Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hversu lengi gengst Bjarni við Sigmundi?

$
0
0

Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir sagði af sér sem gjaldkeri Samfylkingarinnar í gær. Hann greindi frá ákvörðun sinni í pistli sem hann birti á Eyjunni laust fyrir miðnætti. Í pistlinum greinir Vilhjálmur einnig ítarlega frá viðskiptasögu sinni.

Mörgum finnst hann maður að meiri fyrir að hafa gengið svo hreint til verks og öðrum finnst að starf hans sem gjaldkeri Samfylkingarinnar sé þess eðlis að ekki hefði þurft að koma til afsagnar hans.

Það skiptir í raun engu máli hvað okkur finnst um þetta. Það sem skiptir máli er það vantraust sem ríkir í samfélaginu vegna upplýsinga þess efnis að þrír ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eigi félög þeim tengd í erlendum skattaskjólum og vegna skorts á upplýsingum um eðli, stöðu og tilurð þeirra viðskipta.

Vilhjálmur er skynsamur og gerir það sem honum sýnist réttast í þeirri stöðu sem uppi er í samfélaginu þar sem vantraust ríkir. Vilhjálmur, sem hvorki er ráðherra eða þingmaður heldur gjaldkeri stjórnmálaflokks, segir af sér svo að deilur um framgöngu hans á öðrum vettvangi verði ekki til að varpa rýrð á stjórnmálasamtökin sem hann gegndi trúnaðarstarfi fyrir.

Traust er áunnið en ekki sjálfgefið. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra hefðu að sjálfsögðu átt að gera grein fyrir viðskiptastengslum sínum þegar þeim var falið að taka við embættum og standa og falla með áliti almennings á hæfi þeirra, sökum viðskiptahagsmuna, til þeirra starfa. Alls óvíst er að ráðherrarnir hefðu hlotið slíkt traust kjósenda ef þær upplýsingar hefði legið fyrir.

Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal hafa að einhverju leyti gert grein fyrir málum sínum nú þegar og þótt mörgum finnist á stundum svörin ekki fullnægjandi og fyrir liggi að vilji þeirra til að eiga aflandsfélög á árum áður sanni upphaflegan ásetning þeirra og dagdrauma um skattanæði – þá er eðli mála þeirra Ólafar og Bjarna allt annað en Wintris-mál Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Forsætisráðherra hefur orðið uppvís að mjög alvarlegum brotum í starfi með því að leika tveimur skjöldum í störfum fyrir íslensku þjóðina þegar hann sat beggja vegna borðsins í samningum við kröfuhafa. Hann hefur af hræsnisfullri drýldni talað upp íslensku krónuna og mært íslenska hagkerfið á sama tíma og hann treystir ekki íslenskum bönkum fyrir fjármunum sínum og sinna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú um tvennt að velja að slíta sambúðinni við Framsóknarflokkinn eða láta sér lynda að almenningur geri engan greinarmun á flokkunum tveimur og framferði forsætisráðherra sé hér eftir óvéfengd séreign Sjálfstæðismanna.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283