Hafsteinn Sverrisson skrifar:
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna benti nýlega á að liggja þurfi fyrir hvort Píratar skilgreini sig til hægri eða vinstri. Benti hún þá einnig á að ein helsta átakabirtingarmynd Pírata í vetur hafi snúið að því hvort pláss sé fyrir hægri og vinstri stefnu innan þeirra samtaka.
Katrínu þekki ég ekki persónulega, en hef heyrt fátt annað en gott um hana sagt. Þá hef ég fulla trú á því að hún geti verið öflugur stjórnmálamaður sem jafnframt er talsmaður fólksins í landinu, en svo vel megi vera tel ég afar mikilvægt að hún líti í aðrar áttir en til hægri eða vinstri.
Í áratugi hafa þessi hægri og vinstri öfl átt í eilífum átökum inni á Alþingi. Hafa þá þeir sem hallast til vinstri viljað eitt og hægri menn viljað eitthvað allt annað, en hvorugum virðist hafa dottið í hug að hvað það er sem fólkið í landinu vill.
Þegar kemur að gamla fjórflokknum, sem ýmist skilgreinir sig til hægri eða vinstri, þá virðist oftar en ekki mikill skortur á sjálfstæðum hugsunum eiga sér stað, slíkt sýnist þó mjög áberandi þegar litið er á hægri vænginn. Hver kannast ekki við að hafa heyrt þingmenn sem hallast til hægri svara spurningum fréttamanna á þessa leið: „jah, við verðum bara að bíða eftir því hvað formaðurinn segir“? Minna slík svör oftar en ekki á einhverja kvikmynd þar sem hirðfíflið beygir sig í einu og öllu undir vilja konungsins.
Eitt af mörgu sem heillar mig við Pírata er að þar hef ég ekki séð neina þörf á skilgreiningu til hægri eða vinstri. Innan Pírata hef ég ekki tekið eftir öðru en að allir séu velkomnir og það besta er að innan Pírata hafa allir rödd. Þá tel ég hugtakið samvinna standa sterkt innan Pírata. Ég hef ekki fundið fyrir að ég þurfi að hneigja mig og beygja eins og eitthvað hirðfífl, eftir hentugleika eins aðila sem tekið hefur sér sæti konungs.
Stefna Pírata er fljótandi og aðlagast samtímanum og þeim gildum sem eru viðhöfð á hverjum tíma. Píratar hafna miðstýringu valds og vilja dreifa valdinu á fleiri en einn aðila. Stefnan er skýr, við stefnum fram á veginn og kemur ekki til greina að taka einhverjar vinstri eða hægri beygjur á leiðinni.
Ekki ætla ég að voga mér að tala fyrir hönd allra Pírata, en eins og ég hef upplifað starfið þá tel ég ekki Pírata þurfa að skilgreina sig, hvorki til hægri né vinstri. Eina skilgreiningin sem þörf er á er sú að Píratar eru mættir til að vinna fyrir almenning í landinu.
Píratar eru mættir til að tryggja að raddir fólksins heyrist.
Píratar eru mættir til að tryggja lýðræði.
Hafsteinn Sverrisson er viðskiptalögfræðingur og stjórnarmaður Pírata á vesturlandi