sínum og fyrirtækja sinna? Listamennirnir eru fangar sem afplána fangelsisdóma í bandarískum fangelsum. Ágóði bókarinnar rennur í kosningasjóð Bernie Sanders. Það er prentsmiðjan Oddi sem prentar bókina.
Um verkefnið segir ennfremur:
„Forstjórarnir sem eru viðfangsefni bókarinnar voru valdir fyrir það að stýra þeim fyrirtækjum sem framið hafa verstu glæpi gegn umhverfinu, fjármálakerfinu og samfélaginu og um hvað lengstan tíma. Allir þeir forstjórar sem teiknaðir voru gengdu forstjóraembættum meðan á verkinu stóð þótt einhverjir hafi nú skipt um starfsvettvang. Fangarnir voru ekki einungis valdir vegna hæfileika sinna heldur einnig eftir þeim glæpum sem þeir sitja inni fyrir og líkinda við glæpi þá er fyrirtækin fremja í nafni viðskipta.“
Sjáum dæmi úr bókinni:
Stjórnarformaður Nestlé Group PETER BRABECK-LETMATHE hér teiknaður af CHARLES LISTO VERA (Fangamerki #AI-6401)
Listamaðurinn og fanginn CHARLES LISTO VERA situr inni fyrir tilraun til manndráps.
Stjórnarformaður Nestlé Group PETER BRABECK-LETMATHE stýrir fyrirtæki sem hefur stundað eftirfarandi:
-
Barnaþrælkun
Á kakóökrum fyrirtækisins unnu börn á aldrinum 12 -14 ára og stundum yngri erfiðisvinnu í 80 -100 stundir á viku fyrir engin laun, litla fæðu og uppskáru barsmíðar.
-
Orsakað ungbarnadauða
Nestlé stundaði grimmar og svikular markaðsherferðir til að selja barnamat sem stóðst ekki alþjóðlegar kröfur og leiddi til dauða og þjáninga ungabarna víða um veröld.
-
Þjófnaður og einkavæðing vatnsbóla
Nestlé Group hefur tekið yfir vatnsból þróunarlanda til að selja flöskuvatn og þar með neytt þjóðirnar til að kaupa sitt eigið vatn af Nestlé Group. Í Kalíforníu þar sem vatnsskortur hefur aldrei verið meiri stundar Nestlé Group ólöglega vatnsupptöku og græðir á því að selja fólki drykkjarvatn.