Á afskekktri heiði í niðurníddu sveitabýli hírist ósköp vangæf og vængbrotin fjölskylda og lætur sig dreyma um betri tíð – móðirin Védís er ekkja, griðmaðurinn Pjotr er horfinn í álverið, eldri sonurinn Bjarni er sokkinn í sápurnar í sjónvarpinu og greinir vart á milli ímyndunar og veruleika, dóttirin Urður er aðskotahlutur í þessari fjölskyldu, hent út á gadd ef þarf, og yngri sonurinn Skírnir er sá sem reynir að finna sig og fóta í þessum kaótíska heimi, sem fjölskyldan býður honum – í Skírni er að finna þann karakter sögunnar sem minnir okkur á að til sé eitthvað sem kalla má normalt. En það sem kann að vera normalt er einhvers staðar annars staðar og þessari fjölskyldu eru allar leiðir lokaðar til annars og betra lífs. Þetta heimili er eins og gripahús þar sem hver jarmar, baular, hneggjar og hrín með sínu nefi, en hið raunverulega gripahús stendur aðeins fjær – í átt að áhorfendum! – og það er helst að skilja að það sé að hruni komið; gat á þakinu og gripirnir sloppnir út í hríðina og vísast til dauðir. Það þarf að gera eitthvað í því en enginn gerir neitt.
Það er nöturleg mynd af ástandi, sem leikskáldið Bjartmar Þórðarson dregur upp í sögu sinni; hvergi er að finna raunverulega von um betri og manneskjulegri tilveru. Hér lætur móðirin sig dreyma um sólarlandaferðir og dóttirin hallar sér að fortíðinni þegar hún reyndi að standa á eigin fótum fjarri fjölskyldunni. Bjarni hefur tekið við yfirvaldshlutverkinu í fjölskyldunni þegar föðurins nýtur ekki lengur við og ræfilstuskan Skírnir veit aldrei í hvorn fótinn hann á að stíga í vonlausri leit að öryggi og ró.
Það er helst þegar þeirri hugmynd skýtur upp kolli að gera megi hið ónýta gripahús að gistiheimili sem einhver von kviknar, en auðvitað er döngunarleysið algert, ekkert verður úr neinu nema búin er til bókunarvél á netinu en það kemur svo í ljós að það er Skírnir sem stendur á bak við allar bókanir í gistiheimilið fyrir klaufaskap.
Gripahúsið er að mörgu leyti hvöss ádeilumynd af íslensku samfélagi. Það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að þessi vangæfa fjölskylda ætti sér enga stjórnarskrá, hún býr ekki við það öryggi að styðjast við eitthvert samkomulag milli meðlimanna, því sú innbyrðis hlutverkaskipan sem mótast og er viðhaldið í flestum eðlilegum fjölskyldum er engin hér. Það sem einkennir karakterana á sviðinu er að enginn tekur af skarið, enginn á frumkvæði að neinu, allt sem gerist eru viðbrögð. Það eru auglýsingar glanstímaritanna um sólarlandaferðir sem kveikja viðbrögð hjá móðurinni, sonurinn vaknar til lífs þegar eitthvað gerist í sápunni í sjónvarpinu.
Það er í sjálfu sér góð hugmynd og allegórían gengur á köflum ágætlega upp, þótt hefði mátt skerpa hana hér og þar. Líkingamyndir verða yfirleitt skemmtilegri og áhugaverðari ef þær standa ekki í stað og hér hefði ekki skaðað að fá örlítið meiri dramatík til sögunnar – hvað hefði til dæmis gerst ef birst hefði ferðalangur í leit að gistingu? Hefði hann bjargað þessari fjölskyldu eða ógnað?
Látum það raunar liggja milli hluta – það ber að halda sig við efnið og fjalla um þá sýningu sem raunverulega var á fjölum. Hvað sem líður skorti á dramatískri framvindu, þá fer ekki á milli mála að verk Bjartmars er lipurlega skrifað, á köflum er það leiftrandi fyndið og það er mikill kostur á verkinu að höfundur hefur sitthvað að segja um samfélagsástandið og dregur það fram á beittan hátt í sögu sinni af þessari ömurlegu white trash-fjölskyldu.
Leikurinn var yfirleitt góður, þótt leikhópurinn sé misjafn. Það verður að skrifast á reikning leikstjóra að mikið skorti á í samleik; leikararnir voru sumpart einsog hver í sínum heimi og tókst ekki að gefa neina mynd af því hvers vegna þessi fjölskylda var svona vangæf og misþroska. Afleiðingin varð sú að það var eins og fjölskyldan hefði orðið til uppúr þurru, rétt fyrir sýningu. Ekki bætti úr skák að á köflum var eins og leikarar léku hver í sínum stíl: Móðirin á köflum súrrealísk, eldri sonurinn raunsæislegur, dóttirin sýmbólísk og yngri sonurinn metafýsiskur. En vegna hins áþreifanlega skorts á samleik urðu einstaklingarnir fyrirsjáanlegir og óspennandi; meiri dýnamík á milli meðlima þessarar fjölskyldu, vísanir í rætur, fortíð, gömul atvik hefði tvímælalaust glætt fjölskylduna meira lífi og dýpt. Ég nefni sem dæmi atvikið þegar Urður fer allt í einu að tala ofan í replikku Bjarna – þarna var augljós vísun í eitthvað sem hún þekkti og tók einarða afstöðu gegn. Annað atvik var þegar Urður sleppir sér og ætlar að eyðileggja glanstímarit móðurinnar – þá bregst Skírnir við og reynir að bjarga blaðinu og um leið skilur maður að hann gerir þetta af því að það er hans hlutverk innan þessarar fjölskyldu. En þessi atvik eru undantekningarnar sem mættu vísa á regluna, að karakterarnir öðlist meira líf og meiri sögu – kannski mætti segja, að leikstjórinn hefði mátt taka betur utan um verk höfundar?
