Ég vil hefja þennan leikdóm á því að biðja vinsamlegast fullorðna aðstandendur sýningarinnar og sömuleiðis foreldra barnanna, sem taka þátt í henni að sjá til þess að ekkert barnanna lesi þennan dóm. Ég vil ekki valda þeim misskilningi að hér sé um að ræða dóm yfir þeim. Það, sem ég hef að segja eftir að hafa horft á Made in Children hefur nákvæmlega ekkert með börnin sjálf að gera né þeirra frammistöðu og ég get vel afgreitt það í örfáum orðum, að þau voru öll þekkileg og komu vel fyrir á sviðinu. Ekkert að því. Það er líka heilmargt í sýningunni sem er öðruvísi og vekur athygli manns einmitt af því að börnin standa í sviðsljósinu. En það, sem ég hef að segja um Made in Children varðar þátt hinna fullorðnu og þeirrar stofnunar, sem að sýningunni standa.
Í leikskrá er Made in Children kynnt sem sýning þar sem tíu börn á aldrinum átta til tólf ára standa saman á sviðinu í heimi sem þau hafa ekki búið til. Þau eyða tíma saman, dansa, spila tónlist og tala hvort við annað, mæta heimi fullum af melankólíu, svartsýni, rómantík og ruglingi sem þau hafa erft en ekki beðið um. Það er heimur sem “við” efumst stundum um hvort við ættum að berjast fyrir. Ég set orðið “við” innan gæsalappa af því í texta leikskrár er greinilegt að þar er talað af sjónarhól hinna fullorðnu – ekki barnanna.
Í leikskránni segir ennfremur að sýningin sé á mörkum vonleysis og öfgafullrar bjartsýni, að börnin séu send af stað í leit að háleitu siðferði, djúpstæðum innri frið og betri framtíð. Og sýningin er jafnframt sögð afrakstur rúmlega þriggja mánaða vinnu listrænna stjórnenda sýningarinnar með leikurunum, eftir að hafa hugsað saman, spjallað, leikið sér, búið til tónlist, hangið saman og dansað. Og á sviðinu geti börnin aðeins treyst á sig sjálf, hvort annað og verkfærin sem þau hafa í höndunum að þessu ferli loknu.
Þetta eru býsna stór orð og gefa ansi sterk fyrirheit um það, sem í vændum er. Og hvað fáum við svo að sjá, heyra og upplifa?
Það sem sló mig sterkast undir sýningu Made in Children er hversu óskaplega fátt í sýningunni virtist komið frá börnunum sjálfum. Börnum yfirleitt. Sýningin byggir á fullorðins konsepti sem er mótað kringum hugmyndir fullorðinna um stöðu barna í nútímanum; hlutur barnanna á leiksviðinu er að framkvæma og fremja það sem heyrir því konsepti til. Enda er sjónarhorn hinna fullorðnu mjög skýrt og getur varla greinilegra orðið í leikskrá: börnin eru “send af stað” og eru stödd á sviði “þar sem þau geta aðeins treyst á sig sjálf, hvort annað og verkfærin sem þau hafa nú í höndunum eftir þetta ferli.”
Þetta er megingalli sýningarinnar: börn leika það sem fyrir þeim hefur verið haft, sýningin er ætluð fullorðnum (það er yfirlýst stefna aðstandenda sýningarinnar) og vera barnanna á sviðinu og athafnir þeirra verða að eins konar pólítískri rétthugsun sem fullorðnum áhorfendum er ætlað að taka til sín og væntanlega hrífast af.
Það er þó auðfundið að texti sýningarinnar er ekki mótaður útfrá hugarheimi og hugsun barna. Hreyfingar þeirra og kóreógrafía er heldur ekki komin útfrá þeirra eðlislægu hvötum eða þörfum, nema þar sem gripið er í verkfærakistu leikrænnar tjáningar og dramaæfinga, sem er nú frekar þunnur þrettándi og gefur sýningunni eins konar teurapevtískt yfirbragð sem styrkir niðurstöðu þess er hér ritar: Þetta er fullorðins sýning, leikin af börnum sem hafa verið þjálfuð líkt og sirkusdýr – og það er hreinlega eitthvað ógurlega rangt við það! – miðað við þær forsendur sem lagðar eru sýningunni til grundvallar.
Það er ekkert erfitt að færa rök að því að leiklistin sé að mörgu leyti listin um manninn – jafnvel í ríkari mæli en margar aðrar listgreinar. Í leiklistinni birtist (yfirleitt) skýr afstaða, hún er vegin og metin og ýmist fundin léttvæg eða þung á metum. Útfrá því getur svo list leiksins þreifað fyrir sér með ýmsar lausnir í samræmi við mynstur sögunnar sem verið er að segja. Í því ferli er farið fram og aftur blindgötur eftir því sem ímyndunaraflið leyfir og loks komist að einhverri niðurstöðu. Það sem skiptir máli er hvort útgangspunkturinn sé ekta og hvort þreifingarnar, tilraunirnar um manninn, séu einlægar.
