-Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, skrifar í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars 2016. Árni Snævarr þýddi.
Ég minnist þess að hafa, þegar ég var ungur drengur að alast upp í Kóreu á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina, spurt móður mína um hefð sem ég hafði tekið eftir. Þegar konur fengu hríðir skildu þær skóna sína eftir fyrir utan húsið og litu til baka með skelfingarsvip. „Þær eru að velta því fyrir sér hvort þær eigi afturkvæmt og klæðist þessum skóm á ný,“ sagði móðir mín til skýringar.
Meira en hálfri öld síðar sækir þessi minning á mig. Í fátækari hlutum heimsins eru konur í lífshættu við að gefa líf. Mæðradauði er ein af mörgum óþarfa lífshættum. Og allt of oft sæta stúlkubörn kynfæraskurði. Ráðist er á stúlkur á leið í skóla. Líkamar kvenna eru vígvöllur í stríði. Ekkjur eru sniðgengnar og lifa í fátækt.
Við getum aðeins tekist á við þessi vandamál með því að efla völd kvenna, þannig að þær verði aflvakar breytinga.
Í meira en níu ár hef ég hrint þessari lífsýn í framkvæmd hjá Sameinuðu þjóðunum. Við höfum mölvað margt glerþakið og glerbrotin þekja gólfið. Nú sópum við burt hvers kyns fyrirfram hugmyndum og hlutdrægni til að konur geti sótt fram á nýjum vígstöðvum.

Ban skipar Kristinu Lund frá Noregi hershöfðingja og yfirmann friðargæslusveita SÞ á Kýpur. UN Photo/Mark Garten.
Ég skipaði fyrsta kvenkyns yfirmann hersveita á vegum Sameinuðu þjóðanna og jók hlut kvenna í æðstu embættum svo þar hafa konur ekki verið fleiri í annan tíma. Konur eru nú í forystuhlutverkum í friðar- og öryggismálum, en slíkt var áður einkaréttur karla. Þegar ég kom til starfa hjá Sameinuðu þjóðunum stýrðu engar konur friðarsveitum á vettvangi. Nú er nærri fjórðungur slíkra sveita undir stjórn kvenna. Það er langt í frá að vera nóg en er þó mikil framför.
Ég hef undirritað nærri 150 skipunarbréf kvenna í framkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjórastöður. Sumar voru þekktar á alþjóðavettvangi fyrir störf í þágu ríkisstjórna landa sinna, aðrar hafa síðar komist til metorða í heimalöndum sínum. Allar áttu þær þátt í að sannfæra mig um að oft er kona besta manneskja í starfið.
Til þess að tryggja að þessi áþreifanlegi árangur verði varanlegur, höfum við komið á fót regluverki, sem felur í sér að allt Sameinuðu þjóða-kerfið þarf að gera reikningsskil í þessum efnum. Áður var jafnrétti lofsverð viðleitni, nú er það klár stefna. Áður var þjálfun í samþættingu kynjasjónarmiða valkostur, nú er hún skylda fyrir sífellt fleiri starfsmenn Sameinuðu þjóðanna. Áður gilti það aðeins um örfáa fjárlagaliði en nú er nærri þriðjungur þeirra greindur út frá jafnrétti og valdeflingu kvenna og fer fjölgandi.
Konfúsíus kenndi að til þess að koma heiminum í lag, þyrfti hver og einn að byrja á að laga til í sínum eigin ranni. Ég hef talað máli valdeflingar kvenna um allan heim í krafti þess hversu vel þær hafa staðið sig hjá Sameinuðu þjóðunum. Í ræðum í þjóðþingum, háskólum og á útifundum, í fundum með yfirmönnum fyrirtækja og í hvassyrtum viðræðum við höfðingja í höfuðvígjum feðraveldisins í heiminum, hef ég haldið fram málstað jafnréttis og hvatt til aðgerða.

10x10x10 átaki HeForShe átaksins kynnt í Davos Ban Ki-moon fyrir miðju, en frá vinstri Stefan Löfven, forsætisráðherra Svía, Paul Kagame, forseti Rúanda, Ban, Emma Watson, sendiherra UN Women; Phumzile Mlambo-Ngcuka, forstjóri UN Women og Paul Polman, forstjóri Unilver. UN Photo/Mark Garten.
Þegar ég tók við embætti voru níu þjóðþing í heiminum konulaus; við höfum átt þátt í að koma þeirri tölu niður í fjögur. Ég ýtti herferð til höfuðs ofbeldi gegn konum (UNiTE to End Violence against Women) úr vör árið 2008 og tugir leiðtoga og ráðherra, hundruð þingmanna og milljónir einstaklinga hafa lagt nafn sitt við herhvötina.
Ég var fyrstur manna til að undirrita HannFyrirHana (HeForShe) áskorunina og meira en ein milljón hefur siglt í kjölfarið. Ég stóð við hlið baráttufólks sem hvatti til afnáms kynfæraskurðar kvenna og fagnaði innilega þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í fyrsta skipti að stefna bæri að því um heim allan. Ég tek undir þær raddir, sem segja að konur leiki lykilhlutverk í því að hrinda í framkvæmd hinni metnaðarfullu Áætlun 2030 um sjálfbæra þróun og að þoka áfram ákvæðum Parísarsamkomulagsins um loftslagsbreytingar.
Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna lýsi ég enn sem fyrr hneykslan minni á því að konum og stúlkum sé meinað að njóta réttinda sinna. Það eflir mér hins vegar kjark að vita af fólki um allan heim sem lætur til sín taka í þeirri fullvissu að valdefling kvenna sé framfaraspor hvers samfélags. Við skulum veita nægu fé til þess að ná jafnrétti kynjanna og tala af kjarki um málefnið með óbeygjanlegan pólitískan vilja að vopni.
Það er ekki til betri fjárfesting í okkar sameiginlegu framtíð.

Ban Ki-moon í göngu í tilefni baráttudags kvenna 2015 í New York. UN Photo/Devra Berkowitz