Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Sagan endurtekur sig

$
0
0

„Ég prófaði 2002 eða 2003 að hafa samband við Samtökin til að athuga hvort hægt væri að leita að einhverjum stuðningi þar,“ sagði Kitty Andersson, nýkjörin alþjóðafulltrúi Samtakanna ’78, í þættinum Öfugmæli sem fjallar um hinsegin sögu, menningu og pólitík. Þátturinn var framleiddur árið 2014. Umræðuefnið var stéttaskipting og fordómar meðal jaðarhópa. Kitty er intersex og þar til nýlega var hún og ‘hennar líkar’ ekki velkomin í Samtökin ’78.

Það er fyrir baráttu Kitty og skilningsríkra einstaklinga innan Samtakanna að um mitt ár 2014 var Intersex á Íslandi stofnað. Hvað er intersex? Intersex er hugtak sem nær yfir fólk sem er ekki hægt að flokka líffræðilega sem annað hvort karl- eða kvenkyns. Barátta hópsins fyrir tilvistarrétti er margþætt. Rík hefð er fyrir inngripum lækna og intersex börnum er kennt að þegja ætíð um stöðu sína. Það skapar djúpstæða skömm sem ýtir undir vanlíðan. Um markmið intersex aktivisma segir á vef félagsins:

„Að auka vitund um intersex og sækjast eftir jafnri þjóðfélagsstöðu. Við sækjumst eftir réttinum til sjálfræðis yfir eigin líkama og viljum geta lifað lífinu án allrar mismununar og laust við skömm og leynd.“

Gefum Kitty, nú stjórnarkonu í Samtökunum ’78, aftur orðið um samskipti sín við Samtökin ’78 fyrir rúmum áratug.

„Þá var ég aðallega að hugsa um fundaraðstöðu, að reyna að finna fleiri og búa til einhvern hóp og hafa eitthvert athvarf einu sinni í mánuði,“ sagði Kitty. Athvarfið varð reyndar ekki til en rúmum áratugi seinna. Hvers vegna? „Ég hringdi upp eftir [á skrifstofu S’78] og talaði við einhvern sem var þarna og mér var bara sagt, beint út, að þetta væri ekki eitthvað sem tengist og þau bara skildu ekkert af hverju ég væri að hringja í þau.“

Enga ‘diet-homma’ hér

Saga Samtakanna ’78 er endalaus saga útskúfunar og innbyrðis fordóma. Þannig er það og því miður eru merki um að þannig verði það alltaf. Árið 1993 klofnaði félagið vegna þess að hommar og lesbíur vildu ekki sjá „diet-gay“ pakk í félagið. „Diet-gay“ er það sem við tvíkynhneigð vorum kölluð. Klofningurinn er reyndar fyrir minn tíma enda var ég 10 ára þá en orðið lifði talsvert lengur. Í félagstíðindum Samtakanna ’78 frá þessum tíma má finna eftirfarandi um þá hugmynd að tvíkynhneigðir fái nú að vera með:

„Hvað er verið að tala um? Að opna Samtökin ’78 og gera þau að regnhlífarsamtökum sem yrði niðurstaða nafnbreytingar í dag. Þá myndu Samtökin ´78 ekki einungis opnast fyrir tvíkynhneigða, heldur einnig aðra hópa sem telja sig kynferðislegu misrétti beitta, svo sem klæðskiptinga, kynskiptinga, pedófíla, fetisista og flassara svo eitthvað sé nefnt af kynlegri flóru landsins.“

Aðalfundur felldi árið 1993 tillögu um að tvíkynhneigðir fengju að vera með og að lög félagsins kvæðu réttilega á um baráttu tvíkynhneigðra.

Screen Shot 2016-03-09 at 22.13.38

Umfjöllun í Alþýðublaðinu árið 1995 um fordóma gegn tvíkynhneigðum.