Það má vera stundarkímni í því fólgin að heyra börn tala eins og fullorðið fólk, það getur jafnvel orðið gróteskt og fráhrindandi – líkt og verfremdungseffekt – og á sér sannarlega fyrirmyndir í leiklist, bókmenntum, myndlist og kvikmyndum vestrænnar menningar, en þegar á líður sýninguna verður þetta lítið annað en leikrænir tilburðir sem í raun standa í vegi fyrir að hugsanir og hugmyndir barnanna sjálfra fái að koma fram og áhorfendur fái að taka afstöðu til þess hvaða heim þeir hafi skapað handa þessum börnum – og öllum öðrum börnum þessa heims.
(Þetta er raunar staðfest í kynningarviðtali í Fréttablaðinu 26. mars s.l., þar sem segir að krakkarnir hafi haft mikið fram að færa í umræðu sýningarhópsins, að stundum hafi hinir fullorðnu aðstandendur sýningarinnar “verið að koma með einhverjar senur, texta eða dansa sem við viljum að þau framkvæmi og þá hafa þau einmitt alltaf verið dugleg að spyrja okkur af hverju við viljum gera þetta svona eða hvað það sé sem við viljum segja og svo framvegis.”)
Það má fara ýmsar leiðir í nálgun fullorðinna atvinnumanna í listum og ungra leikenda, sem ekki hafa hlotið sérstaka þjálfun eða skólun til listiðkunar. Það skiptir þó engu máli hvaða leið er farin – valið er ávallt á ábyrgð hinna fullorðnu, listrænu stjórnenda og þeir sem sitja uppi með það val og þurfa á endanum að skila því yfir til áhorfenda, eru leikendurnir. Og, að endingu, áhorfendur.
Það er nefnilega alveg rétt, sem segir í leikskrá og sem vitnað var til hér fyrr, að “á sviðinu geti börnin aðeins treyst á sig sjálf, hvort annað og verkfærin sem þau hafa í höndunum” að æfingaferlinu loknu. Þetta er nú einu sinni eðli alls leikhúss, en er nauðsynlegt að hafa í huga þegar kemur að samvinnu atvinnumanna og áhugamanna. En það er eitthvað beinlínis mótsagnakennt við Made in Children, þegar því er haldið fram að sýningin sé sprottin af vinnu barnanna og þeirra hugsunum um heim fullorðinna. Hún er í raun afrakstur fullorðins hugsana og í sýningunni eru börnin ekki raunverulegir viðmælendur áhorfenda, þau eru hlutgerð. Það er óskaplega röng hugmyndafræði í því.
Það hefði farið betur á því að leyfa börnunum sjálfum að njóta sín – að þeirra hugmyndir um heiminn hefðu verið lagðar til grundvallar sýningunni og að þeirra óskir, langanir og þrár hefðu fengið að móta hana frá allra fyrsta grunni og að það hefði þannig skapast samræða beint á milli barnanna og áhorfenda. Mér segir svo hugur að slík sýning hefði orðið áhugaverðari, áleitnari og gert sterkari kröfu til áhorfenda um að taka afstöðu með börnum sem eru hjálparlaus í heimi andstæðum þeirra eigin hag og framtíðarmöguleikum.
Þess í stað verða börnin málpípur listrænna stjórnenda sýningarinnar og þótt eitthvað í sýningunni sé áreiðanlega frá börnunum komið – sem einnig má lesa um í Fréttablaðsviðtalinu; annað væri líka óhjákvæmilegt eftir þriggja mánaða samvinnu með þeim – þá er sýningin byggð og mótuð út í æsar af hinum fullorðnu listrænu stjórnendum og höfundum. Börnin framkvæma það, sem í raun er komið frá því fullorðna fólki sem sýningin gerir tilkall til að gagnrýna. Einhvers staðar hefði slíkt verið kallað óheilindi og listræn stjórn atvinnuleikhúss hefði átt að taka á því fyrir frumsýningu.
Borgarleikhúsið: Made in Children
Höfundar og leikstjórn: Alexander Roberts, Aude Busson, Ásrún Magnúsdóttir
Tónlistarstjórn: Björn Kristjánsson
Hljóð: Baldvin Þór Magnússon
Leikmynd og búningar: Guðný Hrund Sigurðardóttir
Ljósahönnun: Friðþjófur Þorsteinsson
Leikarar: Flóki Dagsson, Freyja Sól Francisco Heldersdóttir, Herdís Sigurðardóttir, Jörundur Orrason, Kolbeinn Einarsson, Kolbeinn Orfeus Eiríksson, Margrét Vilhelmína Nikulásardóttir, Matthildur Björnsdóttir, Óðinn Sastre Freysson, Ylfa Aino Eldon Aradóttir.