Það var gaman að sjá Bryndísi Petru Bragadóttur í hlutverki móðurinnar. Það er víst orðið nokkuð langt síðan Bryndís Petra stóð síðast á leiksviði og það má vel gerast oftar! Móðirin var í öruggum höndum hennar frá upphafi til enda og átti fallegar sveiflur í tilfinningum. Það er vandi að túlka manneskju í bullandi afneitun, en Bryndís Petra gerði það varfærnislega og sannfærandi þannig að móðirin varð manneskjuleg og auðvelt að hafa samúð með henni. Eldri sonurinn, Bjarni, leikinn af Sveini Óskari Ásbjörnssyni, var vissulega valdsmannslegur eins og hann átti að vera en þó var brestur í lögn karaktersins og ekki alveg skýrar línur hvenær valdsbragurinn færi af honum og hvers vegna. Það er bagalegt þegar vafi leikur á um valdið, því Bjarni stjórnar þessari fjölskyldu og lumar auk þess á leyndarmálum sem skilja má að honum sé í mun að ekki komist í hámæli. Dóttirin Urður, leikin af Sigríði Björk Baldursdóttur geldur einnig fyrir það að hlutverk hennar í þessari fjölskyldu er einfaldað um of, frekar með leikstjórn en í handriti. Hún er reið, vissulega – hver væri það ekki eftir að hafa verið læst úti í skítakulda? – en það verður hvimleitt til lengdar að sjá ekkert nema reiðina. Sigríður Björk hefur sterka nærveru og það hefði gert bæði leikkonunni og sýningunni gott hefði hún fengið að sýna af sér annað en reiðina.
Sá leikari sem stóð uppúr var Albert Halldórsson í hlutverki yngri bróðurins, Skírnis. Hann er á þönum frá upphafi sýningarinnar til enda að rembast við að þóknast öllum, málamiðlarinn sem þau hin kúga að vild og eftir þörf. Aumingja Skírnir sættir sig við það ef ske kynni að það yrði til að bæta andrúmsloftið – uns hann sjálfur verður kúgari, píndur til þess af eldri bróður sínum. Það atriði og eftirmál þess var einstaklega vel túlkað af Alberti.
Þessi fjölskylda býr sem fyrr segir í óhrjálegu býli uppi á heiðum, fjarri alfaraleið. Þangað kemur enginn og þaðan fer enginn nema dóttirin, sem er hent út á gaddinn og ekki að vita nema hún komi aftur; þetta getur allt eins verið munstur óhugnanlegrar endurtekningar fólks sem er læst og lokað í sínum eigin ranghugmyndum. Í anda þessarar hugsunar er leikmyndin. Hún er snyrtilega hugsuð af hálfu höfundar og leikstjóra með shakespearsku aftara rými þar sem er að finna einu inn- og útgönguleið úr þessum heimi. Hann er aftur tvískiptur, þar sem móðirin drottnar í sófa sínum vinstra megin á sviðinu, en Bjarni ríkir yfir hægra helmingi sviðsins þar sem hægindastóllinn hans er og sjónvarpið. Óþarflega mikið drasl var útum allt og var leikurum til engrar hjálpar. Það hefði sem hægast mátt sýna myndina af white trash-lífsstílnum með einfaldari meðulum. Þá verður undirritaður að hætta á að fá á sig nöldrarastimpil með aðfinnslum um reykingar, en þær gerðu nákvæmlega ekkert fyrir karaktera verksins og voru aðeins truflandi.
Það hefur verið gaman að koma í Tjarnarbíó að undanförnu. Þar á sér stað nokkurs konar uppgjör við íslenskt samfélag sem óþarflega lítið ber á og sem má þó ætla að full þörf sé á. Gripahúsið eftir Bjartmar Þórðarson er athyglisverð og býsna markviss tilraun til að taka á ýmsu sem miður hefur farið í samfélaginu okkar; það er full ástæða til að taka þá tilraun alvarlega. Leikhópurinn kallar sig Þurfandi – það er margrætt nafn og við hæfi og spennandi að sjá hvað kemur næst úr þeirri smiðju. Gripahúsið lofar góðu.
Þurfandi: Gripahúsið
Höfundur og leikstjóri: Bjartmar Þórðarson
Leikmynd/búningar/hljóð: Bjartmar Þórðarson ásamt hópnum
Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson
Leikarar: Albert Halldórsson, Bryndís Petra Bragadóttir, Sigríður Björk Baldursdóttir, Sveinn Óskar Ásbjörnsson
Ljósmynd efst í grein eftir Móu Hjartardóttur