Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ekki hætta að hafa skoðun

$
0
0

Eyrún B. Magnúsdóttir skrifar:

Það er gósentíð fjölmiðla, hér og erlendis, í kjölfar eins stærsta leka um spillingu sem verið hefur.

Ég veit að margir eru komnir með leiða á umræðu um stjórnmál og þá sérstaklega neikvæðri umræðu um þá aðila sem eru í stjórnmálum á Íslandi í dag. Það er dagur 6 í „mótmælum“ þegar þetta er skrifað og stór hluti þjóðarinnar er búinn að lækka í útvarpinu, hættur að flakka milli fréttamiðla og farinn að pósta jákvæðum fréttum til að vega upp á móti og biðja aðra að gera slíkt hið sama.

Það er leiðinlegt að sjá að sumir þurfa að leita í neikvæðustu orð sem þeir muna og tengja þau við einstakar persónur.

Póstar um vorið og allt sem fylgir því eru yndislegir enda boða þeir komu sumarsins á endanum. Sumarið kemur alltaf aftur, missterkt, en kemur einu sinni á ári sirka. Það er ekkert nýtt undir sólinni í því og orðaforðinn sem tengist því er mun jákvæðari. Enda eigum við ekki að sleppa jákvæðni, alls ekki, bara ekki heldur að gleyma eða hunsa.

Ég var svo heppin að fá að hafa sænskan kennara með mér í nokkrum tímum í síðustu viku, vikuna fyrir Panama-skjölin. Hann var mjög upprifinn af íslenskum stjórnmálum og hvernig við stóðum að því að refsa þeim spilltu, taka á spillingarmálum og líka, sérstaklega, því að við hefðum samið nýja stjórnarskrá og komið henni í gegn. Þannig leit Skandinavía meira og minna á okkur fyrir viku.

Ég, sú skeptíska, brosti og útskýrði fyrir honum að það hefðu vissulega verið mörg hundruð manns sem upphaflega komu að gerð nýrrar stjórnarskrár, en núna sæti afraksturinn fastur í höndum 8 einstaklinga sem virtust alveg á öndverðum meiði um framhald hennar. Ég ýjaði líka að því að þrátt fyrir fangelsun og dóma yfir einhverjum örfáum þá virtist eins og landslagið væri farið að líkjast því sem var fyrir hrun, óþægilega mikið. Spillingarstjórnmál virtust alltaf geta dúkkað aftur upp í okkar fámenna lýðræðisríki. Hann ítrekaði við mig með aðdáun, „en þið gerðuð nýja stjórnarskrá!“

Hvað með það ef henni verður jafnvel sópað undir teppi.

Hvað með það að við tókum hart á nokkrum aðilum fyrst þeir losna út eftir 1/5 af dæmdum tíma, tíma sem var jafnvel hugsaður sem ásættanlegur fórnarkostnaður.

Hvað með það ef við erum með leiðtoga sem ríghalda í meirihlutafylgi sem vissulega var, en þónokkru áður en vantrausti var lýst á þá.

Hvað með það ef að forstjórinn sem var staðinn að verki við að brjóta jafnræðislög (samlíking) getur valið að bíða heima meðan sá sem hann handvaldi tekur að sér að stjórna fyrirtækinu og ráðgjafi hans sér um erlend samskipti við önnur fyrirtæki.

Hvað með það ef að leiðtogi þjóðarinnar og samstarfsmenn og venslar þeirra hafa átt að hluta til þátt í hruninu með miklum afskriftum skulda vegna skýjalána og að sömu aðilar hafi að hluta til grætt á endurreisn hagkerfisins sem almenningur greiddi að stórum hluta fyrir.

Hvað með það þar sem að skattaskjólsmálið snýst ekki að öllu leyti um skatt heldur traust og fordæmi þeirra sem kosnir voru til að hafa hagsmuni þjóðarinnar í fyrirrúmi, ekki sína eða sinna örfáu.

Hvað með það ef að hægt er í dag, eftir allt uppgjörið og allar rannsóknirnar sem að hafa átt sér stað, að enn er hægt að horfa í augu landsmanna og segja hreint út, „ég vil hafa þetta svona og því verður það svona, hvað svo sem lætin fyrir utan biðja um!“ sem kjörinn fulltrúi í meirihluta.

Hvað með það þótt við setjum heimsmet í tengslum ráðherra við aflandsfélög, þar sem 332 ráðherrar V-Evrópu tengjast skýrslunni og þar af eru 3 íslenskir.

Við megum nefnilega ekki gleyma okkur í hlutverki hins almenna borgara. Við megum hreinlega ekki á tímum sem þessum þar sem uppljóstranir sem tengjast t.d. einræði, vopnasölu og peningaþvætti tengjast líka stjórn okkar, segja bara að við séum komin með leiða á neikvæðninni og það muni eitthvað finnast út úr þessu á endanum.

Það sé betra að hugsa um sólina og láta verða sem verður. Kjörnir fulltrúar eiga að vera traustsins verðir, öllum verður á en endalaus dæmi sem sýna fram á að eiginhagsmunir séu teknir fram fyrir þjóðarhagsmuni þýða að við verðum líka að nenna að tala um þetta, nenna að muna þetta, nenna að krefjast betri og heiðarlegri vinnubragða, alveg þangað til traust verður komið á aftur.

Jafnvel þá eigum við líka að nenna að vera gagnrýnin.

Höfundur er í Bjartri framtíð í Árborg


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283