Kolfinna Snæbjörg Magnúsdóttir skrifar:
Birti hér þetta bréf sem ég skrifaði til konu sem er að kljást við þunglyndi eftir að hafa misst son sinn sem féll fyrir eigin hendi.
„Elsku vinkona. Ég er vöknuð fyrir allar aldir – var að lesa póstinn þinn. Þú ein getur barist við þunglyndið, þú ert yndisleg mannvera, hjartahrein, falleg, greind og yndisleg kona. Veit þú átt svo margt að lifa fyrir, elskan, en ég skil þig svo vel, þína líðan, sem er ofureðlileg. Það er ekki þar með sagt að hún sé þér góð því það er svo hættulegt fyrir þig að vera lengi á þessum stað. Lífið er miskunnarlaust og það er enginn þess umkominn að segja þér hvernig þú átt að fara í gegnum sorgina.
Ég held að þú sért hrædd við að sleppa takinu á sorginni því þá finnist þér að drengurinn þinn fari lengra frá þér, elskan. Sálin er svo flókið fyrirbæri, ekkert er dýpra en móðurástin.
Ég minni mig stundum á, þegar ég er við það að gefast upp af sorg vegna dóttur minnar Öldu, sem er fjölfötluð og fékk Alzheimersjúkdóminn aðeins 14 ára, þegar ég bað Guð að leyfa henni að lifa og hann gerði það.
Alda er með mikla fötlun, downs-heilkenni, þroskaheft, geðklofa, flogaveik með Alzheimer. Þetta er lífið sem hún fékk úthlutað, þessi ástarengill.
Þessi reynsla, sem hefur gert móður hennar að pínulítið betri manneskju. Það skilur það e.t.v. enginn sem ekki hefur upplifað þá sorg að missa barnið sitt hversu sársaukinn er mikill.
Það að eignast fatlað barn er mikil sorg og enn meiri sorg að upplifa enn alvarlegri veikindi barnsins síns.
Að vita að hún getur ekki notið lífsins eins og aðrar ungar konur, eins og systur hennar gera, er stöðugt sorgarferli.
Lífið er oft erfitt, elsku vinkona, og aldrei var okkur lofað að það yrði dans á rósum. Ég stend á krossgötum núna í lífinu, er að stíga erfið skref út úr hjónabandi sem löngu er búið. Það að ganga í gegnum skilnað er mikil höfnun, brostnar vonir sem urðu að engu, sorgarferlið fer aftur af stað. Svona er lífsins gangur, skiptast á gleði og sorg í lífinu.
Ég er að segja þér þetta vegna þess það hjálpar mér sjálfri, svo furðulega sem það hljómar þegar mér líður illa, að geta hugsað um aðra sem eiga erfitt eða jafnvel aðra sem eru í enn flóknari stöðu í lífinu en ég.
Mer finnst lífið ekkert sanngjarnt og ef ég ætti ekki þessar yndislegu dætur mínar og barnabörn og fjórða á leiðinni, þé væri þetta líf lítils virði að lifa finnst mér a.m.k. því minn vanmáttur er það mikill.
Þó að mér líði þannig núna þá þýðir það ekki uppgjöf, síður en svo. Það er ekki í boði. Lífið er ekkert alltaf mjög sanngjarnt, það finnst mér ekki.
Það að greinast með parkinson-sjúkdóminn 45 ára gömul er þungt áfall. Áfall sem ég er búin að vinna mig út úr og sætta mig við. Lífið heldur áfram í allri sinni dýpt, svo ótrúlega mikið ævintýri að það er oft lyginni líkast.
Lifi lífið.
Kolfinna