Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Fimm milljónir fyrir árás á RÚV en ein og hálf fyrir Panamaskjölin

$
0
0

Þingmenn stjórnarmeirihlutans tala gjarnan um forgangsröðun. Nú telji hver króna og að allt sé undir. Raunin er allt önnur. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs, sem nú er leppuð af Sigurði Inga Jóhannssyni, telur ekki krónurnar þegar kemur að eigin fólki en hefur linnulaust skorið niður í þjónustu við almenning.

Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa ekki vílað fyrir sér að beita kerfinu í úthlutun bitlinga fyrir eigið fólk. Það einkennir valdaflokka að aðgreina ekki flokkinn og kerfið, því kerfið er flokkurinn og án peningakerfisins er flokkurinn í dauðateygjum.

Skýrasta birtingarmynd þess að niðurskurður síðari ára er drifinn áfram af trylltri hugsjón, ekki vilja til að ná sem mestum árangri í þágu almennings fyrir peningana, er sú staðreynd að fimm milljónum var eytt í hrákasmíðaskýrslu Eyþórs Arnalds um rekstur RÚV. Eyþór gekk svo langt að leppa fyrir samkeppnisaðila RÚV og birta valdar glærur frá samkeppnisaðilum um meinta hnignun RÚV. Fyrir það fékk hann greitt og var lofaður af ráðherra sem alla jafna þykist standa fyrir hag stofnunarinnar. Merki þess finnast reyndar ekki í gjörðum og varla í orðum. Í skýrslunni kemur ekkert nýtt fram er varðar rekstur RÚV, en úr öllu er snúið RÚV í óhag. Skýrslan bauð engin svör, engar lausnir og ekki einu sinn rétt talnagögn en hana mátti ekki gagnrýna, að mati Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra með veikingu RÚV að markmiði.

Glæra úr Eyþórsskýrslunni úr rannsókn sem ekki var birt opinerlega. Rannsóknin er unnin af MMR fyrir Símann. MMR gaf menntamálaráðuneytinu ekki leyfi til að nota skýrsluna og ekkert var greitt. Eyþór Arnalds fór ítrekað með þvælingar og ósannindi þegar Kvennablaðið spurði hvaðan glæran kemur. Þá er enn ósvarað hvers vegna markaðsrannsókn Símans svarar spurningum um fjárframlög RÚV.

Glæra úr Eyþórsskýrslunni birtir gamla rannsókn sem ekki var unnin til opinberrar birtingar. Rannsóknin er unnin af MMR fyrir Símann. MMR gaf menntamálaráðuneytinu ekki leyfi til að nota skýrsluna og ekkert var greitt fyrir. Eyþór Arnalds fór ítrekað með þvælingar og ósannindi þegar Kvennablaðið spurði hvaðan glæran kæmi. Þá er enn ósvarað hvers vegna markaðsrannsókn Símans svarar spurningum um fjárframlög RÚV eða eru hluti af lausn þess vanda. Glæran er hins vegar afar gagnleg til að ýta undir hugmyndir um að RÚV sé gamaldags og raunar væri rétt að breyta stofnunni í Youtube-rás sem hugsanlega gæti verið í höndum fjarskiptafyrirtækis úti í bæ.

Skýrslan var svo notuð til enn einna þrenginganna að RÚV. Skýrslan sem átti að leiða til lykta hvers vegna fjárhagsstaða RÚV væri svo slæm varð sem sagt vopn manna sem vilja þrengja enn frekar að RÚV.

Tölum aðeins um milljónirnar fimm. Nú virka þær kannski ekki mikið fé til að kasta í eina skýrslu en fyrir milljónirnar fimm hefði RÚV getað keypt Kastljósþáttinn um Panamalekann þrisvar. Fyrir milljónirnar fimm hefði verið hægt að ráða rannsóknarblaðamann á fullum launum í heilt ár við að vinna fréttir sem gagnast gætu samfélaginu. Þar á meðal þátt um það hvers vegna RÚV er alltaf í kröggum. Það hefði sami maður – verandi hæfur blaðamaður vanur vinnuálagi langt umfram ráðherra og Eyþór Arnalds – gert á hálfum mánuði og fagnað þeim mikla tíma sem hann fékk. Niðurstaðan hefði þó væntanlega verið aðeins önnur en Eyþórsskýrslunnar. Sú niðurstaða að á bak við fjársvelti RÚV væri fyrst og fremst einbeittur pólitískur vilji stjórnmálaflokka þvert á flokkslínur.

Þegar milljónirnar fimm eru svo settar í samhengi við það hvernig mokað er undir Hannes Hólmstein. Nú eða að Guðfinna S. Bjarnadóttir, fyrrverandi þingkona Sjálfstæðisflokksins, moki hreinlega að sér verkefnum. Að peningar eru til handa flokksmönnum í góð störf og að lestrarátak verður bara að fara í gegnum flokksfélaga þá birtist okkur nokkuð skýr mynd. Þetta snýst ekki um að ekki séu til peningar í almannaþágu heldur að almannafé er beinlínis beitt gegn fjöldanum af flokkum sérhagsmuna.


Sjá einnig: 


Íslendingar verða að fara að ræða sín á milli hvað veldur því að við búum í samfélagi þar sem rannsóknarblaðamennska er ekki verðlaunuð heldur skrimtir en pólitísk skemmdarverk finna sér bæði fjárstuðning og vildarmenn.

Rannsóknarblaðamennska og sterkir fjölmiðlar eru ódýrasta leiðin til umbóta. Það eru þúsundir Panamapappíra sem aldrei var fjallað um vegna þess að almenningur tók ekki þátt í að fjármagna rannsóknarblaðamennsku nema af hálfum hug. Vegna þess að Ísland eitt Evrópuríkja er ekki með virkan stuðning við blaðamennsku. Vegna þess að RÚV er haldið í fjársvelti og vegna þess að einkamiðlar hætta framleiðslu á Kompás til að rýma fyrir Wipeout örskömmu eftir efnahagshrun. Staða fjölmiðla á Íslandi er ekki á ábyrgð óbreyttra blaðamanna heldur samfélags sem gerir ekki þá kröfu til sjálfs síns að til staðar séu öflugir fjölmiðlar. Þvert á móti keppast sumir við að tala fjölmiða niður og setja þá alla undir sama hatt.

Blaðamenn borða ekki læk né smelli.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283