Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Siðrof og viðnám

$
0
0

Siðrof

Þegar efnahagur Íslands hrundi árið 2008 kom hugtakið „siðrof“ inn í umræðuna og varð mikið notað af fjölmiðlum og almenningi. Siðrofið lýsti ástandinu og stöðunni ágætlega og varð eitt aðal orðið í umræðunni hér í lengri tíma. Mikið hefur verið talað um siðrof undanfarna daga eftir atburði þá sem gerst hafa eftir einn stærsta gagnaleka sögunnar, þegar upplýsingar um skattaskjól láku frá Panama. Það sem hefur gerst er að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér sem forsætisráðherra. Ríkisstjórnin fékk nýjan mann til að leiða stjórnina sem stóð af sér tillögu um þingrof og vantraust.

Orðið siðrof er ágætt og hefur þjónað hinu ömurlega pólitíska og siðferðislega ástandi sem umlykur allt hér á Íslandi síðan löngu fyrir hrun. Það er rétt að hér er siðrof landlægt og hefur líklegast verið ansi lengi sérstaklega hjá ákveðnum stéttum fólks.

Þegar efnahagur þessa fólks fór að rísa hratt uppávið og ójöfnuðurinn varð meiri milli þeirra sem hafa og þeirra sem hafa ekki, jókst siðrofið að sama skapi. Til að skilja málið almennilega er alger nauðsyn að snúa málinu alveg á hvolf. Mótmælin undanfarna daga og mótmælin í efnhagshruninu árið 2008 voru ekki við gegn þeim. Almenningur gagnvart elítunni, fólkið gegn þinginu. Mótmælin eru þeir gegn okkur, elítan gegn almenningi. Kerfið gegn okkur. Það má nota orðið „viðnám“ sem viðbót eða í staðinn fyrir orðið siðrof.
red

Viðnámið

Viðnám til að verja sína stöðu, viðnám gegn kröfum almennings og kröfum þjóðarinnar. Meira að segja viðnám gegn kröfum alþjóðasamfélagsins sem lýsir ástandinu hér sem skrípaleik. Erlendis myndu menn ekki komast upp með svona bull eins og þessi atburðarrás hefur einkennst af. Ef forsætisráðherra segir af sér, þá er það svo. Engar furðulegar tilkynningar til erlendra fjölmiðla, engar yfirlýsingar til ESB vegna viðræðna við þá, sem var hlegið að. Svona vinnubrögð hafa virkað á Íslendinga gegnum árin sem sumum finnast furðuleg, en allt of mörgum finnst þau bara í fínasta lagi. Erlendis er hlegið að svona tilburðum.

En hér virkar þetta, og viðnám kerfisins er gegnsýrt stuðningi gríðarlegs fjölda Íslendinga sem njóta góðs af spilltu kerfi. Kerfið verðlaunar þá með störfum, sporslum, klíkuskap og öðru sem kallast spilling erlendis en heitir staðlað viðskiptaumhverfi hér á landi.

Nakti keisarinn

Til að verðlauna þetta stendur þetta fólk á bak við kerfið og veitir viðnám með því að styðja það og berjast gegn breytingum og því sem eru sjálfsagðir hlutir erlendis. Hlutir eins og afsagnir, stjórnarskipti, mannabreytingar, hlutleysi, sanngirni, gegnsæi og almenn skynsemi.

Meðvirknin er alger og það sjá flestir að keisarinn er nakinn, en enginn segir neitt. Of margir kóa með kerfinu og njóta góðs af því þegar þeir verja það. Það vinnur gegn hagsmunum þjóðarinnar og gegn hagsmunum almennings.

