Fréttatilkynning:
Næstelsti viti landsins sem jafnframt er næstelsta steinhús landsins fær nú verðuga andlitslyftingu með nýju ljóshúsi, en vitinn hefur verið án þess frá árinu 1944 þegar lýðveldisvitinn sem stendur við hlið hans tók við hans upprunalega hlutverki. Ljóshúsið verður sett upp kl. 14.30 föstudaginn 15. apríl við hátíðlega athöfn.
Lengi hefur það verið draumur Vitafélagsins að sjá ljóshús á Garðskagavita sem hefur staðið höfuðlaus frá árinu 1944 þegar yngri en viðameiri viti tók við hans upprunalegu hlutverki en þá var ljóshúsið fjarlægt af gamla vitanum.
Þetta mannvirki lætur kannski ekki mikið yfir sér en á sér þess merkari sögu. Vitinn var reistur árið 1897, hannaður af danska verkfræðingnum Thorvald Krabbe, sem var starfsmaður dönsku vitamálastofnunarinnar.
Vitinn var í hópi fyrstu vita landsins sem voru friðaðir en það var gert af menntamálaráðherra 1. desember 2003. Þessi bygging er ekki einungis merkileg sökum friðlýsingar heldur einng fyrir þær sakir að þetta er næstelsti uppistandandi viti landsins og næstelsta steinhús landsins. Einungis Dalatangaviti er eldri – eini viti landsins sem byggður var af einkaaðila, en það gerði norski kaupmaðurinn Otto Wathne og íbúðarhúsið á Sveinatungu í Borgarfirði er elsta steinhús landsins.

Gamli vitinn á Garðskaga
Þó svo að vitasaga heimsins sé ævaforn og vitinn í Alexandríu í Egyptalandi hafi verði talinn eitt af sjö undrum fornaldar er vitasaga Íslands einnig mjög merk, meðal annars fyrir þær sakir hversu ung hún er. Myrkur og samskiptaleysi var allsráðandi og á einokunartímanum kom varla nokkur sála til þessa lands nema yfir björtustu sumarmánuðina.
Þegar fyrsta þingið frá því á miðöldum kom saman í Lærða skólanum í Reykjavík árið 1875 þá er hægt að segja að vitasaga Íslands hafi hafist og fyrsti vitinn var síðan reistur á Valahnjúk á Reykjanesi árið 1878. Vitinn hafði ekki einungis áhrif á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, en með honum kom líka tækni- og iðnþekking þannig að í raun hófst iðnbyltingin á Íslandi með tilkomu hans.
Vitafélagið – íslensk strandmenning er afar stolt af því að sjá þennan aldna höfðingja loks geta horft út yfir Atlantsála og vill þakka öllum þeim sem komu að þessu verki með okkur. Ber þar að nefna Sveitarfélagið Garð, Vegagerðina, Minjastofnun/Húsafriðunarnefnd og Stálorku í Hafnarfirði sem annaðist þessa listasmíði og Landhelgisgæsluna sem mun koma ljóshúsinu á sinn stað.