Það skal játað, að undirritaður er aðeins rétt byrjaður lestur á Illsku eftir Eirík Örn Norðdahl, en hún liggur til grundvallar samnefndri sýningu sem hefur verið sett upp af Óskabörnum ógæfunnar í samvinnu við Borgarleikhúsið; lesturinn hófst nokkrum dögum áður en farið var á sýningu en bókin er mikil að vöxtum svo ekki gafst tími til að klára hana en hins vegar var ekki laust við að ótti færi vaxandi um að nú hefði leikhúsið reynt sig í glímu við vita vonlaust verk, sumsé að dramatísera þessa miklu sögu, sem bókstaflega bullsýður af hugrenningum um málefni sem að öðru jöfnu eru ekki talin henta í leiksýningu enda lýtur leikhúsið öðrum lögmálum en hin ritaða frásögn. En slíkur ótti hvarf eins og dögg fyrir sólu á fyrstu andartökum sýningarinnar.
Nú skal ekki dæmt um hversu til hefur tekist að dramatísera skáldverkið. Til þess þyrfti undirritaður að klára lesturinn og síðan að greina í sundur listaverkin – söguna og sýninguna – til að sjá hvernig leikhópurinn hefur farið að til koma fram sínum skilningi á sögunni – og það má jafnvel um það deila hvort það sé hlutverk leikhúsgagnrýnanda yfir höfuð; á hann ekki eingöngu að líta til þess sem fram fer á sviðinu, vega það og meta og miðla skilningi á því?
Einu skal slegið föstu: áhugi þess sem hér skrifar á að ljúka lestri bókarinnar minnkaði ekki og má því að minnsta kosti segja að skáldsagan og leiksýningin tali fallega hvort til annars.
Þegar gengið er inn í sal litla sviðs Borgarleikhússins blasir við mikil trappa, tíu skref sem nær milli hæða þannig að hægt er að birtast og láta sig hverfa efst í tröppunni; það er tignarlegt, að minnsta kosti séð frá sjónarhorni þess sem situr neðst við tröppuna. Hugsanlega öðruvísi fyrir þá sem sitja á svölum. Í upphafi sjást tveir íslenskir fánar efst til beggja handa og í tröppunni miðri situr bláklædd kona (Fjallkonan?) með múlbolta í kjaftinum, undir er leikin kliðmjúk tónlist og við erum undireins hrifin í heim andstæðna sem styrkist af leikmyndinni, hönnuð af Brynju Björnsdóttur, og þeim staðsetningarmöguleikum sem hún gefur. Það er líka frábærlega unnið með staðsetningar í leikrýminu – það hefur vægi hvernig leikarar tala upp eða niður hver til annars, færa sig til, skapa myndir úr stöðum sínum hver gagnvart öðrum. Hugmyndaríkt og vel unnið!
Þá spillir ekki fyrir að hafa sjö manna hóp statista sem skapa hughrif með nærveru sinni, mynda táknmyndir sem ramma inn sögu aðalpersónanna þriggja með vel unnum og fallegum búningum Guðmundar Jörundssonar eða verða eins og hluti af leikmyndinni með hreyfingum sínum og fasi. Lýsing Jóhanns Friðriks Ágústssonar styrkir stemninguna og á drjúgan þátt í flæði sýningarinnar ásamt snilldarlegri hljóðmynd Garðars Borgþórssonar, sem eykur frásagnarhraðann og hjálpar til við að skilja hratt og rétt.
Leikurinn er hraður, ör, það er hlaupið úr einu í annað, rétt eins og Eiríkur Örn gerir í sögunni sjálfri – hann er óðamála, honum er mikið niðri fyrir og liggur á – og smám saman fer að tvinnast saman söguþráður sem rammaður er inn með athugasemdum skemmtistjóra og eftirstríðsáratónlist úr kabarettasmiðju – ljúfalífsbragur á öllu, ást og áhyggjuleysi: Agnes kynnist Ómari í leigubílaröðinni í miðbæ Reykjavíkur og þau enda í sama rúmi og verða par uppúr því; hann með mastersgráðu í íslensku, sérfræðingur í íslenskri þolmynd, en atvinnulaus, kannski vegna gamals nauðgunardóms, en fær loks vinnu hjá Domínós og framtíðin virðist blasa við þeim. Hún fer að skrifa sína mastersritgerð, sem fjallar um helförina og þorpið hennar í Litháen og af hverju þorpsbúar hjálpuðu nasistum í seinni heimsstyrjöldinni – sú saga hafði áhrif á hennar fjölskyldusögu þegar annar langafi hennar drap hinn.