Félagið – réttindafélag tvíkynhneigðra og samkynhneigðra var í kjölfarið stofnað og starfaði um nokkurra ára skeið. „Fordómar gagnvart tvíkynhneigðum eru gífurlegir,“ sagði Eysteinn Traustason, einn forsvarsmanna Félagsins, í samtali við Alþýðublaðið, árið 1995. Varðandi stöðu tvíkynhneigðra í sér félagi sagði Eysteinn hlutina hafa skánað eftir að umræðan hófst en „tvíkynhneigðir geti ekki setið undir því að vera fordæmd jafnt af samkynhneigðum sem og gagnkynhneigðum.“ Stofnun félagsins var mikil blóðtaka fyrir Samtökin ’78. Eysteinn var til að mynda primus motor í stofnun og rekstri bókasafns Samtakanna ’78. „Nýja félagið fékk sér skrifstofu nánast við hlið Samtakanna ‘78 og starfrækti þar fjörugar útlagabúðir en mikið af ungliðum fylgdi Félaginu að málum,“ segir í 30 ára afmælisriti Samtakanna ’78. Klofningurinn vegna málsins skilur enn eftir sig sár. Stór hópur fólks fékk stöðu annars flokks innan eigin samfélags. Tvíkynhneigðir voru þurrkaðir út úr baráttunni og þrátt fyrir að hópurinn yrði fyrir sams konar kúgun og lesbíur og hommar þá ákváðu Samtökin frekar að bæta á ofbeldið en að veita grið.

Eftirsjáin

„Hafi ég vonda samvisku gagnvart einhverju í minni fortíð þá snýst það um tvíkynhneigða í mínu félagi,“ sagði Þorvaldur Kristinsson, bókmenntafræðingur og fyrrverandi formaður Samtakanna, í samtali við Öfugmæli.

„Ungt tvíkynhneigt fólk reis upp og vildi vera hluti af félaginu, formlegur hluti af félaginu, laust upp úr 1990. Það mætti mikilli andstöðu. Samtökin ’78 voru óskaplega brotin og allur okkur hópur var mjög brotinn. Þetta var á lokaskeiði alnæmis, áður en lyf komu til sögunnar. Við hommarnir sögðum stundum að við hittumst oftar í jarðarförum en við barinn og það voru engar ýkjur. Við vorum að sjá vini okkar hverfa og við vissum aldrei hverjir yrðu næstir.“

Þorvaldur segir vel frá í viðtalinu og þar á meðal þetta.

„Að fara að tala um rétt tvíkynhneigðra í okkar hreyfingu, það virkaði á marga okkar eins og lúxusvandamál. Aukinheldur þá voru þessar raddir, þær komu úr yngsta hópnum, sem ekki hafði orðið vitni að hörmungum alnæmis. Mörgum okkar þótti þetta bara vera dekurbörn.“

Nú vil ég ekki setja Þorvaldi orð í munn. Ég hef satt að segja ekki hugmynd um hver afstaða hans er til samþykktar aðalfundar um BDSM-félagið en þessi ummæli minna nokkuð á umræðuna um hvort BDSM sé hneigð eður ei. Þegar á reynir dettur fólk oft í smásmuguhátt og ofuráherslu á tækniatriði. Minnir það ekki neinn á umræðuna um það hvort hinsegin hneigðir séu val eða meðfædd? Nákvæmlega hvaða máli átti það að skipta hvort hinsegin fólk veldi stöðu sína eða ekki.

Tilgangurinn hér er að smætta fólk niður í tæknihyggju. Formaður BDSM á Íslandi hefur opinberlega lýst því hvaða fordómum þau mæta. Þar á meðal er hræðslan við að missa vinnu og húsnæði, hræðsla við að börnin þeirra verði tekin af heimilinu og að þegar leita þarf aðstoðar vegna ofbeldis og nauðgunar sé BDSM-hneigð einstaklinganna nýtt gegn þeim. Hinsegin fólk hefur ekki aðeins mátt berjast gegn því að fæðast sem glæpafólk heldur hefur þurft að klóra út minnstu réttindi sem aðrir ganga að sem vísum. Atvinnuöryggi fyrir homma og lesbíur var einkunnarorð tveggja manna kröfugöngu árið 1982.

