Samstöðumótmæli voru við íslenska sendiráðið í Kaupmannahöfn í dag. Sóley Kaldal flutti þessa ræðu við það tilefni.
Kæru Íslendingar,
ég heiti Sóley Kaldal og var beðin um að segja hér nokkur orð.
Ég hef búið í Danmörku í 10 ár.
Við erum innflytjendur. Við vitum hvernig er að vera minnihlutahópur í samfélagi, við vitum hvernig er að þurfa að sanna sig án tengslanets og við vitum hvernig er að mæta fordómum og leiðrétta þá. Íslendingar þrífast vel í Danmörku, okkur vegnar vel í námi og starfi. Við erum samheldinn hópur og styðjum hvert annað.
En það er, umfram allt, eitt sem ég hef tekið eftir hjá íslenskum innflytjendum í Danmörku sem aðgreinir þá frá öðrum innflytjendum hér. Það er að þegar Íslendingar í Danmörku hittast þá spyrjum við ekki:
Ætlið þið einhvern tíman að flytja heim?
Heldur spyrjum við:
Hvenær ætlið þið að flytja heim?
Því á einhvern hátt erum við öll aftur á leiðinni „heim“.
Ræturnar liggja djúpt á Íslandi. Og Ísland er líka einstakt. Við sjáum fjöllin út um gluggann, við drekkum ómeðhöndlað vatn sem rann um æðar fjallshlíðanna. Við horfum út á sjóinn og sjáum ekkert nema víðfeðmið og eilífðina. Við förum í sund, nögum harðfisk og fáum okkur eina með öllu á Bæjarins Bestu. Á Íslandi eru æskuminningarnar okkar, þar er fjölskyldan og forfeðurnir.
Það má segja að hjartað slái á Íslandi – en heilinn er kyrfilega í Skandinavíu.
Hjartað slær á Íslandi en við erum sammála um að það sé ekkert vit í því að flytja heim. “Altså det giver bare ingen mening,” eins og Danir myndu orða það.
Hér erum við með 1% vexti á húsnæðisláninu. Hér fá börnin okkar leikskólavist frá 9 mánaða aldri. Hér greiðum við ekki krónu þegar við þurfum að leita okkur læknishjálpar. Hér er bíllaus lífstíll raunhæfur valkostur. Hér sé ég á hverjum degi hvernig skattkrónurnar mínar eru nýttar.
Á þessum tíu árum sem ég hef búið í Danmörku hafa Íslendingar haft misjafnt orðspor.
Fyrst horfðu Danir tortryggilega á okkur þegar útrásarvíkingarnir óðu hér um og keyptu sögufrægar eignir. Svo horfðu þeir með vorkunn á okkur þegar spilaborgin hrundi. Síðan þá hefur enginn viljað sjá íslensku krónuna og það hefur ekki verið létt að vera Íslendingur í útlöndum. Námslánaskuldir tvöfölduðust og lífeyrisgreiðslur helminguðust – án nokkurrar “leiðréttingar”. Innfæddir vinir okkar gapa þegar við reynum að útskýra fyrir þeim verðtrygginguna.
Ísland varð aðhlátursefni og síðustu 8 árin höfum við reynt að verja það. En nú er komið nóg. Enn hlær heimsbyggðin, og við sitjum eftir með skömmina.
Nú er tímabært að Íslendingar hætti að vera smáborgarar. Smáborgarapólitíkusar höfða til tilfinninga – þeir taka ekki þátt í rökræðum. Smáborgarapólitíkusar ala á billegum gildum eins og þjóðerniskennd og ótta.
Og við erum smáborgarar sem taka óréttlætinu þegjandi og hljóðalaust því við viljum ekki angra neinn. Hversu oft höfum við byrjað setningu á: „Fyrirgefðu, ég vil ekki vera leiðinleg ef hann er frændi þinn eða eitthvað..“. Hættum því! Alvöru lýðræðisríki eru óhrædd við að gagnrýna verk frændans, án þess að um persónuárásir sé að ræða.
Eitt það mikilvægasta sem ég hef lært við að búa í Danmörku er að kunna að meta gagnrýni. Danir víla ekki fyrir sér að gagnrýna verk hvers annars, hvort sem það er á vinnustað, í vinahóp eða á kassanum í Nettó. Hörundssárir Íslendingar – sem eru vanir að já-flokkurinn syngi sinn söng fara í fýlu eða reiðast. Sannleikanum verður hver sárreiðastur. Ó hvað ég hef oft lent í því. En þetta er æfing og maður verður betri. Við eigum að gagnrýna. Við verðum að gagnrýna. Og við verðum að geta tekið gagnrýni.
Hvernig Ísland viljum við?
Við viljum að Ísland geti staðið jafnfætis hinum Norðurlandaþjóðunum. Við viljum vera tekin alvarlega á alþjóðlegum vettvangi. Við viljum starfa eftir þeim siðferðisgildum sem þykja eðlileg í Evrópu. Og ef Íslendingum er ekki treystandi til að halda uppi siðferðilegum störfum, þá þarf að gera siðleysið ólöglegt!
Hjartað slær á Íslandi og við viljum Ísland sem heilinn getur líka sætt sig við.
Takk fyrir.