Fréttatilkynning frá Blaðaljósmyndarafélagi Íslands:
Í dag klukkan 15 opnaði árleg sýning íslenskra blaðaljósmyndara í Perlunni og við opnunina voru nokkrum ljósmyndurum veitt verðlaun fyrir bestu myndir ársins 2015. Veitt voru verðlaun í 7 flokkum og að þessu sinni var það tímaritamynd ársins sem var jafnframt valin Mynd ársins 2014. Hana tók Eyþór Árnason, sjálfstætt starfandi blaðaljósmyndari og er myndin óvenjuleg portraitmynd af barnshafandi konu, fljótandi í vatni.
Aðrir ljósmyndarar sem voru verðlaunaðir voru Kristinn Magnússon sem átti bestu myndir í fréttaflokki og portraitflokki, Eggert Jóhannesson átti bestu íþróttamynd ársins, Haraldur Þór Stefánsson tók bestu umhverfismynd ársins og Heiða Helgadóttir átti bestu mynd í flokki daglegs lífs ásamt því að hafa einnig myndað myndröð ársins 2015.
Sjö dómarar völdu 83 myndir á sýninguna í ár úr 904 innsendum myndum blaðaljósmyndara. Þeir völdu þar að auki sigurmynd í hverjum flokki og mynd ársins. Dómnefndina í ár skipuðu Hilmar Þór Guðmundsson, Sissa, Íris Dögg Einarsdóttir, Auðunn Níelsson, Torfi Agnarsson, Karl Petersson og formaður dómnefndar var danski fréttaljósmyndarinn Jan Grarup.
Tímaritamynd- og mynd ársins 2015: Eyþór Árnason
Frá dómnefnd: Myndin getur ekki annað en hreyft við áhorfandanum. Hún er tímalaus og full af orku. Dómnefndin fékk á tilfinninguna að konan væri eins og móðir jörð sem væri annað hvort að sökkva eða rísa upp. Þannig vekur myndin okkur til umhugsunar um það hvernig við komum fram við náttúruna sem er mjög við hæfi á þessum tímum.
Fréttamynd ársins 2015: Kristinn Magnússon

Fjölskyldu frá Albaníu, með langveikt barn, var vísað úr landi í rétt fyrir jól. Hófst mikil samfélagsleg pressa um að fá þau aftur sem endaði með því að þau fengu íslenskan ríkisborgararétt
Fjölskyldu frá Albaníu, með langveikt barn, var vísað úr landi í rétt fyrir jól. Hófst mikil samfélagsleg pressa um að fá þau aftur sem endaði með því að þau fengu íslenskan ríkisborgararétt
Frá dómnefnd: Myndin lýsir vel ástandinu í heiminum í dag, snemma morguns, þegar verið er að leiða innflytjendafjölskyldu út í rútu. Óttinn í svip stúlkunnar fremst á myndinni leynir sér ekki og óöryggið hjá allri fjölskyldunni sem er á leið út í óvissuna. Myndin fær áhorfandann til að hugsa um öryggisleysið sem fylgir þessu fólki sem vísað er úr landi í skjóli nætur.
Daglegt líf mynd ársins: Heiða Helgadóttir

Helgi og Védís hafa komið sér fyrir í kjallaraherbergi hjá mömmu hans Helga þangað til þau flytja út.
Helgi og Védís hafa komið sér fyrir í kjallaraherbergi hjá mömmu hans Helga þangað til þau flytja út.
Myndin er ein af átta myndum úr myndröð sem Heiða tók af íslenskri fjölskyldu sem undirbjó flutning til Noregs.
Frá dómnefnd: Myndin er tekin á þann hátt að það er líkt og ljósmyndarinn sé að gægjast inn um dyr sem gerir upplifunina sterkari. Hún er táknræn fyrir það sem er að gerast í heiminum í dag þar sem síminn er það sem virðist skipta fólk mestu máli og persónuleg samskipti líða oft fyrir það.
Íþróttamynd ársins 2015: Eggert Jóhannesson

Stjörnukonur fagna Íslandsmeistaratitlinum í hópfimleikuum á heimavelli sínum í Ásgarði
Stjörnukonur fagna íslandsmeistaratitlinum í hópfimleikum á heimavelli sínum í Ásgarði.
Frá dómnefnd: Myndin sýnir miklar tilfinningar sem fylgja íþróttum. Það er stutt á milli hláturs og gráturs. Myndin er tekin á þann hátt að áhorfandanum finnst hann vera inni í þyrpingunni og upplifir gleðina með stúlkunum.
Portrait mynd ársins 2015: Kristinn Magnússon

Siggi Sigurjóns
Siggi Sigurjóns, leikari.
Frá dómnefnd: Ljósmyndarinn nýtir sér samspilið á milli sín og módelsins og er glöggur að grípa þau augnablik sem út úr því koma. Það að módelið hylji andlit sitt að hluta sýnir glettnina á milli þeirra tveggja.
Umhverfismynd ársins 2015: Haraldur Þór Stefánsson

Skaftárhlaup 2015 var eitt það mesta í sögunni en þessi mynd sýnir kraftinn sem var við Eldvatnsbrúna skammt frá Ytri Ásum
Skaftárhlaup 2015 var eitt það mesta í sögunni en þessi mynd sýnir kraftinn sem var við Eldvatnsbrúna skammt frá Ytri Ásum.
Frá dómnefnd: Myndin sýnir mikla dramatík og kraft náttúrunnar. Persónan á myndinni gefur áhorfandanum viðmið sem gerir upplifun hans enn meiri. Myndvinnslan hæfir myndinni einstaklega vel.
Myndröð ársins 2015: Heiða Helgadóttir

Laufskálaréttir eru svo miklu meira en bara réttir, þetta er heil helgi af gleði, söng og veislum

„Þetta er stærra en jólin hjá mér,“ segir Stefán Ingi Óskarsson, sem hefur farið í Laufskálarétt í Skagafirði á hverju ári síðustu 25 árin.

Pálmi Ragnarsson, bóndi í Garðakoti er fæddur og uppalinn Skagfirðingur og hefur alltaf farið í réttirnar fyrir utan tvö skipti þegar hann glímdi við krabbamein.

Það getur verið dáleiðandi að fylgjast með hrossunum hlaupa hring eftir hring inní almenningi

Stundum á fólk fótum sínum fjör að launa, en margir hafa slasast inní almenningnum er það verður fyrir eða undir hestunum.

Í réttunum er mikið sungið, hér hópar fólk sig saman og tekur lagið.

Oft þarf mikil átök til að ná hrossunum inní hólfin

Eftir réttirnar fer fólk á milli bæja, fær sér kjötsúpu og heldur áfram gleðinni.
Laufskálaréttir eru svo miklu meira en bara réttir, þetta er heil helgi af gleði, söng og veislum
Frá dómnefnd: Serían sýnir á mjög raunsæjan hátt hvernig hestaréttir eru. Ljósmyndarinn sýnir okkur mismunandi vinkla sem fær áhorfandann til að finnast eins og hann sé á staðnum. Myndirnar eru fallega unnar og sagan er fjölbreytileg.