Varðandi BDSM þá má um leið benda á langvarandi sögu hinsegin hreyfinga fyrir bættu kynheilbrigði. Að vera hinsegin snýst líka um kynlíf og þótt nauðsyn hafi verið að færa umræðuna frá kynlífinu einu saman þá þarf ekki mikla þekkingu á sögunni eða baráttunni til að sjá að kynheilbrigði, traust, skaðaminnkun og efling sjálfsmyndar er hluti af baráttunni. Um allan heim berjast hinsegin samtök fyrir réttarstöðu vændisfólks. Hvers vegna? Vegna þess að líkn og samhugur er mannleg tilfinning og eitthvað sem þeir sem kynnst hafa því að á þau halli ættu að hafa í mílum.

Úr afmælisriti Samtakanna '78. Myndin er tekin áður en dagfaraprúðir tóku völdin.

Úr afmælisriti Samtakanna ’78. Myndin er tekin áður en dagfaraprúðir tóku völdin.

Hataði sjálfur Samtökin

Árum saman hataði ég Samtökin vegna afstöðu fólks þar innandyra gagnvart minni kynhneigð. Útskúfunin var ekki bara blóðtaka fyrir félagsstarf Samtakanna ’78 heldur sendi einfaldlega þau skilaboð til gagnkynhneigðra og samkynhneigðra að tvíkynhneigð væri ekki alvöru. Ég var 27 ára þegar ég var í fyrsta sinn í sambandi þar sem kynhneigðin mín skipti ekki máli. Það var árið 2010 og þeir sem telja fordóma gegn hinsegin fólki horfna fyrir löngu eru vægast sagt að blekkja sjálfa sig. Það er samt ekki aðeins þannig að fordómar komi að utan. Sjálfshatur og fyrirlitningin er líka sjálfskaparvíti. Þegar núverandi samband hófst vöruðu sumir vina kærustunnar minnar hana við sambandi við tvíkynhneigðan mann. Hann myndi jú bara halda framhjá henni, væri í skápnum og afneitun. Konan mín var óvön þessu en fyrir mér var þetta hefðbundið. Það skipti engu máli hvort um gagn- eða samkynhneigða væri að ræða. Karlmennirnir í lífi mínu hafa líka fengið þessa ‘væntumþykju’.

Raunar var línan út úr Samtökunum og í hinsegin samfélaginu ávallt sú að við værum jú ekki til. Í besta falli svolítið lélegur brandari. Undanfarin ár hafa Samtökin ötullega unnið að því að opna sig fyrir þörfum alls hinsegin fólks. Það hefur satt að segja ekki alltaf verið auðvelt og eflaust er menningarsjokkið mest fyrir homma og lesbíur sem töldu sínar skoðanir og sína baráttu réttilega eiga forgang. Allt í einu birtist hópur fólks sem ekki vill lengur sætta sig við útskúfun. Það er eflaust erfiðara fyrir suma en aðra. Ég ætla allavega ekki að bíða eftir afsökunarbeiðni frá þessum hópi fólks. Þau skilja ekki áhrif eigin útskúfunar og ætli fæst þeirra vilji nokkuð skilja slíkt.

Hvítþvegin barátta

Innan Samtakanna hafa alltaf verið deilur um það á hvaða forsendu á að standa í réttindabaráttu. Hinsegin dagar er uppskeruhátíð og partí. Fyrir flestum eru Hinsegin dagar eflaust upphafið og endir baráttunnar. Raunveruleikinn er bara miklu flóknari. Án þess að vilja gera lítið úr Hinsegin dögum þá er hátíðin svolítið meira út á við en inn á við. Bakvið hana er ómæld vinna, markaðssetning og vottur af hvítþvætti.

