Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur birti eftirfarandi færslu á Facebook í morgun og gaf Kvennablaðinu leyfi fyrir birtingu:
Fróðlegur dagur fram undan. Hárrétt og skynsamlegt hjá Ólafi Ragnari að hraða för heim. Í stjórnarkreppu er nauðsynlegt að forseti sé á vettvangi, það fékk Kristján Eldjárn t.d. að reyna 1979 þegar stjórn var að splundrast og yfirvofandi heimsókn hans til Belgíu (ekki 1978 eins og ég mismælti mig í sjónvarpinu).
Í krafti reynslu sinnar, þekkingar og tengsla getur Ólafur Ragnar stuðlað að því að stjórnskipunin virki.
Frumskyldan er að við völd í landinu sé stjórn sem njóti stuðnings meirihluta Alþingis. Sá grundvöllur liggur í 1. grein stjórnarskrárinnar: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“ Þannig stjórn er núna við völd.
Hvað gerist í dag og næstu daga? Fyrst þarf að koma á daginn að úti sé um þetta stjórnarsamstarf. Fari svo þarf forsætisráðherra að biðjast lausnar. Forseti tekur þá við lausnarbeiðni hans og venjan væri að hann bæði forsrh. að sitja áfram uns ný stjórn yrði mynduð. Fyrst þyrfti að leita leiða til að mynda nýja meirihlutastjórn og forseti yrði með í þeirri leit, kallandi stjórnmálaleiðtoga á sinn fund, og jafnvel plottandi á bak við tjöldin.
Gangi ekki að mynda meirihutastjórn þarf að vinna að myndun stjórnar sem getur a.m.k. varist vantrausti á þingi.
Þrautalendingin er myndun utanþingsstjórnar.
Engin tímamörk eru skráð í stjórnarskrá eða annars staðar um hvaða tíma menn hafa fyrir hvert stig þessa ferils.
Haustið 1979 sprakk stjórn Ólafs Jóhannessonar með látum rétt rúmu ári eftir að hún tók við völdum. Þá fannst Kristján Eldjárn forseta ekki hægt annað en vera snöggur til, og skipaði mönnum að mynda e.k. stjórn nær samstundis, annars myndi hann skipa utanþingsstjórn. Sú svipa á bak leiðtogunum virkaði. Við venjulegri stjórnarskipti, t.d. eftir kosningar, getur langur tími hins vegar liðið frá því að forsætisráðherra biðst lausnar en situr áfram þar til ný stjórn hefur verið mynduð.
Allt er þetta mér ofarlega í huga núna því að ég er að leggja lokahönd á bók um forseta Íslands og sögu embættisins. Ég vil ekki halda því fram að ég viti allt betur en aðrir svona „af því bara“, frekar í krafti þess að hafa unnið við að rannsaka þessa sögu árum saman.
Til gamans skelli ég hérna einum kafla úr handritinu þar sem sagan frá 1979 er m.a. rakin. Getið lesið hann hér.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur talað af virðingu um Kristján Eldjárn eins og vera ber. Nú reynir á forseta. Ég hef fulla trú á að hann muni standa sig vel.
Fróðlegur dagur fram undan. Hárrétt og skynsamlegt hjá Ólafi Ragnari að hraða för heim. Í stjórnarkreppu er nauðsynlegt…
Posted by GuðniTh Jóhannesson on Tuesday, 5 April 2016