Þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks staðfestu rétt í þessu að flokkarnir eru í grundvallaratriðum fylgjandi því að ráðherrar í ríkisstjórn eigi og tengist skúffufélögum í skattaskjóli. Stjórnarmeirihlutinn staðfesti traust á ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar rétt í þessu.
Sjá! Wintris, Dooley og Falson & Co. færa okkur ‘nýja’ ríkisstjórn!
Guðfaðir Falsonstjórnarinnar er Sigmundur ‘Wintris’ Gunnlaugsson fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi formaður Framsóknarflokksins. Sigmundur sá ekki ástæðu til að biðjast afsökunar á þætti sínum í pólitískum óstöðuleika á Alþingi áðan. Þess í stað úthúðaði hann stjórnarandstöðunni og fyrri ríkisstjórn.
Óhætt er að fullyrða að auðmýkt var í engu offramboði hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar í dag. Umhverfisráðherra líkti þeim sem ekki treysta ríkisstjórninni við „óþekk og heimtufrek börn.“ Iðnaðarráðherra sagði ábyrgðartilfinningu sína reka sig til stuðnings. Félagsmálaráðherra rígheldur í ráðherrastól fyrir „fólkið sem biður um hjálp við að tryggja sér húsaskjól.“ Fjármálaráðherra sagði „reynslan sýnir að menn fara alltaf í sömu skotgrafirnar og reyna að gera það besta fyrir sjálfa sig.“ Bjarni Benediktsson átti þar ekki við sjálfan sig og aðra sem nota fyrirtæki í skattaskjólum. Hann átti við stjórnarandstöðuna og mótmælendur sem vilja hann og ríkisstjórninina burt.
Nýr forsætisráðherra sagði á þingi að kosning mynda grafa undan stöðuleika.
Round 5 #cashljos #panamapapers #xstrax #protest #corruption #althingi #vantraust pic.twitter.com/4WPyKdzkjr
— FM Belfast (@fmbelfast) April 8, 2016
Með atkvæðum sínum staðfestu stjórnarþingmennirnir að þeir telji í lagi að stjórnmálamenn geymi auð sinn og stundi viðskipti í leyndarhjúp skattaskjóla. Stjórnarþingmennirnir staðfestu að það sé þeim ekki til ama að stjórnmálamenn og fjölskylda séu í leynum kröfuhafar á fallna banka um leið og þeir berja sér á brjóst að slá hvert heimsmet á fætur öðru í samningum við kröfuhafana.
Kosið var um vantrauststillöguna í tvennu lagi. Annarsvegar var kosið um vantrasut á ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar og svo að þing yrði rofið og kosið svo fljótt sem við verður komið. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, varði ríkisstjórn vantrausti en greiddi atkvæði með þingrofi.
Kvennablaðið óskar kjósendum til hamingju með ríkisstjórnina.
Protesters against the current government. #iceland #panamaleaks #vantraust pic.twitter.com/ePnwR528kw
— Ásta Helgadóttir (@asta_fish) April 8, 2016