Barátta þarf ekki alltaf að vera upp á við, köld og leiðinleg en hún er svo sannarlega ekki alltaf partí; það er meira fyrir fjölskyldufólkið í úthverfunum. Sýna samstöðu með lágmarksvinnu og skemmtun fyrir börnin. Hinsegin fólk mátti árum saman búa við daglega ímyndarvinnu. Það þurfti að sannfæra almenning um að við værum bara hefðbundnir borgarar. Menn með mönnum og konur með konum en ekki bara rassaríðandi leðurhommar. Þá þurfti að sanna gæði hinsegin foreldra og fullvissa alla um að börnin yrðu nú ekki lögð í einelti og hlytu ekki skaða af kynhneigð foreldranna. Allt ýtti þetta undir ímyndarsköpun, markaðssetningu og þrýsting innan hópsins á ákveðna hegðun. Sjálfsmorð hinsegin unglinga voru ef til vill hvítþvegin.

Jú,jú, það kemur fyrir en samt ekki og þá vegna þess að annað en kynhneigðin kom til. Ýmsum afleiðingum baráttunnar var neitað vegna þess að út á við þurfti að sanna virði hópsins. Sanna að það þjónaði hagsmunum gagnkynhneigðra – meirihlutasamfélagsins – að við hin hefðum tilvistarrétt. Við þessar aðstæður var fullt af fólki einfaldlega skilið eftir. Það var sárt og hverfur ekkert sisvona.

Fjallað var um markaðssetningu mannréttinda í Öfugmælum.

Ætlar þú að eyðileggja áralanga baráttu!!??!

Á sínum tíma ákvað FSS – Félag samkynheigðra stúdenta, sem í dag heitir Q – Félag hinsegin stúdenta, að gefa út ítarlegan bækling um kynheilbrigði. Bæklingurinn var hispurslaus og unninn af miklum heilindum. Óhætt er að fullyrða að sú vinna sem þar var lagt í var afar framsækin og góð. Bæklingurinn talaði um kynheilbrigði út frá ýmsum vinklum; andlegum, líkamlegum og félagslegum. Þá mátti finna í bæklingnum upplýsingar um hvernig draga mætti úr skaða vegna kynlífs með nálum og skurða. Hugmyndafræði skaðaminnkunar er augljós við lestur bæklingsins. Fyrst ekki er hægt að koma í veg fyrir alla skaðlega hegðun þá má allavega reyna að lágmarka mögulega hættu og skaðan sem fylgir.

Fína borgaralega fólkið í Samtökunum fékk hland fyrir hjartað. Hótaði lögbanni og kúgaði aðstandendur bæklingsins með tuddaskap, fordæmingum og félagslegum þrýstingi til að grafa bæklinginn. Það myndi jú rústa margra ára baráttu um skilyrt samþykki meirihlutasamfélags gagnkynhneigðra ef hinsegin fólk vogaði sér að tala opinskátt um endaþarmsmök, fíkniefnaneyslu og sóðakynlíf.

Svo harkaleg var deilan að fyrir suma sem stóðu að upplýsingabæklingnum var það stórt skref að stíga aftur inn í húsnæði Samtakanna árum seinna. Það var svo ekki fyrr en eftir 2010 sem nokkur eintök af bæklingnum fóru að liggja frammi á skrifstofu Samtakanna. Þar var fyrst og fremst um sáttartilraun að ræða.

Allt verður persónulegt í hinseginpólitík. Allt er leyfilegt í ástum og stríði! Samtökin og réttindabarátta hinsegin fólks er bæði.

