Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Heiðursborgarar á Tortóla

$
0
0

Indriði H. Þorláksson skrifar. Einnig birt á vef hans hér:

Meinsemd skattaskjóla er alþekkt og ætti að vera flestum kunn eftir afhjúpun Panama-skjalanna. Skattaskjólin eru:

  • Vettvangur skattsvika af stærðargráðu sem er óskiljanleg fyrir venjulegt fólk.
  • Vettvangur þeirra sem fría sig frá skyldum við það samfélag sem hefur fóstrað þá og alið.
  • Vettvangur þar sem ágóði af hvers kyns glæpastarfsemi og öðru illa fengnu fé er blandað í leynisjóði stórfyrirtækja og auðkýfinga og hvítþvegið.
  • Vettvangur sem alþjóðafyrirtæki nota til að færa hagnað sinn út úr þeim löndum þar sem hann varð til og ætti að skattleggjast.
  • Vettvangur  þar sem leynd verndar þau viðskipti sem ekki þola dagsins ljós.
  • Vettvangur sem gerir sumum mögulegt að losna undan þeim lögum sem gilda fyrir aðra í heimalandinu og flestum siðuðum ríkjum.

Reynslan af alþjóðlegum fjármálabólum og hruni hefur sýnt að skattaskjólin eru óheillavaldar. Þau eru meinvarp í alþjóðahagkerfinu, ógnun við fjárhags einstakra ríkja og gróðrarstía spillingar. Hrunið til viðbótar við fyrri reynslu leiddi til þess að fjölþjóðasamtök settu stóreflda baráttu gegn skattaskjólum á stefnuskrá sína með það að markmiði að útrýma þeim. Afhjúpun Panama-skjalanna hefur gefið þeirri baráttu aukin byr í seglin. Krafa almennings í flestum ríkjum og yfirlýsingar ráðamanna í þeim er skýr stuðningur við þessa stefnu.

Ísland er aðili að sumum þessara stofnana t.d. OECD, sem staðið hefur framalega í baráttunni. Það kemur því verulega á óvart að fyrstu yfirlýsingar endurnýttra ráðamanna eftir að fyrri leiðtogi þeirra verður að víkja vegna starfsemi í skattaskjóli skuli vera þess efnis að það sé í lagi að eiga fé í skattaskjóli. Forystumenn flestra ríkja krefjast þess nú að nákvæm rannsókn fari fram á þeim sem uppvísir hafa orðið að leynibraski. Íslenskir valdhafar telja að kattarþvottur með óljósum og ósönnuðum yfirlýsingum sé nægilegur til að áfram verði haldið að blekkja almenning og skaða þjóðina.

Það er ekki ónýtt fyrir skattaskjólin og viðskiptafélaga þeirra að fá þannig siðferðisvottorð frá ríki sem státar sig (með réttu eða röngu) af því að vera elsta lýðræðisríki heims og (líka með réttu eða röngu) að vera meðal þeirra ríkja þar sem mannréttindi, jafnrétti og velferð allra þegna samfélagsins eru grundvallarmál. Þetta siðferðisvottorð ráðmanna er enn furðulegra í ljósi þess:

  • Að Ísland verður fyrir tilstuðlan skattaskjóla árlega af skatttekjum sem að lágmarki eru 30 – 50 milljarðar króna.
  • Að tugum milljarða af hagnaði af nýtingu á orkuauðlindum landsins er komið undan skattlagningu með atbeina skattaskjóla.
  • Að verulegur hluti arðs af fiskveiðiauðlindinni kann einnig að vera vistaður í skattaskjólum.
  • Að í aðdraganda hrunsins voru hundruðir milljarða króna sogaðir út úr íslenska hagkerfinu inn í einkahlutafélög Íslendinga í skattaskjólum.
  • Að hluti Íslendinga, sem hefur til þess aðstöðu, getu og geð, segir sig undan íslenskum lögum og athafnar sig utan þess réttarkerfis sem vestræn samfélög hafa sett atvinnurekstri.
  • Að hluti Íslendinga hefur með því að vista eigur sínar í skattaskjólum komið sér undan afleiðingum hrunsins og jafnvel hagnast á óförum annarra.

Það undarlegasta er þó að þeir sem svona tala eru valdir til æðstu metorða á Íslandi í stað þess að vera gerðir að heiðursborgurum á Tortóla.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283