Á morgun sunnudaginn 6. mars kl. 17 heldur Kór Langholtskirkju tónleika þar sem flutt verða verk eftir norsku tónskáldin Gjeilo og Nystedt.
Tónleikarnir sem voru á dagskrá í haust var aflýst á síðustu stundu í kjölfar veikinda Jóns Stefánssonar en nú á sunnudag mun Steinar Logi Helgason stýra kórnum í forföllum Jóns. Steinar Logi Helgason stundaði píanónám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og er útskrifaður með kirkjuorganistapróf úr Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Nú stundar hann nám í kirkjutónlist við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Björns Steinars Sólbergssonar.
Eitt þekktasta tónskáld norðmanna, Knut Nystedt, lést á síðasta ári en hann hefði orðið 100 ára hinn 3. september í ár. Kórinn mun flytja nokkur af hans þekktustu kórverkum. Hann var mikið trúartónskáld og meðal verkanna á tónleikunum eru Sing and Rejoice og Peace I leave with you.
Ola Gjeilo er fæddur 1979 en hefur búið og starfað í New York frá 2001. Hann hefur vakið heimsathygli fyrir verk sín. Meðal verka á efnisskránni eru Ubi Caritas, Northern lights (Pulcra es) og Serenity (O Magnum Mysterium) en í því verki leikur Bryndís Halla Gylfadóttir með á selló.
Tveir ungir kórstjórartekið tímabundið við stjórn tveggja kóra Langholtskirkju í veikindaleyfi Jóns Stefánssonar. Sólveig Anna Aradóttir stýrir Gradualekór Langholtskirkju og Steinar Logi Helgason Kór Langholtskirkju til vors. Framundan eru nokkrir tónleikar sem verða auglýstir síðar.