Kristjana Sveinsdóttir skrifar:
Af lúxusvandamálavangaveltum einstæðra foreldra
Langþráð vorhlé framhaldsskólakennarans er loksins skollið á eftir hressilega törn einstæðu móðurinnar sem tók að sér aðeins meiri vinnu en henni var hollt þetta árið. Planið fyrir vorhléið var því öðru fremur: svefn, vinna upp óyfirfarna verkefnabunka og meiri svefn.
Þar sem þreytan var farin að segja verulega til sín var tilhlökkunin eftir langþráðri hvíld orðin mjög mikil. Á föstudeginum skyldi loksins verða heilagur hvíldardagur og planið að dóla á náttfötunum a.m.k. til hádegis. Til þess að það gæti gengið upp var samið sérstaklega við afar liðlegan barnsföðurinn um að hann tæki dótturina daginn áður og færi með hana á leikskólann næsta morgun.
Það var þarna sem babbið kom í bátinn og planinu í dýrmæta vorhléinu varð raskað á frekar írónískan hátt. Þetta gerðist með litlu, saklausu boðskorti leikskólastjóra dóttur minnar í tilefni af konudeginum sem nú brátt rennur upp.
Konudagstilstandið (sem oft er ekkert hjá einhleypum) byrjaði því mun fyrr en vanalega með velviljuðu boði til allra kvenkynsaðstandenda barnanna þar sem fyrirhugað var að eyða morgunstund saman frá 7:30 – 9:00 og snæða hafragraut.
Þetta var ekki alveg mín hugmynd um hinn fullkomna konudag verð ég að viðurkenna, en krúttlegt engu að síður. Í mínum huga eru konudagarnir eins og bóndadagarnir, oft í uppáhaldi hjá pörum þar sem bæði kynin kunna yfirleitt í sama mæli að njóta þess að vera dekstraðir af sínum heittelskuðu og fá að slaka á í friði fyrir húsverkum og öðrum hversdagsverkefnum. Fyrir einhleypt fólk er hins vegar alla jafnan lítið tilstand á þessum dögum og ekki laust við örlítinn létti þegar dagar þessir líða hjá eins og aðrir, ekki síst þegar fólk er nýskilið.
Gleði mín yfir konudagsboði þessu var því (verður að viðurkennast) afar takmörkuð og gegnsýrð af samviskubiti ofurnútímamömmunnar sem bara vildi fá að sofa út þennan morguninn. Hin pólitíska rétthugsun fyrirmyndarforeldrisins leyfði hugmyndinni um að afboða sig ekki einu sinni að koma upp á yfirborðið og togstreytan milli foreldrasamviskunnar og sjálfselskunnar lét á sér kræla.
Þegar dagurinn mikli loksins rann svo upp hentist ég fram úr og arkaði af stað í leikskólann. Ég var orðin svolítið stressuð þar sem ég var í seinni kantinum og klukkan orðin korter í grautarlok. Einbeitt skundaði ég inn á deild dóttur minnar en hvergi var litla skottið að sjá. Eftir að hafa leitað alls staðar, spurði ég deildarstýruna eftir dótturinni en hún horfði bara undrandi á mig og sagði, „hún er ekki komin.“
Hálfkæfði biturleikinn sem hafði kraumað innra með mér varð nú skyndilega kjaftstopp og breyttist allt í einu í mikla eftirsjá, því skyndilega hafði ég verið farin að hlakka einlæglega til samverustundarinnar með litlu konunni minni. Þegar ég svo hringdi í minn fyrrverandi til að athuga hvort þau væru ekki á leiðinni, svaraði hann ekki símanum. Tíminn leið og boðið kláraðist. Ekkert bólaði á feðginunum enda höfðu þau ákveðið að njóta morgunsins saman og sofa út.