Fréttatilkynning frá Bandalagi kvenna í Reykjavík:
Föstudaginn 4. mars 2016 stóð Bandalag kvenna í Reykjavík fyrir opnum fundi um „Börn og nútímasamfélag“ í samstarfi við Velferðarráðuneytið. Upplegg fundarins miðaði að umhverfi barna í nútímasamfélagi og fjallað var um þær aðstæður sem börnum og fjölskyldum þeirra eru skapaðar á Íslandi. Hugmyndin að baki fundinum var sú að nálgast efnið á heildrænan máta með umfjöllun um skólakerfið, aðbúnað og líðan barna og mismunandi fjárhagslegan bakgrunn. Þá var fjallað um niðurstöður nýrra rannsókna og tilraunaverkefni tengd samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Að fundinum komu ýmis félög og félagasamtök sem starfa á þessu sviði.
Mikil ánægja var með efni fundarins og fundarmenn sammála um mikilvægi þess að efla almenna umræðu um málefni skólabarna og barnafjölskyldna. Í því samhengi var vikið að hlutverki fjölmiðla, en að mati þátttakenda hefur reynst erfitt að fá umfjöllun um málefni skólabarna og vísað til vandaðrar umfjöllunar norrænna fjölmiðla um skólamál. Málaflokknum verði að gera hærra undir höfði í opinberri umræðu, enda vanti mikið upp á samfélagslegt samtal um málefni barna og skólanna.
Ítarlega samantekt um erindin og upptökur frá fundinum er að finna hér.
Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík og stofnandi rannsóknamiðstöðvarinnar Rannsóknir og greining, sem fjallaði um rannsóknir sínar á líðan barna og unglinga á Íslandi.
Hermundur Sigmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálarfræði við Norska tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og Háskólann í Reykjavík, fjallaði um hugmyndir að breyttu skipulagi skóladagsins með þarfir barnsins í forgrunni.
Lovísa Arnardóttir, réttindagæslufulltrúi UNICEF, fjallaði um niðurstöður skýrslu UNICEF um börn á Íslandi sem líða efnislegan skort.
Andrea Hjálmsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri flutti erindið „Ég er bara með samviskubit, svo geðveikt gagnvart börnunum” um rannsóknir sínar og Mörtu Einarsdóttur um samræmingu fjölskyldu og atvinnu í nútímasamfélagi. Þær hafa í tæpt ár rannsakað „íslensku ofurfjölskylduna“ og skoðað hverjir eru helstu streituvaldar í daglegu lífi fólks og hvað það er sem helst kann að auðvelda þeim lífið.
Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, fjallaði um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnudagsins.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, fjallaði um áherslur atvinnulífsins og styttingu vinnudagsins.
Í pallborðsumræðum bættust í hóp fyrirlesara fulltrúar frá Heimili og skóla, Félagi skólastjórnenda í RVK, Félagi grunnskólakennara, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, SAMFOK, Barnaheill, Hróa hetti barnavinafélagi, auk Helgu Arnfríðar Haraldsdóttur, barnasálfræðingi sem rannsakað hefur kvíða meðal barna.