Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Helmingaskiptin og samþjöppun auðs á Íslandi

$
0
0

Samþjöppun auðs og valda hér á landi hefur náð góðum takti eftir hrun og er að líkindum lengra á veg komin en ætla mætti. Málsmetandi menn, sem þekkja innviði viðskiptalífsins og stjórnmálanna, halda því jafnvel fram að samþjöppunin sé meiri en nokkru sinni í sögu lýðveldsins.

Ríkisstjórn ríka fólksins slær taktinn.

Hefur þetta ekki alltaf verið svona?

Eitt sinn talaði þjóðin um fjölskyldurnar fimmtán sem áttu og stjórnuðu landinu. Talað var um Kolkrabbann sem átti og rak helstu samgöngufyrirtæki, trygginga- og olíufélög auk fjármálastofnana í landinu. Um tíma bættist við Smokkfiskurinn sem sem var leifar af Sambandi íslenkra samvinnufélaga og hafði drjúga hlutdeild meðal annars í fiskútflutningi.

Ramminn utan um þetta tvíveldi var gömul helmingaskiptaregla Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Fái Sjallarnir svo mikið sem einn banka eða tryggingafélag verða Frammarar að fá það líka. Samband íslenskra samvinnufélaga og Framsóknarflokkurinn varð að fá sitt. Stórútgerðin og kaupahéðnarnir urðu einnig að fá sitt í krafti Sjálfstæðisflokksins.


Bankarnir einkavæddir

Eitt er það sem aldrei hefur verið upplýst og núverandi stjórnarflokkar láta undir höfuð leggjast að rannsaka. Þegar ríkisbankarnir voru einkavæddir upp úr aldamótunum fengu Björgólfsfeðgar, sem Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra hafði velþóknun á, 700 til 800 milljóna króna afslátt á Landsbankanum. Afslátturinn var byggður á opnu og gagnsæju ferli og fyrirvara kaupenda um mögulega tapaðar kröfur.

Svonefndur S-hópur framsóknarmanna (Ólafs Ólafssonar, Finns Ingólfssonar, Helga S. Guðmundssonar, Þórólfs Gíslasonar kaupfélagsstjóra o.fl.) fékk milljarða lán hjá Landsbankanum til kaupa á Búnaðarbankanum í ársbyrjun 2003. Það lán var áreiðanlega í nafni helmingaskiptareglunnar.

Vísbendingar eru um að við söluna á Búnaðarbankanum (sem rann umsvifalaust inn í KB banka) hafi á laun verið vélað um sambærilegan afslátt í nafni helmingaskiptareglu stjórnarflokkanna. Hins vegar er enn á huldu hvaða æfingar voru stundaðar við söluna meðal annars vegna tregðu núverandi stjórnarflokka við að rannsaka einkavæðingu bankanna. Samt liggur fyrir samþykkt Alþingis frá 8. nóvember 2012 um að ráðast skuli í slíka rannsókn.

Um aldamótin síðustu fór Davíð Oddsson að hafa áhyggjur af því að einhverjir óprúttnir götustrákar væru að ná undirtökum í viðskiptalífinu á litlu klíkueyjunni Íslandi, þar sem kyrrðin hafði ríkt og yfirstétt fjölskyldnanna hafði verið ósnertanleg, jafnvel af dómstólum, og helmingaskiptareglan hafði skapað frið og þegjandi samkomulag og samhljóm milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Davíð sagði raunar þessum „götustrákum“ (les m.a. Jón Ásgeir Jóhannesson) stríð á hendur því þeir voru ekki auðsveipir Flokknum og riðluðu fjárhagsöryggi hans.

Síðar hrundi allt. Meira að segja Björgólfur Thor Björgólfsson, annar helsti eigandi einkavædds Landsbanka, gapir enn af undrun yfir því hve hratt tókst að steypa bönkunum og þjóðinni í glötun.

Helmingaskiptin lifa enn

Af einhverjum ástæðum er auðsöfnun á fárra hendur hraðari og umfangsmeiri nú en á tímum Kolkrabbans og síðar Baugsmanna og Björgólfa. Fjölskyldurnar eru enn færri en áður. Fyrirtækin í landinu falla eitt af öðru í hendur þessara fáu einstaklinga og fjölskyldna meðal annars í krafti kvótagróða.

Ríkisstjórnin ýtir undir þessa þróun og virðist taka henni með velþóknun.

Hún hefur lækkað álögur á útgerðina og álfyrirtækin.

Hún felldi niður auðlegðarskatt.

Hún undirbýr einkavinavæðingu ríkisbankanna.

Þótt persónur og leikendur kunni að vera aðrir en fyrir meira en áratug er engin ástæða til að ætla að helmingaskiptaregla núverandi stjórnrflokka sé ekki enn virk og vísi þeim veginn þegar skipta þarf góssi.

——-
„Snemma á síðustu öld hófst sú þróun í efnahagslífi Íslendinga, að tveir stjórnmálaflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, skiptu á milli sín öllum arðbærum eignum þjóðarinnar og þar með bönkunum. Helmingaskiptareglan, sem þessir flokkar þróuðu, kom skýrast fram í uppskiptum á verkefnum fyrir varnarliðið og hvernig bankarnir lánuðu út á flokksskírteini. Auðvelt er að nefna fjöldamörg dæmi um helmingaskiptaregluna. Síldarverksmiðjur ríkisins, sem reistar voru um allt land fyrir skattfé borgaranna, voru seldar flokksgæðingum fyrir óverulega fjárhæð. Framsóknarmenn hirtu Búnaðarbankann fyrir vasapeninga og vildarvinir Sjálfstæðisflokksins fengu Landsbankann fyrir lítið fé.“ (Árni Gunnarsson, Mbl. 15. des. 2008)


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283