Agnes verður heltekin af helförinni og til þess að kynnast nasismanum af eigin raun fer hún að taka viðtöl við Arnór, íslenskan nasista sem liggur ekki á skoðunum sínum; Arnór á sér sína eigin harmþrungnu fjölskyldusögu sem náði vissum hápunkti þegar hann varð valdur að dauða móður sinnar; með slíkt á bakinu er kannski hægt að skilja nasismann, hægt að skilja hvatann að baki helförinni og Agnes tekur að laðast að Arnóri, það endar með framhjáhaldi, Agnes eignast barn og Ómar kemst að framhjáhaldinu og áttar sig á að vafi leikur á faðerninu og hann kveikir í heimili þeirra sem brennur til grunna. Að lokum eiga þau Agnes og Ómars sér engan samastað nema hjá Arnóri, ástarþríhyrningurinn er fullkomnaður og verður ekki leystur nema á einn veg og endirinn er bæði fyllilega rökréttur, hrikalegur og ofboðslegur (honum skal ekki upp ljóstrað!) og eftir sitjum við og veltum því fyrir okkur, hvaða saga þetta var, sem við vorum að sjá.
Í stuttu máli: Illska er okkar eigin saga. Hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Við verðum að horfast í augu við það: í sögu Agnesar, Ómars og Arnórs er falin saga okkar Íslendinga, hversu mótsagnakennd sem hún kann að vera og erfið að takast á við. Við höfum sjaldnast verið sammála um söguritunina og enn síður er okkur ljóst hver sigurvegarinn er – þið vitið, þessi sem skrifar fjárans söguna og dreifir í gegnum skólakerfið, á hátíðarstundunum, í pólítíska starfinu, í gegnum fjölmiðlana sem bergmála í kaffitímunum á vinnustöðunum og heima í eldhúsi í hádeginu og stofunni á kvöldin. Við verðum að sjá í gegnum það allt og leggja á okkur að kynnast okkar eigin sögu í hinu evrópska samhengi, samhengi helfarar og ofbeldis í Evrópu, því rétt eins og það hefur brunnið á skinni foreldra okkar, foreldra þeirra og okkar sjálfra, mun það halda áfram að brenna á skinni afkomenda okkar. Hvar er best að stöðva vítahringinn?
Þegar svo er hættir maður að sjá mun á hinu persónulega – því sem varðar mann sjálfan – og hinu pólítíska – því sem varðar hugsjónirnar, sem samfélaginu er stjórnað samkvæmt. Allt rennur saman. Í sýningu Óskabarna ógæfunnar er hið persónulega er pólítískt og hið pólítíska persónulegt og undirrituðum er til efs að hafa nokkru sinni séð svo hljómsterka og tæra sýningu með þeim grunntóni.
Það mun hafa verið Carol Hanisch, róttækur bandarískur femínisti, sem fyrst hélt því fram að hið persónulega væri pólítískt. Það var í lok sjöunda áratugar síðastliðinnar aldar, þegar vindar frelsis og femínisma blésu á vesturlöndum; Hanisch benti á að ekki væru til neinar “persónulegar” lausnir á “persónulegum” vanda – konur yrðu að gerast meðvitaðar um sína eigin reynslu svo reynsla þeirra yrði þeim sameiginleg, yrði reynsla heildarinnar. Lausnirnar yrðu lausnir heildarinnar og þar með pólítískar, hluti af samfélaginu og jafngildar lausnum karlasamfélagsins. Síðan hefur bilið milli hins persónulega og pólítíska þróast, lengst og styst eftir atvikum; hinir fyrstu femínístar spegluðu sig áreiðanlega í þeirri umræðu sem mótuð var af karlasamfélaginu, síðar kom umræðan um kynvitundina, og nú þegar póstmódernisminn er að víkja og síðnýlendustefnan farin að láta að sér kveða þá er það kannski í ljósi hennar, sem við Íslendingar þurfum að skoða okkur og sögu okkar. Birtingarmyndir nýlendukúgunar eru jafn persónulegar og þær eru pólítískar – þær eru sameiginlegar samtímis því sem þær brenna á skinni hvers einstaks fórnarlambs.
Ekki er alltaf auðvelt að sjá hvert fórnarlambið er. Agnes fer út á hættulega braut framhjáhalds og svika, á yfirborðinu gagnvart Ómari, en svikin eru stærri – hún leitar að skilningi á helförinni og hættir þar með á að gera hana mennska, en það má ekki. Helförin er hryllingur sem aldrei má gera skiljanlegan og þar með mennskan. Við megum aldrei hætta á að sættast við helförina, eins og Eiríkur Örn Norðdahl bendir á í góðri grein í leikskrá.
Það eru hreint engin gamanmál sem hér eru á ferðinni, en svo undarlega vill til að sýning Óskabarna ógæfunnar er svo spennandi að á köflum stendur maður á öndinni, hún er líka svo háðsk að ískrar í manni og svo hjartanlega skemmtileg að maður hlær eins og barn og þegar öllu er á botninn hvolft er hún svo mannleg að maður kemst við. Ekki skaða heldur tilvísanir til nútíma – forsætisráðherra og flokks hans, Ófærðar, jafnvel þess sem í vændum er í Borgarleikhúsinu – verða til að glæða skilningi og aktúalíteti á sýningunni, sem á hug manns frá upphafi til enda. Hún er snilldarlega unnin, hvar sem litið er.
