Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Afneitun Arnþrúðar

$
0
0

Arnþrúður Karlsdóttir er ekki á góðum stað. Ömurlegt framferði hennar og Péturs Gunnlaugssonar á Útvarpi Sögu er óumdeilt. Það þarf ekkert að deila um hvað gengur á á Útvarpi Sögu, það þarf ekkert að sanna neitt, þetta er allt á upptökum og framferði hennar sem útvarpsstjóra er deginum ljósara.

Ekkert aldurstakmark er á stöðinni, útsending er galopin öllum

Ég vil fjalla stuttlega um ábyrgð Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar eins og hún snýr að börnum og unglingum. Ekkert aldurstakmark er á stöðinni, útsending er galopin öllum sem hafa aðgang að viðtæki eða tölvu, síma ect. Hlutfall einstaklinga á Íslandi sem eru undir 18 ára aldri er líklega einhversstaðar í kring um 80,000.

Í þeim skóla sem ég kenni (Hólabrekkuskóla) er hlutfall barna og unglinga sem eru af erlendu bergi nokkuð hátt. Ég hef kennt við þó nokkra skóla í gegn um tíðina, Tónmenntaskólann í Reykjavík, sem lýtur frábærri og öruggri stjórn vinar míns, Stefáns Edelstein. Tónlistarháskóla G. Martell sem stýrt er af öflugri fjármagnsgrúppu, ýmsa aðra skóla hef ég starfað við en frá árinu 2004 hef ég stýrt mínum eigin tónlistarskóla eins og margir vita. Ég hef starfað mikið fyrir Fjölmennt undanfarin hart nær 10 ár, ég hef starfað hjá Mími og ég hef starfað fyrir Hlutverkasetur og ég hef starfað fyrir Intercultural Iceland. Ég hef starfað fyrir Minneapolis Drum and Dance Center. Ég hef starfað við Tónlistarskólann í Bessastaðahreppi. Ég kenni tónlist og ég kenni spænsku, ég tek einnig að mér þýðingar jafnt í ensku og spænsku. Ég hef einnig fengist talsvert við námsráðgjöf.

Skólastjórn Hólabrekkuskóla er eins og hún gerist best og er hún í öruggum höndum Hólmfríðar Guðjónsdóttur sem ég leyfi mér að segja að sé eins góður skólastjóri og þeir gerast. Það sama má segja um annað starfsfólk skólans, þetta er vandað fólk sem er svo sannarlega ekki að starfa í Hólabrekkuskóla launanna vegna. Ástæðurnar eru allt aðrar og markmið hvers og eins mun háleitari eins og þeir vita sem starfað hafa við kennslu að einhverju ráði.

Sem sagt, þá er skólastarfið eins gott og metnaðarfullt og hugsast getur frá hendi kennara og annars starfsfóks, sem og nemenda en það vita þeir sem starfað hafa lengur en tvævetur með börnum og unglingum að það eru mikil forréttindi. Börn og unglingar eru ekki valdar að neinum hörmungum eða áföllum í okkar samfélagi. Þau eru líka tilbúin að endurskoða afstöðu sína og innræti í sífellu, eitthvað sem við eldra fólkið gleymum kannski aðeins of oft.

Truflandi ofbeldisfullar opnar útsendingar á Sögu

En það eru takmörk fyrir því hvað skólastofnun getur gert ef að haldið er uppi linnulausum truflunum og árásum sem beinast að aðstandendum þessara barna og unglinga. Í því tilfelli sem um ræðir hér er um að ræða massífan og sleitulausan áróður og hatursherferð í garð múslima á Útvarp Saga. Þau eru mörg börn múslima hér á landi sem gráta sig í svefn undan áróðri sem þar er útvarpað á öldum ljósvakans. Þau eru mörg börnin í skólakerfinu hér á landi sem upplifa stanslausar háðsglósur frá samnemendum, í sumum tilfellum ógnannir, í sumum tilfellum ofbeldi og í tilfelli stúlkna, kynferðislegt áreiti, niðurlægjandi ljótar athugasemdir, stanslaust, frá morgni til kvölds, alla daga.

