Kvikmyndin Noah sem tekin var á íslandi sumarið 2012 verður heimsfrumsýnd í Egilsbíó þriðjudaginn 18. mars. Leikstjóri myndarinnar er Darren Aronofsky og verður hann viðstaddur frumsýninguna. Darren hreifst mjög af náttúru Íslands þegar hann var hér við tökur og vill nú leggja sitt lóð á vogarskálarnar til þess að styðja við land-og náttúruvernd á Íslandi og er óhætt að segja að nú hafi umhverfissinnar og náttúruverndarsamtök á Íslandi fengið öflugan stuðningsmann. Darren er einn af merkilegri leikstjórum samtímans og því afar líklegt að þessi viðburður muni vekja heimsathygli og vekja fleiri til vitundar um Ísland og mál er tengjast náttúruvernd á Íslandi.
Frumsýningin er liður í viðburðinum Stopp – Gætum Garðsins sem er samvinnuverkefni Darren Aronofsky, söngkonunnar Bjarkar, Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands. Auk frumsýningarinnar verður blásið til stórtónleika í Hörpu að kvöldi sama dags.
Allir listamenn gefa vinnu sína og allur ágóði rennur til Náttúruverndarsamtaka Íslands og Landverndar.Þeir tónlistamenn sem fram koma á hljómleikunum eru: Highlands, Patti Smith, OMAM, Samaris, Retro Stefson, Björk, Mammút og Lykke Li.
Við tökur á myndinni Noah lagði Darren mikla áherslu á valda engu raski á náttúrunni. Kvikmyndin Noah var tekin hér á Íslandi sumarið 2012 og aðstandendur myndarinnar vilja styðja starf Náttúruverndarsamtakanna og Landverndar.
Sérstakur söfnunarreikningur hefur verið opnaður og renna öll framlög beint til Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Miðasala hefst þriðjudaginn 4. mars kl. 10 á vefnum www.harpa.is.