Jæja, ég ætla að byrja á því að blása út egóið mitt með eftirfarandi atriðum:
Síðastliðnar þrjár vikur hef ég …
Unnið 12–16 tíma á dag í verkefnum sem tengjast Pírötum.
Unnið í 5–10 greinum fyrir Kvennablaðið.
Einni grein fyrir Pirate Times.
Sótt um starf á fjölmörgum stöðum.
Loksins fengið að hitta vini og vandamenn sem ég hef ekki séð lengi sökum vinnu fyrir vestan.
Fengið mér nýtt batterí í símann (samsung s5) sem gerir það að verkum að hann stækkar heilan helling og nýtist líka sem kastvopn! Það endist 4–5 daga á einni hleðslu.
Þ.a.l. hef ég verið að vinna upp þunglyndislotuna sem ég var í sept. 2015–31. des. 2015.
Ég verð samt að viðurkenna svolítið uggvænlegt. Í dag (25.2. 2016), þegar ég var á fundi með Pírötum á Norðausturlandi, gerðist það þrisvar að ég greip um brjóstið. Þá fékk ég svona agalegan sting fyrir brjóstið.
Mig grunar sterklega að þetta sé vegna streitu eða kannski vegna þess að fráhvarfseinkenni af lyfjamixtúrunni, sem gerði það að verkum að ég varð óvinnufær, séu ekki enn þá farin.
Ég mun fara til læknis á morgun (26.2. 2016) og taka því rólega um helgina. Maður hefur lesið fregnir af fólki um tvítugt sem hefur fengið hjartastopp. Þetta er ekkert til þess að grínast með.
Hvað geðhvörf og lyf varða þá ætla ég að segja það hreint út. (Rétt eins og ég nefndi í greinum sem ég skrifaði í Kvennablaðið í fyrra, 2015) þá er þetta bara eins og hver önnur veikindi. Geðlyf virka bara eins og marglitt skittles-nömm með smá LSD og hassi bætt út í. Maður veit aldrei hvort það sem maður tekur hafi tilætluð áhrif.
Þess vegna verður maður að bera jákvæðnina í brjósti, beita gagnrýnni hugsun og taka vel í að prófa ný lyf ef viðkomandi blanda virkar ekki. Það ætla ég allavega að gera.
Til að taka sem dæmi þá hef ég prófað eftirfarandi: Lithium, Lamotrigine, Risperdal, Rison, Haldol, Wellbutrin, Orfiril, Abilify … fleiri man ég ekki í augnablikinu en ég er ekki hættur að reyna, langt því frá!
Raunveruleikinn er hreinlega sá að ég get ekki treyst því að hafa teymi (sálfræðing, geðlækni o.s.frv.) innan handar því að í fyrsta lagi er biðtíminn allt of langur, verðið allt of hátt og ég get aðeins beðið um áheyrn hjá doksa milli 10.00 og 10.30 á mánudögum og miðvikudögum. Þetta er ekki læknunum alfarið að kenna, vöntunin á læknum er að kenna, þetta er fjármagnsleysinu að kenna, þetta er ríkisstjórninni að kenna og Alþingi sem (þar til nokkuð nýlega) ræddi lítið annað en útgerðina og stóriðju en gaf skít í heilbrigðis- og þar af leiðandi geðheilbrigðiskerfið, ekki nóg með það heldur gleymdist að tala við okkur, unga fólkið, um álit OKKAR á því í hvernig landi við búum.
Það er því ekki furða að unga fólkið upplifi sig sem það skipti ekki máli í stóra samhenginu, að við höfum enga rödd. Það er haugalygi að við höfum lykilinn að Alþingishúsinu, Bessastöðum og gjörvöllu velferðarkerfinu eins og það leggur sig. Sá lykill sem við notum í gjörsamlega úreltu alþingiskosningakerfi kallast atkvæði. Notið það.
Afsakið langloku, en ég ætla að ljúka henni með opinberun á framboði mínu með Pírötum í NA-kjördæmi til Alþingis þegar líður að næstu alþingiskosningum og leggja áherslu á mál sem varða geðheilbrigði.
Með bestu kveðjum
Júlíus Blómkvist Friðriksson