Engin skólastofnun getur staðist þann áróður sem Útvarp Saga útvarpar dag hvern allt árið um kring. Sama hve starfsfólkið gegnir störfum sínum eftir sinni allra bestu getu, sama hve vel nemendur reyna að standa sig og sneiða hjá öllum vandræðum. Þá er einfaldlega viss varnarmekkanismi sem tekur völdin í nemendahópi þar sem að neikvæð viðhorf og fordómar koma upp. Sá spírall varnarviðbragða sem þá tekur sig upp í mannlegum samskiptum meðal barna og unglinga, þegar ofbeldi, hvort sem það er líkamlegt eða andlegt, gerir vart við sig, hefur áhrif á alla nemendur, ekki bara einn eða tvo. Allir taka til varna, allir þurfa að verjast. Afleiðingarnar eru ótti og angist, kvíði, depurð og jafnvel reiði.

Múslimar eru í kring um fjórðungur alls mankyns og það gefur auga leið að einungis brot af þeim tengjast hryðjuverkum. Það að minnast síðan ekki á múslima öðruvísi en undir formerkjum haturs og fordóma, það mun einungis standa í vegi fyrir hag allra jarðarbúa. Þegar svo virðist síðan sem að eina umræðuefnið á Útvarp Saga sé svokölluð “múslimavæðing”, þá er okkur í þessu litla samfélagi vandi á höndum.

Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri hefur fullkomlega brugðist sínum skyldum sem sá aðili sem hefur öll tækin í höndunum til að reka aðra stefnu en þá sem ríkjandi hefur verið á stöðinni, Arnþrúður er sú persóna sem ber höfuðábyrgð, ásamt Pétri Gunnlaugssyni. Sú glæpsamlega hatursherferð sem Arnþrúður og Pétur reka gagnvart múslimum, þar með talið börnum múslima, verður að hætta. Raunar má ganga en lengra og staðhæfa að samkvæmt þeim gögnum sem ég hef farið yfir, þá sé stöðin farin að standa fyrir ofsóknum í garð fjölmenningar á Íslandi í heild sinni. Þar með talið öllum sem ekki falla inn í fjöldann, samkynhneigðir eiga þar einnig undir högg að sækja hjá starfsmönnum stöðvarinnar. Þáttastjórnendur gera meðal annars ítrekaðar tilraunir til að koma hlustendum í skilning um að fjölmenning virki ekki, geti ekki virkað og hafi aldrei gengið neins staðar.

Eins og ég sagði hér í byrjun þessa pistils, þá er framferðið á stöðinni alveg óumdeilt. Það er alveg skýrt og það sem verra er þá er dagskráin öllum opin, þar á meðal börnum. Börn fara ekki varhluta af illa upplýstri umræðu foreldra eða annara aðstandenda sem hlotið hafa falskar og uppskáldaðar upplýsingar um múslima á Útvarpi Sögu. Það eina sem stendur eftir er að útrýma þessari hatursstefnu úr okkar samfélagi fyrir fullt og allt. Þennan viðbjóð viljum við ekki inn á gólf hjá okkur og við viljum fæst okkar að börnin okkar þurfi að alast upp með ótta og hatur í brjósti.

Hér er upptaka af Útvarpi Sögu þar sem Pétur Gunnlaugsson rangtúlkar niðurstöður um nauðganir í fjölmenningarsamfélögum, :

“Ef við fáum hér fjölmenningarsamfélag, þá er alveg ljóst og það eru allar skýrslur sem benda til þess, að þá mun glæpum gegn konum og börnum færast í vöxt, nóg er ástandið slæmt hérna hjá okkur. Það er nógu slæmt fyrir.”


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283