Að tala bara um sjálfan sig er mikill löstur þegar maður er þingmaður eða ráðandi aðili sem á að hafa það hlutverk að hugsa um aðra og um heildarhagsmuni þjóðarinnar. Steingrímur J. Sigfússon sagði fyrir ekki margt löngu; „Er ekki þingræði hér?“ þegar verið var að ræða um stjórnvöld. Svarið er einfaldlega nei. Það er ekki þingræði heldur fulltrúalýðræði. Þingmenn og fulltrúar þjóðarinnar eiga að vinna fyrir okkur almenning en ekki fyrir sjálfa sig eða þingið. Þetta svar hans segir gríðarlega mikið um hugsunarhátt hinnar ráðandi stéttar sem hefur ekki neina tengingu við raunveruleikann lengur. Hefur líklega ekki haft jarðtengingu í allavega 30 ár og er þá varlega áætlað.

thak

Ónýtt kerfi

Þegar svona hugsun og svona brengluð sýn á veruleikann er ekki bara landlæg heldur allsráðandi, þá er ekki nema von að ekkert gerist. Engar breytingar sem gagnast almenningi, engar samfélagslegar framfarir, engar efnahagslegar framfarir, ekkert. Það eina sem gerist þegar fólk í ráðandi stöðum talar og hugsar um sjálft sig og þau völd sem það hefur, og berjast með kjafti og klóm til að halda þeim, þegar allt er komið í óefni eins og núna, er viðnám. Viðnám gegn okkur og viðnám gegn öllum breytingum, trausti, almenningi, þjóðinni og því sem nauðsynlega þarf að gerast. Uppgjörinu á öllu ruglinu.

Siðrofið er gjá sem kemur fram í gríðarlegu viðnámi gegn kerfislægum breytingum sem fólk kallar eftir. Gengi Pírata í könnunum er ekki tilviljun í næstum heilt ár. Það er þrýstingur á kerfið um að breytinga sé ekki bara þörf heldur séu þær samfélagslega aðkallandi.

Viðnám kerfisins gengur út á einn hlut eingöngu, að halda völdum til að hygla sér og sínum. Setningar eins og „þið eruð ekki þjóðin“ sem Ingibjörg Sólrún lét út úr sér um árið, og svo hið algerlega sturlaða viðtal við Gunnlaug pabba Sigmundar Davíðs, þegar hann talar um þjóðina sem skynjar uppganginn í samfélaginu og stundar sínu vinnu og stendur sína plikt. Þá er hann að tala um sjálfan sig í mjög brengluðum skilningi á samfélaginu.

skuli

Að vera hluti af samfélaginu

Ég ég ég og aftur ég er mantran. Ég á skilið völdin og þið hin eruð bara leiguliðar og þrælar, er viðhorf þessa fólks sem tekur ekki þátt í samfélaginu. Það notar aðra mynt en við, borgar litla eða jafnvel enga skatta þar sem þeirra peningar eru mikilvægari en okkar, og skila ekki sínu til samfélagsins eins og við hin. Samt nota þau kerfið, búa hér, senda börnin sín í skóla og fara til læknis án þess að skila sínu til jafns við okkur. Það erum við sem borgum undir þetta fólk þegar allt kemur til alls.

Þetta er fólkið sem mætir ekki í okkar partý. Þetta er fólkið sem heldur sér partý fyrir sig og sína vini, og okkur almenningi er ekki boðið þangað.

Þegar viðhorfið og sýnin á samfélagið er svona brengluð þá er skiljanlegt að fólk geri allt sem það getur til að hanga á völdum í stað þess að fara eftir kröfum okkar sem finnst sjálfsagt að hafa kosningar strax þegar algert siðferðishrun er staðfest, eitthvað sem var svo sem viðtað lengi, en það að fá það staðfest er dropinn sem sprengdi stífluna. Kerfið ver sjálft sig með dyggri aðstoð meðvirkra og þeirra sem hagsmuna hafa af því að breyta ekki hlutunum.

Sú staðreynd að Sigmundur Davíð er enn þingmaður og fullur þátttakandi í stjórninni sem þjóðin treystir ekki. Bjarni Ben segir ekki af sér, þrátt fyrir eignir í skattaskjólum og þrátt fyrir gengdarlausa spillingu í sölu á fyrirtækjum til fjölskyldu sinnar svo dæmi séu tekin, það segir meira um stöðu mála hér en margt annað.

Með réttu ætti stjórnin að vera fallin, þjóðin er búin að gefa henni rauða spjaldið í heilt ár núna. Svo mikið er viðnámið og hin kerfislæga vörn er slík að nánast ekkert gerist þrátt fyrir einn mesta skrípaleik sem sögur fara af í pólitík innan Evrópu, og þótt víðar væri leitað.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283