Hinsegin er ekki einkaeign samkynhneigðra né Samtakanna ’78

„Hinsegin fólk sem ótrúlega ólíkur og sundurleitur hópur er náttúrlega bara staðreynd,“ sagði Auður Magndís Auðardóttir, nú framkvæmdastýra Samtakanna ’78, um hið flókna hinsegin samfélag. „Innan allra hópa er einhver hírarkía, eitthvert stigveldi, þar sem einhverjir eru mest áberandi og fá flest tækifæri og fá oftast orðið. Fjölmiðlar eru hrifnastir af þeim. Það er alveg svolítið flókið að einhvern veginn reka eða búa til hóp þar sem þessi dýnamík er í gangi. Þar sem hópurinn sjálfur býr hana svolítið til en ekki síst meirihlutasamfélagið – fólk sem ekki tilheyrir hópnum býr líka til þessa hírarkíu innan hans. Þetta er mjög flókið.“ Hinsegin hugtakið var ekki fengið án átaka. Sú nafnabreyting var mjög umdeild og í kjölfar hennar var líka deilt. Deilur eru hluti af þessu starfi og eðlilegar. Hins vegar getur maður ekki annað en velt því stundum fyrir sér hvers vegna saga útskúfunar endurtekur sig ítrekað.

Hin rétta staða mála

Þegar allt kemur til alls þá er það flestum einfaldlega mikilvægt að hafa einhvern hóp til að líta niður á. Þess vegna erum við flest ofboðslega tilbúin að tjúllast þegar einhver hópur fólks sem er meira á jaðrinum en við sjálf vill komast á sama stað og við. Það er kjarni þessarar deilu. Fordómar og krafa fólks um að einhver hafi það félagslega aðeins verra en þau sjálf. Einhver hópur til að líta niður á og fyrirlíta svolítið. Það að nú sé fólk í Samtökunum að krefjast þess að lögum félagsins verði beitt til að kasta fólki út gerir fordómana og andúðina hvorki réttmæta né lýðræðislega. Þetta er ljótt og afhjúpandi.

Transfólk hefur líklega upplifað svona taktík hvað harkalegast innan og utan Samtakanna. „Það er ótrúlega skrýtið að upplifa að hópar sem hafa einmitt verið jaðarsettir í gegnum tíðina, og hafa upplifað sjálfir jaðarsetningu, að þeir séu ótrúlega hratt tilbúnir að gera nákvæmlega það sama við aðra hópa,“ sagði Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, transaktivisti og fyrrverandi fræðslustjóri Samtakanna ’78, í Öfugmælum. „Það er það sem er mest sárt. Að þessir hópar sem hafa verið að upplifa mjög svipaða hluti út frá nákvæmlega sömu normum og nákvæmlega sömu hlutum – að þau passi ekki inn í samfélagið – að þau séu strax tilbúin að jaðarsetja aðra hópa.“

Undanfarin ár hefur verið unnið ötullega að því að Samtökin ’78 verði staður fyrir allt hinsegin fólk. Fjölbreytt barátta fyrir fjölbreyttan hóp. Hvítþvotturinn og ímyndarsköpunin um hina dagfarsprúðu homma og lesbíur var út á við. Tæki í baráttunni en kúgandi í sjálfu sér. Það er engin ástæða fyrir því að í dag geti borgaralegu hommarnir, lessurnar, bæjararnir og transfólkið ekki staðið stolt við hlið leðurhommanna, trukkalessanna, gender non binary, ungu róttæklinganna og BDSM-aranna. Baráttan var ekki fyrir samlögun og þolgæðum. Við börðumst fyrir réttindum okkar og annarra til að vera hinsegin. Ekki réttinum til að útskúfa aðra.

Aðalmynd: istolethetv / CC-leyfi: Attribution 2.0 Generic (CC BY 2.0)

Leiðrétting: Fyrir klaufaskap höfundar var Þorvaldur Kristinsson, bókmenntafræðingur og baráttumaður fyrir mannréttindi, kallaður Þorvaldur og Kristinn á mis. 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283