Hér er dansað og hlegið, fánum veifað og hér fæðast börn og lífið er svo gaman og glatt – en allt í einu breytist tilfinningin og alvarleikinn lúrir handan við leiti. Skemmtistjórinn, leikinn af Sveini Ólafi Gunnarssyni, heldur okkur við efnið og lyftir okkur úr dróma ef við gleymum kætinni – og hann heldur því sambandi við áhorfendur í hlutverki nasistans Arnórs, sem er verulega vel heppnuð aðferð til að forðast stöðnun í sýningunni. Fyrir vikið nær Arnór að vekja samúð okkar – samúð, ekki skilning! Hárfínt bil þar á milli, sem leikstjóranum, Vigni Rafni Valþórssyni og Sveini Ólafi, tekst að halda sér réttu megin við! – og hann er jafnvel viðkunnanlegur, helvítið atarna, gaman væri að eiga við hann spjall í góðu tómi … Hvað er ég að segja?! Eiga spjall við Arnór? Nasistann!
Svona leikur sýningin sér að tilfinningum áhorfandans, en skilar honum ávallt aftur á réttan stað, því hér er unnið af smekkvísi, tilfinningu og virðingu fyrir bæði efninu og áhorfandanum.
Sólveig Guðmundsdóttir leikur Agnesi og fer með hana og okkur í gegnum allan tilfinningaskalann. Sólveig hefur áður sýnt að hún býr yfir sterkri og hnitmiðaðri nánd á leiksviði, en hér toppar hún sjálfa sig. Karakterinn er flókinn og áttar sig smám saman á að hún er búin að koma sér í algert klúður; í meðförum Sólveigar verður þetta innsæi að sterkri sögn, við skiljum hana og hennar efi verður bæði skiljanlegur og áhugaverður. Þegar kemur að mastersritgerðinni sem hún hefur í smíðum tekst henni á undraverðan hátt í löngu atriði að gera fræðin áhugaverð og spennandi, hvert orð fæðist í innsta hugarkima og leitar út og hún er samtímis á leiksviði Borgarleikhússins og í karakter. Fallegt!
Sólveig hefur einnig verðuga mótleikara í þeim báðum, Sveini Ólafi sem fyrr er nefndur og Hannesi Óla Ágústssyni, sem leikur Ómar, kærastann klaufalega, sem vill svo vel en gerir allt svo rangt. Orð hans og gjörðir dansa á línu milli þess að vera svartur húmor og tragík og enda á því að verða hvort tveggja í senn í sterkum og grípandi leik. Sveinn Ólafur Gunnarsson á geysisterka innkomu í báðum sínum hlutverkum, sem má þó kannski skoða að sumu leyti sem sama hlutverkið – rétt eins og skemmtistjórinn ræður ferðinni í kabarettinum, ræður einatt hinn sterkari ferðinni í lífinu sjálfu. Sterkari í krafti óbilgirni sinnar, skorti á mannúð, hatri og lokalausnargreddu. Skemmtistjórinn er fyndinn og fjörlegur í krafti mælsku sinnar og atvinnukæti, nasistinn Arnór býður af sér ísmeygilegri þokka og hættulegri, ekki síst í krafti kækjanna sem hafa þau áhrif að hann virðist sakleysislegri en hann í rauninni er.
Leikurinn er einfaldlega fantagóður og leikstjórinn Vignir Rafn hefur haldið utanum allt af smekkvísi, fágun og fádæma flottum hugmyndafræðilegum aga! Illska Eiríks Arnar, Óskabarna ógæfunnar og Borgarleikhússins er áleitin, krefjandi, nauðsynleg og nærandi! Þetta er illska okkar allra, við verðum að taka afstöðu til hennar! Það varðar lífshamingjuna – hið persónulega er nefnilega pólítískt!
Óskabörn ógæfunnar í samvinnu við Borgarleikhúsið: Illska
Handrit byggt á samnefndri skáldsögu Eiríks Arnar Norðdahl: Óskabörn ógæfunnar
Leikstjórn: Vignir Rafn Valþórsson
Leikmyndahöfundur: Brynja Björnsdóttir
Búningar: Guðmundur Jörundsson
Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson
Vídjó: Frosti Jón Runólfsson
Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson
Leikarar: Hannes Óli Ágústsson, Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson
Ungliðahreyfing ógæfunnar: Andrea Vilhjálmsdóttir, Embla Huld Þorleifsdóttir, Fannar Arnarson, Hildur Ýr Jónsdóttir, Jónas Alfreð Birkisson, Telma Huld Jóhannesdóttir, Velhelm Þór Neto.