Helga Þórðardóttir skrifar:
Í rúma hálfa öld hafa stjórnmálamenn reynt að lappa uppá stjórnarskrá okkar sem við fengum frá Dönum. Það er skemmst frá því að segja að þeim hefur ekki tekist það þar sem pólitíkin hefur þvælst fyrir þeim og hagsmunir flokkanna hafa ráðið för.
Þegar hér varð hrun árið 2008 varð stjórnmálamönnum brugðið og töldu margrir að nú væri ekki hægt að bíða lengur með nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina og það yrði að setja skýrar reglur fyrir valdhafana. Skynsamir stjórnmálamenn viðurkenndu vanmátt sinn og töldu best að leyfa þjóðinni að koma að gerð nýrrar stjórnarskrár. Upphófst þá mjög merkilegt ferli með þjóðfundi og svo kosningu Stjórnlagaráðs. Þjóðin fékk að fylgjast með mótun stjórnarskrárinnar og að lokum fékk þjóðin að segja skoðun sína í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Þar kom fram skýr vilji hjá þjóðinni um að byggja ætti nýja stjórnarskrá á tillögum Stjórnlagaráðs.
Mikil bjartsýni ríkti hjá öllum þeim sem barist höfðu fyrir nýrri stjórnarskrá um að nú myndi þingið hlusta á vilja þjóðarinnar. Það varð alls ekki svo einfalt því nú fór valdið að óttast um völd sín. Alls kyns úrtöluraddir byrjuðu að heyrast og sérstaklega varð valdinu tíðrætt um að það yrði að vera sátt hjá þeim, þ.e. stjórnmálaflokkunum um stjórnarskrána. Þjóðin skipti þá litlu máli. Fór svo að stjórnmálaflokkarnir hrifsuðu gerð stjórnarskrárinnar aftur til sín. Við erum núna að sjá afrakstur þeirrar sáttarvinnu en stjórnarskrárnefnd stjórnmálaflokkanna var að skila af sér þremur frumvörpum.
Eru þessar tillögur í sátt við þjóðina eða eru þær fyrst og fremst sátt milli stjórnmálaflokkanna?
Þjóðin var með í gerð stjórnarskrá Stjórnlagaráðs alla leið og gaf grænt ljós í þjóðatkvæðagreiðslunni. Sú stjórnarskrá er lýðræðislegasti kosturinn í stöðunni því langflestir skópu hana og samþykktu hana. Í lýðræðisþjóðfélagi er sátt flestra sú sem gildir. Drög stjórnarskrárnefndarinnar eru sátt lítils mengis þjóðarinnar. Sátt þjóðarinnar er mun stærri og því mikilvægari.
Það er mjög mikilvægt að sem flestir rísi á fætur og sýni áhuga og taki þátt í umræðunni svo stjórnmálaflokkarnir skynji vilja þjóðarinnar. Mætum á fundi um efnið sem eru víðsvegar þessa dagana. Dögun og Stjórnarskrárfélagið munu halda borgarafund um drögin og vilja þjóðarinnar í kvöld mánudagskvöld í Norræna húsinu kl 20:00.
Streymið: http://nordichouse.is/event/2990/