Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Tímamót

$
0
0

Það eru tímamót í lífi mínu í dag. Ég hef nú náð þeim aldri sem móðir mín hafði þegar hún lést, en þá átti hún eftir einn mánuð í sextugasta og þriðja aldursárið. Mér finnst ég ung, enda stálslegin þessa dagana og held ég hafi varla átt veikindadaga síðastliðin tvö ár. En heilsan er ekki sjálfgefin. Þegar ég var 58 ára fékk ég óvenjulega lungnabólgu, var fárveik í nokkrar vikur og hefði ekki náð aldri móður minnar nema vegna þess að ég var send suður á Landspítala með sjúkraflugi til uppskurðar. Og hjá frábærum skurðlæknum og vel menntuðu heilbrigðisstarfsfólki fékk ég góðan bata. Ég náði mér að fullu og veit að góð heilsa er mín dýrmætasta eign.

12516325_10205962470756240_1937763294_n

Mamma

Móðir mín lést af krabbameini árið 1975. Var hún heilsuhraust? Ég veit það ekki. Hún fór sjaldan til læknis og krabbinn hafði sigur á allt of stuttum tíma. Hún var heimavinnandi bóndakona sem bjó við allt önnur lífsskilyrði og skyldur heldur en við nútímakonurnar. Heimilistækin voru fá en börnin fleiri og hún þurfti að annast veikt gamalmenni á eigin heimili, líkt og margar konur á þessum árum. Nú hefur læknavísindunum fleygt fram og konur leita frekar á heilsustofnanir en þær gerðu á dögum móður minnar.

Samband mæðgna getur verið náið, þær eru genetískt skyldar og yfirleitt alast þær upp við svipaða menningu. Mamma hafði yndi af bóklestri, sótti leikhús og kunni að meta kvikmyndir og framhaldsþætti í sjónvarpinu. Þetta áhugasvið hef ég erft eftir hana og miðlað því áfram til dætra minna.

Ég var aðeins 22 ára þegar mamma lést og því áttum við allt of fáar sameiginlegar menningarstundir. Fyrstu árin eftir andlátið saknaði ég hennar mjög og sérstaklega þegar nýjar bækur komu út. Bestu stundirnar sem ég á með dætrum mínum hafa gjarnan tengst sjónvarpsefni, bókmenntum og leikhúsferðum.

Hefði mamma lifað lengur hefði hún örugglega horft með okkur á danska sjónvarpsþáttinn Matador, hún hefði vaknað með okkur til að sjá Magna keppa í Rock-Star Supernova, beðið spennt eftir nýrri seríu af So you think you can dance og hún hefði átt sitt uppáhaldslag í Eurovision. Hún hefði örugglega komið með okkur í konuferð til Akureyrar til að sjá frumsýningu nýrra íslenskra bíómynda eða nýja uppfærslu hjá Leikfélagi Akureyrar.

Nú þegar ég hef náð aldri móður minnar vil ég heiðra minningu hennar með því að leggja mig alla fram við að verja frítíma mínum í áhugamálin. Ég þarf ekki að vera sjálfselsk þótt ég vilji eiga sem flestar gæðastundir, enda er ekkert því til fyrirstöðu að ég verji þeim í að njóta menningar og lista með fjölskyldunni.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283